Þingflokkur Pírata segir ríkisstjórnina hafa sett pólitíska hagsmuni ofar hag barna með því að gefa villandi upplýsingar um viðfangsefni óháðrar úttektar um barnaverndarmál og bjóða Braga Guðbrandsson fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna án þess að ávirðingar á hendur honum hefðu verið rannsakaðar með fullnægjandi hætti. Þar hafi samtrygging stjórnmálanna verið sett ofar vandaðri stjórnsýslu.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem þingflokkurinn sendi frá sér í gær, daginn eftir að úttekt Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents um meðferð velferðarráðuneytisins á kvörtunum barnaverndarnefnda undan stjórnsýslu Barnaverndarstofu og óformlegum afskiptum forstjóra stofnunarinnar af einstökum málum.
„Fullyrt var í upphafi að um óháða úttekt væri að ræða sem tæki til málsmeðferðar Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda og ráðuneytisins í tilteknum barnaverndarmálum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins 2. maí síðastliðinn. Síðar var það hlutverk þrengt án þess að greint væri frá opinberlega og tekur því úttektin aðeins til stjórnsýslu ráðuneytisins,“ segir í fréttatilkynningu Pírata. Stundin fjallaði um þetta atriði í gær og hefur sent forsætisráðuneytinu fyrirspurn um málið.
„Þingflokkur Pírata harmar hversu lítinn vilja virðist að finna hjá framkvæmdavaldinu til naflaskoðunar sem leitt gæti til raunverulegra umbóta í málaflokknum en leggja þess í stað allan kraft í að sópa málinu undir teppi. Þar eru pólitískir hagsmunir settir ofar hag barna. Hér hefur samtrygging stjórnmálanna verið sett ofar góðri og heiðarlegri stjórnsýslu,“ segir í tilkynningunni.
Telur þingflokkurinn að spurningum um réttmæti framboðs Braga Guðbrandssonar til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna sé enn ósvarað, enda hafi ráðuneytinu láðst að sinna rannsóknarskyldu sinni þegar kvartað var undan ítrekuðum óformlegum afskiptum Braga af einstökum barnaverndarmálum.
Bent er á að úttektarnefndin hafi ekki lagt heildarmat á eða tekið efnislega afstöðu til starfshátta Braga Guðbrandssonar. Niðurstaðan sé sú að velferðarráðuneytið hafi ekki upplýst málsatvik nægilega vel til þess að geta tekið ákvörðun um lögmæti embættisfærslna Braga. Hafi ráðuneytið hvorki virt rannsóknarregluna né andmælaregluna við meðferð málsins.
Í úttektinni er velferðarráðuneytið gagnrýnt harðlega fyrir að hafa ekki kannað betur afskipti Braga af svokölluðu Hafnarfjarðarmáli og óskað skýringa á þeim.
Samkvæmt einu samtímagögnunum um afskiptin sem til eru beitti Bragi sér fyrir því að stúlkur yrðu látnar umgangast föður sinn þrátt fyrir grunsemdir barnaverndarnefndar og meðferðaraðila um kynferðisbrot. Þetta gerði Bragi í kjölfar þess að föðurafi stúlknanna hafði leitað til hans.
Skjöl sem birt eru í úttekt Kjartans Bjarna og Kristínar um Hafnarfjarðarmálið eru þau sömu og umfjöllun Stundarinnar þann 27. apríl byggði á.
Athugasemdir