Óháða úttektin um um barnaverndarmál sem birt var í gær fjallar aðeins um hluta þess sem forsætisráðuneytið boðaði að yrði tekið til skoðunar þegar tilkynnt var um gerð úttektarinnar á vef forsætisráðuneytisins þann 2. maí síðastliðinn.
Í fréttatilkynningu forsætisráðuneytisins kom fram að úttektin beindist að málsmeðferð Barnaverndarstofu, barnaverndarnefnda og velferðarráðuneytisins í tilteknum barnaverndarmálum.
Tilkynningin um úttektina varð til þess að velferðarnefnd Alþingis ákvað að gera hlé á umfjöllun sinni um embættisfærslur Braga Guðbrandssonar og Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra og aðhafast ekkert fyrr en eftir að niðurstöður úttektarinnar lægju fyrir.
Af samskiptum Stundarinnar við utanríkisráðuneyti Norðurlandanna má ráða að stjórnvöld þar hafi haldið, rétt eins og þingmenn á Íslandi, að úttektin beindist sérstaklega að vinnubrögðum og embættisfærslum Braga Guðbrandssonar, frambjóðanda Norðurlandanna til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Tilkynning forsætisráðuneytisins var hins vegar send út áður en gerður var verksamningur við úttektaraðila, þau Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara og Kristínu Benediktsdóttur dósent við lagadeild HÍ.
Velferðarráðuneytinu var falið að gera þann samning, en samið var um að afmarka úttektina og láta hana beinast sérstaklega að málsmeðferð velferðarráðuneytisins. Stundin greindi frá þessu í frétt þann 31. maí síðastliðinn, en þá hafði velferðarnefnd Alþingis ekki fengið upplýsingar um að markmið úttektarinnar hefði verið endurskoðað og þrengt á skilgreiningu verkefnisins.
Í úttektinni sjálfri, sem birtist á stjórnarráðsvefnum í gær, kemur skýrt fram að úttektin hafi verið unnin í samræmi við verksamninginn og hafi beinst að málsmeðferð og efnislegri athugun ráðuneytisins í kjölfar kvartana barnaverndarnefnda í Reykjavík, Hafnarfirði og Kópavogi vegna Barnaverndarstofu og forstjóra hennar.
„Ljóst er að umræddar kvartanir byggðust á því að alvarlegar brotalamir væru á stjórnsýslu barnaverndarmála á Íslandi og miðar úttektin af þeim sökum að því að upplýsa hvernig ráðuneytið brást við þessum kvörtunum sem æðsta yfirvald barnaverndarmála. Þá beinist úttektin einnig að athugun ráðuneytisins í kjölfar ábendingar formanns barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar, 16. nóvember 2017, um afskipti formannsins af svokölluðu Hafnarfjarðarmáli árið 2017 og þeirri niðurstöðu sem ráðuneytið lýsti í bréfi til forstjóra Barnaverndarstofu, dags. 27. febrúar 2018, meðal annars um að hann hafi farið út fyrir verksvið sitt og ekki sett málið í réttan farveg.“
Í úttektinni er ekki tekin efnisleg afstaða til vinnubragða og embættisfærslna Braga Guðbrandssonar í svokölluðu Hafnarfjarðarmáli að öðru leyti en því að bent er á að á grunni fyrirliggjandi gagna hafi ekki verið hægt að slá því föstu að Bragi hefði farið út fyrir verksvið sitt með afskiptum að málinu né brotið gegn þagnarskyldu í samskiptum sínum við föður málsaðila.
Ráðuneytið hafi ekki upplýst málsatvik nægilega vel til að geta lagt dóm á embættisfærslur Braga og hvorki rækt rannsóknarskyldu sína né andmælaregluna gagnvart Braga við meðferð málsins.
Athugasemdir