Nýr stjórnarformaður Kadeco er hinn 24 ára gamli Ísak Ernir Kristinsson en hann var skipaður í stjórnina í síðustu viku. Ísak, sem hefur verið virkur í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins frá 16 ára aldri, var skipaður í stjórnina af Bjarna Benediktssyni, fjármála- og efnahagsráðherra.
Hann tekur við formennsku stjórnar af Georgi Brynjarsyni hagfræðingi. Sjálfur er Ísak flugþjónn hjá Wow air ásamt því sem hann stundar nám við viðskiptafræði í HR. Laun stjórnarformanns eru 270 þúsund krónur á mánuði.
Þá hefur Ísak gegnt stöðu formanns Heimis, félags ungra Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, setið í stjórn Sambands ungra Sjálfstæðismanna ásamt því að hafa gegnt formennsku í Sjálfstæðisfélagi Keflavíkur. Þar að auki var hann varabæjarfulltrúi í Reykjanesbæ á síðasta kjörtímabili.
Félagið Kadeco er þróunarfélag sem fer með þær fasteignir sem áður voru í umsjá Bandaríkjahers. Samkvæmt sérstökum þjónustusamningi sér félagið um þróun og útleigu þess lands sem áður tilheyrði hernum. Í tilkynningu félagsins um aðalfund þess kom fram að félagið hefði selt nánast allar fasteignir sem það hafði í umsýslu sinni. Hins vegar væru ekki upp áform um að hætta starfsemi þess.
Athugasemdir