Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands, fylgdi Sjálfstæðisflokknum, Miðflokknum og Flokki fólksins að þegar kosið var í ráð og nefndir á fyrsta fundi nýrrar borgarstjórnar í dag. Sanna greinir frá því á Facebook að þetta hafi hún gert af praktískum ástæðum til að tryggja Sósíalistaflokknum fleiri sæti en flokkurinn hefði ellegar fengið.
Vigdís Hauksdóttir, fulltrúi Miðflokksins, sagði í upphafi borgarstjórnarfundar að minnihlutaflokkarnir hefðu ákveðið að bjóða fram og kjósa sameiginlega í ráð, nefndir og formennsku. Þetta gekk eftir. „Ég hefði þurft að láta segja mér tvisvar að Sanna myndi styðja Eyþór til formennsku í skipulagsráði og Vigdísi í formannsku í umhverfis- og heilbrigðisráði og að þau styddu hana á móti í formennsku í velferðarráð,“ skrifaði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri á Twitter í kvöld.
Á fundinum sagði Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins: „Ég vil upplýsa um að framkvæmdarstjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins sendi fyrir hönd allrar stjórnarandstöðunnar skipan okkar í nefndir á Helgu Björk Laxdal, skrifstofustjóra borgarstjórnar.“
Sanna hefur sætt harðri gagnrýni á samfélagsmiðlum fyrir að hafa stillt sér upp með minnihlutaflokkunum. Er þá meðal annars vísað til pistils sem hún skrifaði þann 30. maí síðastliðinn, þar sem hún vitnaði í Malcolm X og notaði líkingarmál um húsþræla til að rökstyðja hvers vegna hún vildi ekki taka þátt í viðræðum eða meirihlutasamstarfi við þá yfirlýstu vinstri- og miðjuflokka sem þá áttu í óformlegum samtölum um hugsanlegt meirihlutasamstarf.
„Það er engin von að okkur takist að byggja
upp sterka hreyfingu hinna valdalausu bundin
við samkomulag við hægri öflin og
miðjuna í stjórnmálunum“
„Fjöldahreyfing þrælanna á akrinum var samstaða gegn óréttlætinu. Ekki beiðni um eilítið stærri matarskammt. Heldur samstaða um að fella hið óréttláta kerfi,“ skrifaði Sanna. „Það er engin von að okkur takist að byggja upp sterka hreyfingu hinna valdalausu bundin við samkomulag við hægri öflin og miðjuna í stjórnmálunum. Við munum ekki geta unnið að hagsmunum fólksins á akrinum liggjandi á dýnu í kjallara þrælahaldarans.“
Vill samstöðu með Sjálfstæðisflokknum,
Miðflokknum og Flokki fólksins
Sanna brást við harkalegri gagnrýni á kosningablokk minnihlutans á Facebook-hópi Sósíalistaflokksins í kvöld. Þar segir hún að kosningabandalagið hafi þjónað þeim tilgangi að tryggja Sósíalistaflokknum fleiri sæti í ráðum, stjórnum og nefndum borgarinnar. Sósíalistar hafi skuldbundið sig til að kjósa fulltrúa Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka í veigamikil embætti gegn því t.d. að Sjálfstæðisflokkurinn gæfi Sósíalistum eftir sæti í stjórn Félagsbústaða.
„Flokkar í svokölluðum minnihluta tóku sig til á tal við okkur eftir að meirihlutasamstarf var samþykkt og buðust þeir með flesta kjörna fulltrúa þar til að láta eftir fleiri sæti til okkar í ráð, stjórn og nefndir en við hefðum fengið ein á báti eða með hinum litla flokkunum,“ skrifar hún. „Að bjóða fram slíkan sameiginlegan lista tryggir sósíalistum fleiri sæti og áhrifastöðu til að láta málefnin okkar heyrast en ef við hefðum ekki gert svona. Án þess að vera bundin hefði D fengið öll sætin. Að kjósa með lista sem við lögðum fram er ekki litið svo á að styðja D heldur að sýna samstöðu stjórnarandstöðu. Slíkt er gert til að hrista upp í svokölluðum meirihluta. Vissum lika að slíkt myndi aldrei ná í gegn með 12 á móti 11. Sósíalistar fá meira með þessu. D lætur t.d. eftir sæti stjórn til Félagsbústaði til Sósíalistaflokksins. Ég vona að þetta sé skýrt en skýri nánar frá að loknum fundi.“
Daníel Örn Arnarsson, varaborgarfulltrúi Sósíalistaflokksins, tekur í sama streng og skrifar: „D græðir ekkert á okkur. Allt þetta samkurl er eingöngu praktísks eðlis til þess að vera öflug stjórnarandstaða úr báðum áttum. Þeir eru ennþá óvinurinn en þau eru valdalausi óvinurinn í borginni. Ég endurtek það er og verður aldrei neinn málefnalegur hljómgrunnur á milli sósíalista og D“.
Athugasemdir