Fáni Tyrklands var dreginn að húni á Stjórnarráðsbyggingunni á tólfta tímanum í dag. Að verki var Darri Hilmarsson, bróðir Hauks Hilmarssonar sem er saknað eftir að Tyrkir réðust inn í Afrin-hérað í Sýrlandi fyrr á þessu ári. Hafði Haukur tekið þátt í baráttu gegn Íslamska ríkinu.
Íslensk yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir linkind og meðvirkni gagnvart Tyrklandsstjórn, en Tyrklands er bandalagsríki Íslands innan NATO auk þess sem Réttlætis- og framfaraflokkur Recep Tayyip Erdoğan Tyrklandsforseta er systurflokkur Sjálfstæðisflokksins í Evrópusamtökum íhalds- og umbótasinna.
Fjöldi þjóðþekktra Íslendinga sendi Katríni Jakobsdóttur forsætisráðherra opið bréf þann 23. apríl síðastliðinn, kallaði eftir metnaðarfyllri aðgerðum og gerði athugasemdir við að svo virtist sem rannsókn utanríkisráðuneytisins á hvarfi Hauks hefði verið framkvæmd „með sem minnstri fyrirhöfn og með það fyrir augum að styggja ekki tyrknesk yfirvöld – þau sömu og talin eru hafa sært, handsamað eða jafnvel myrt Hauk“.
„Að sögn íslenskra stjórnvalda hafa Tyrkir neitað því að þeir séu með líkið. Utanríkisráðuneytið hefur synjað beiðni okkar um að spyrja fjölmiðlana út í heimilidir fyrir þessum fréttum, þau treysta bara tyrkneskum stjórnvöldum,“ skrifaði Eva Hauksdóttir, móðir Hauks, nýlega. „Bæði Katrín Jakobsdóttir og Guðlaugur Þór hafa hundsað ábendingar okkar um að sennilega hafi Tyrkir vanrækt þá skyldu sína að hirða lík og líkamsleifar af svæðinu og um svívirðilega meðferð Tyrkja á líkum andstæðinga sinna.“
„Haukur Hilmarsson týndist í árás Tyrklandshers á sýrlenska Kúrdistan. Íslenska ríkið, undir veiklulegri leiðsögn Katrínar Jakobsdóttur, hefur ekki viljað styggja Tyrki með því að spyrjast um of um hvað þeir gerðu við hann,“ skrifar Benjamín Julian, vinur Hauks á Facebook. „Darri Hilmarsson, bróðir Hauks, klifraði af því tilefni áðan upp á þak stjórnarráðsins og dró fána Tyrklands að húni – enda stjórnarráðið greinilega ekki meira fullvalda en svo að það buktar sig fyrir valdatrylltum alræðissinnum. Sérsveitin tók Darra niður af þakinu, en ekki fyrr en hún hafði dansað kringum hann til að skipta aftur yfir í íslenskan fána, enda skipta mannslíf þessarar fjölskyldu yfirvöld minna máli en tilgerðarsjálfræði og táknadýrkun.“
Haukur Hilmarsson er einna frægastur fyrir pólitískan gjörning sem hann framkvæmdi í kjölfar bankahrunsins 2008, þar sem hann flaggaði Bónusfána á þinghúsinu til að vekja athygli á samkrulli stjórnmála og viðskiptalífs. Nú, tíu árum síðar, lagði bróðir Hauks leið sína upp á Stjórnarráðshúsið og dró tyrkneska fánann að húni til að mótmæla því sem aðstandendur Hauks upplifa sem meðvirkni íslenskra stjórnvalda gagnvart Tyrklandsstjórn.
Lögreglan var fljót á vettvang, fór upp á þakið og tók Darra höndum. „Maðurinn, sem var handtekinn mótþróalaust, var færður á lögreglustöð og bíður nú yfirheyrslu,“ segir í fréttatilkynningu frá lögreglunni um málið.
Athugasemdir