Það er búið að uppgötva hana, stóru framtíðarauðlind Íslendinga. Fjárfestarnir myndu stökkva til, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að auðlindin viðheldur aðeins verðmæti sínu ef hún er látin vera. Eini fjárfestirinn sem getur tryggt hana erum við sameiginlega.
„Í dag njóta íslensku óbyggðirnar og einstakt umhverfi vaxandi viðurkenningar sem mikilvæg efnahagsleg auðlind,“ sagði í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu um Ísland á síðasta ári. Stofnunin kemur með upplýst gests auga um hvernig tryggja megi hagsæld í ríkjum sem eiga aðild að henni. Skilaboðin til Íslendinga voru skýr: Við yrðum að vernda óbyggðirnar fyrir okkur sjálfum og aðgangi ferðamanna, með því að verja þær fyrir innviðauppbyggingu.
En margt bendir til þess að við höfum mestmegnis ákveðið að hafna stóra tækifærinu. Firðir eru markvisst þveraðir til að spara til skamms tíma. Fólki úti á landi er att gegn langtímahagsmunum þjóðarinnar með stefnu eða stefnuleysi ríkisins. Á sama tíma er lögð áhersla á að takmarka verulega arðgreiðslur til þjóðarinnar af nýtingu sameiginlegra auðlinda.
Óbyggðirnar kveðja
Í skýrslu fyrir tveimur árum kom fram að á tveimur áratugum hefðu óbyggðir á jörðinni verið skertar um tíu prósent – með ýmiss konar innviðauppbyggingu og hagvaxtaraukandi framkvæmdum. Óbyggðir eru að verða sjaldgæfari, og það þýðir að samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar verða þær verðmætari. Á sögulegum skala gerist þetta á ógnarhraða og uppbygging ferðamennsku á Íslandi er að langstærstum hluta rakin til ósnortinnar náttúru sem landið hefur að bjóða og íbúar þéttbyggðari landa sækja í.
Íslensku óbyggðirnar eru eins og Picasso-málverk að því leytinu til að þær eru fallegar, fágætar og það verður ekki meira til af þeim í framtíðinni. Að öðru leyti eru þær gjörólíkar. Þær verða ekki framleiddar, voru ekki skapaðar af manninum, verða ekki endurskapaðar af neinum manni, og eru óafturkræfar í raunveruleika sínum, á tímaskala mannsins.
Ránsbarónar sem taka toll
Einkaeign á landi getur verið farsælasta leiðin til að tryggja arðsemi af því, en það er ekki svo þegar verðmæti þess liggja í því að það sé frjálst og óraskað, eins og gildir um verðmæti óbyggðanna.
Mörg dæmi eru úr mannkynssögunni um hvatann til þess að ganga á óbyggðir, yfirtaka almannaland og ganga jafnvel gegn almannahag. Í Þýskalandi á miðöldum stunduðu landeigendur, svokallaðir „ránsbarónar“, að rukka tolla við hvert tækifæri á ánni Rín, til dæmis með því að strengja járnkeðjur yfir fljótið og reisa turna við það, þannig að frjáls umferð væri heftanleg í þeirra þágu og þeir öðluðust einkarétt á umferðinni.
Í Bretlandi var stöðugt gengið á svokallaða almenninga, land sem íbúar á svæðinu deildu til eigin nota, og eignarhald fór frá almenningi til landeigenda.
Aukin yfirtaka óbyggðanna leiðir almennt af sér mismikla framleiðniaukningu, en hún þýðir líka að verðmæti eftirstandandi óbyggðanna aukast heildrænt, þótt þær séu ekki bókaðar undir nafni í bókhaldi hagkerfisins samkvæmt núverandi reikningsskilareglum hagfræðinga.
Íslenski tollheimtuiðnaðurinn
Í okkar tilfellum vilja eigendur að landi sem liggur að náttúruperlum tryggja sér tekjur með þeim formerkjum að byggja þurfi upp innviði til að vernda náttúruna frá ágangi ferðamanna. Þeim liggur jafnvel svo á að þeir halda úti lágt launuðum tollheimtumönnum í trássi við lög þar til lögreglan stöðvar þá.
Ferðamenn eru ekki ótakmörkuð auðlind og stakur ferðamaður sem verður fyrir tollheimtu fyrir að sjá náttúru mun verja minni fjármunum í annað og skerðast þannig tekjur annarra í ferðaþjónustu. Aukin tollheimta felur í sér að aukin velta í hagkerfinu snýst um að byggja upp tollheimtuaðbúnað og starfsemi í þágu einkaaðila. Kostirnir eru þeir að eigendur náttúruperlunnar munu halda henni við, en ókostirnir þeir að þeir munu hámarka flæði fjármagns til sín, hámarka arðsemi umfram kostnaðinn við að viðhalda.
Hlutverk ríkisins væri hins vegar ekki að hámarka tollheimtustarfsemi og arð af henni, heldur að viðhalda náttúruperlum í þágu almannahagsmuna, þeirra hagsmuna að fá ferðamenn aftur til landsins, og fá þá sem flesta, í nafni langtímahagsmuna.
Einkaaðili mun ekki vernda óbyggðir, því hann hefur ekki hag af því, þótt almenningur hafi hag af því. Eina leiðin væri að framkalla hvata fyrir einkaaðila til að velja fjárfestingu í verndun umfram nýtingu.
24 í Árneshreppi
Fólkinu í Árneshreppi var gefinn sá valkostur að fá auknar útsvarstekjur, sérstaklega tímabundið, og 15 milljónum króna meira í fasteignagjöld á ári, traustara raforkukerfi og svo sitt hvað smálegt óljóst, eins og hugsanlega yfirhalningu á húsnæði barnaskólans með mögulegu fjárframlagi frá Vesturverki, undirfyrirtæki HS Orku. Það gegn því að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir Hvalárvirkjun.
„Það þarf að fórna einhverju,“ sagði oddvitinn í hreppnum og taldi að „enginn væri að skoða“ óbyggðirnar sem yrðu skertar og fossana sem hyrfu að mestu leyti.
24 atkvæði af 44 í sveitarstjórnarkosningunum voru greidd virkjunarsinnum, en oddvitinn sjálfur fékk 23 atkvæði. Þar með ákvörðuðu 23 einstaklingar að skerða víðfeðmustu óbyggðir Vestfjarða og ósnortið fjarðalandslag sem liggur frá Ófeigsfirði norður fyrir Hornstrandir og inn Ísafjarðardjúp.
Ástæðan er að fólkinu voru gefnir litlir sem engir skammtímahagsmunir af því að vernda svæðið.
Og það verður að fórna skóginum og fjörðunum
Á sunnanverðum Vestfjörðum er verið að þvera hvern fjörðinn á fætur öðrum með veglagningu.
Reynt var að fá samþykkta á Alþingi viljayfirlýsingu um að stofna þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum fyrir sjö árum. Árið 2013 stóð til að draga úr þeirri tilhneigingu að valda spjöllum með þverun fjarða, og leggja meira í jarðgöng þess í stað.
Í rannsóknarskýrslu um áhrifin af þverun fjarða er fjallað ítarlega um hversu skaðleg áhrif af þverun fjarðar eru fyrir lífríkið. Þau eru vel þekkt. En ábyrgðin er hjá ríkinu og þeim sem við kjósum til að gæta langtímahagsmuna okkar.
Samkvæmt annarri rannsóknarskýrslu frá 2016, sem styrkt var af Vegagerðinni, kemur fram að helmingur vegaframkvæmda árin 2006 til 2014 hafði „umtalsverð/veruleg umhverfisáhrif“. „Rannsóknin sýnir einnig að framkvæmdir eru mislíklegar til að hafa umtalsverð/veruleg áhrif og að umhverfisþátturinn landslag og ásýnd er líklegastur til að verða fyrir verulegum áhrifum vegna framkvæmda.“
Í umtalaðri tillögu vill Vegagerðin leggja nýjan veg um svokallaðan Teigsskóg, sem samkvæmt Skipulagsstofnun yrði „mesta samfellda skógareyðing sem átt hefur sér stað vegna framkvæmda hér á landi í seinni tíð“. Enda er skógurinn á náttúruminjaskrá. En þeirri leið fylgir líka að þvera tvo firði, Djúpafjörð og Gufufjörð, með gríðarlegum áhrifum fyrir ásýnd landsins.
Við erum ekki bara að raska fuglalífi, skerða skóga eða valda því að tugþúsundir tonna af fiski drepist, eins og í Kolgrafafirði. Við manngerum náttúruna og upprætum ásýnd upprunaleika meðal annars með þeim rökum að ferðamenn, sem vilja sjá ósnortna náttúru Íslands, þurfi að komast á staðinn.
Hagsmunirnir látnir óbrúaðir
Við viljum auðvitað fleiri störf og innviði, en það eru alltaf margar leiðir í boði. Það má horfa á þetta sem hnitakort. Við getum hámarkað langtímahagsmuni, eða skammtímahagsmuni. Á hinum ásnum getum við hámarkað sérhagsmuni, eða almannahagsmuni. Til að gæta allrar sanngirni ætti síðan að horfa til héraðshagsmuna og landshagsmuna sem þriðja kvarðans í þrívídd.
Íbúar í Reykhólahreppi vilja eðlilega fá bættar vegasamgöngur, en þegar ríkið leggur ekki til stefnu um stranga náttúruvernd og framlög til hennar myndast togstreita milli langtímahagsmuna þjóðarinnar og skammtímahagsmuna íbúanna á svæðinu.
Vegagerðin eða sveitarstjórnarfólk vilja ekki valda tjóni á náttúrunni, eða hvað þá grafa undan helsta fjárfestingartækifæri þjóðarinnar. Þau fylgja þeim ramma sem stefnumótun stjórnmálamanna kveður á um. Og stjórnmálamennirnir fylgja, í bestu tilfellum, vilja almennings. Eins og segir í lokum rannsóknarskýrslunnar um þverun fjarða: „Það er síðan í höndum stjórnvalda að vega og meta arðsemi, áhrif á samfélagslega þætti og náttúrufarsþætti, hvort réttlætanlegt er að leggja út í framkvæmd og hvort leita eigi annarra valkosta. Þannig geti verið hægt að réttlæta minni arðsemi framkvæmdakosts með minni neikvæðum umhverfisáhrifum.“
„Sorgarsaga“ – stjórnmálin sneiða hjá náttúruvernd
Til þess að komast hjá tregðu kerfisins til að fórna náttúruverðmætum reyndu stjórnarþingmenn tvö ár í röð að fá samþykkt sérstök lög sem myndu sniðganga Skipulagsstofnun og heimila veg fram hjá áliti hennar um Teigsskóg og yfir firðina. Tilraunin var að þvera lögformlegan farveg framkvæmdanna til að sneiða hjá náttúruvernd.
Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, sagði nýlega að það væri „sorgarsaga“, að vegurinn hefði ekki verið lagður ennþá. Hann sagði að það væri alltaf rask af vegagerð. „Ég vil líka horfa á hvaða hagsmuni við erum að tala um. Við erum að tala um hagsmuni fyrir heilt byggðarlag. Og ef við horfum bara hér á höfuðborgarsvæðið, þá er búið að byggja hér í alls konar náttúru, þar sem menn sögðu: Ja, við verðum að stækka þessa byggð, og hér þarf að leggja vegi, hér þarf að byggja hús, hér þarf að byggja brýr, og sitthvað fleira, og þá virðist það vera í lagi, en það virðist oft vera erfiðara þegar við komum út á land,“ sagði hann. Sigurður Ingi vildi hins vegar leggja niður umhverfisráðuneytið.
Ný sveitarstjórn Reykhólasveitar vill hins vegar núna opna á nýjar leiðir. Það sem breyttist var að tveir vel stæðir menn, Sigurður Gísli og Jón Pálmasynir, buðu fram nokkuð smávægilegt fjárframlag í heildarsamhenginu til að greina kosti og galla fleiri vegaleiða með hjálp norskrar verkfræðistofu. Það þarf oft lítið til að brúa á milli staðbundinna hagsmuna og heildarhagsmuna til langs tíma.
Og þótt uppbygging hljómi vel, getur hún gengið óafturkræft gegn langtímahagsmunum, eins og OECD varar okkur við:
„Varðveisla á aðdráttarafli náttúrunnar krefst varfærins skipulags á landnotkun til að koma í veg fyrir eyðileggingu óbyggða. Eyðilegging þessara staða verður líklega óafturkræf, sérstaklega á svæðum þar sem áhrif mannsins geta varað í hundruð ára ... Betri dreifing á ferðamönnum um landið getur líka hjálpað til, en gæta þarf þess að tryggja að þetta leiði ekki til þess að útbreidd uppbygging éti upp meira af óbyggðunum sem eftir eru.“
Afsláttur af nýtingunni
Náttúran óröskuð er auðlindin okkar. En sagan og samtíminn sýna að Íslendingar selja hana ekki svo dýrt. Nú viljum við til dæmis slá af kröfum um að greitt sé auðlindagjald af laxeldi, ólíkt því sem gert er í Noregi.
Ef Ísland myndi selja laxeldiskvóta á sama verði og Norðmenn ætti íslenska ríkið að fá 110 milljarða króna fyrir 71 þúsund tonna framleiðslu, en nefnd um stefnumótun í laxeldi leggur til að laxeldiskvótinn fáist á milljarð króna í staðinn. Þannig verði arður af laxeldi, sem rennur að miklu leyti til erlendra eigenda, hámarkaður.
Fyrir kosningar tilgreindi Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, að henni þætti þjóðin fá of lítinn skerf af hundruð milljarða króna arði útgerðarfélaga fyrir afnot af auðlindinni. Innan við ári eftir að hafa orðið forsætisráðherra reyndi ríkisstjórn hennar hins vegar að lækka veiðigjaldið, um allt að þrjá milljarða króna.
Á sama tíma hefur langtímafjárfesting í jarðgöngum, til að minnka skaða á fjörðum, ekki hlotið brautargengi vegna þess að kostnaðurinn var metinn of mikill. Í tilfelli Teigsskógs var eitt matið að jarðgöng myndu kosta sex milljörðum króna meira en leiðin sem Vegagerðin vildi fara í gegnum skóginn og þvert yfir firðina.
Á dögunum kom síðan fram að næsta skref í vernd íslenskrar náttúruferðamennsku eru umferðarljós við Jökulsárlón, einu umferðarljósin á Íslandi utan þéttbýlis.
Skammtímagróði eða fjárfesting
Óbyggðirnar eru óseljanlegar í eðli sínu, en hafa margfeldisáhrif. Hliðaráhrifin eru góðæri sem reisti okkur upp úr efnahagshruni. Góðærið nú er í raun andstæða við síðasta góðæri sem hrundi, á þann hátt að það byggir á raunveruleika ósnortinnar náttúru, en ekki skýjaborgum framleiddum til að framkalla falska tiltrú.
Í fyrra, þegar teknar voru saman beinar tekjur ríkisins og kostnaður af ferðamennsku, kom í ljós að tekjurnar væru 45 milljarðar króna á ári, en útgjöldin 5 milljarðar króna. Síðan þá hefur ferðamönnum fjölgað um milljón, eða minnst 70 prósent. Þetta er fyrir utan margfeldisáhrif. Ef við notum ekki stóran hluta af þessum tekjum í að fjárfesta í ósnortinni náttúru klúðrum við, eða stjórnmálamenn fyrir okkar hönd, mesta mögulega fjárfestingartækifæri okkar.
Uppfært: Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra kynnti í morgun fyrir ríkisstjórninni áform um átak í friðlýsingu svæða á grundvelli efnahagslegra hagsmuna.36 milljónir króna verða lagðar í verkefnið árlega næstu tvö árin.
Athugasemdir