Úttekt Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara og Kristínar Benediktsdóttur dósents um málsmeðferð velferðarráðuneytisins vegna kvartana barnaverndarnefnda undan Barnaverndarstofu verður kynnt ríkisstjórn á föstudag og birt í framhaldinu. Þetta staðfestir Lára Björg Björnsdóttur, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, í samtali við Stundina.
Tilkynnt var um gerð úttektarinnar eftir að Stundin fjallaði með ítarlegum hætti um afskipti Braga Guðbrandssonar af barnaverndarmáli í Hafnarfirði og Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra viðurkenndi að velferðarráðuneytið hefði komist að þeirri niðurstöðu að Bragi hefði þar farið út fyrir starfssvið sitt.
Hvorki Alþingi né stjórnvöldum nágrannaríkjannna var greint frá því að Bragi hefði fengið tilmæli vegna óeðlilegra afskipta af barnaverndarmáli áður en ríkisstjórn Íslands bauð Braga fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna með stuðningi Norðurlandanna.
Utanríkisráðuneyti Danmerkur, Noregs, Svíþjóðar og Finnlands hafa greint Stundinni frá því að þau bíði eftir frekari upplýsingum um framgang athugunarinnar og embættisfærslur Braga Guðbrandssonar.
Eins og fram kom í frétt Stundarinnar í síðustu viku er þó hlutverk úttektaraðila þrengra samkvæmt verksamningi velferðarráðuneytisins heldur en upphafleg fréttatilkynning forsætisráðuneytisins gaf til kynna og lýtur fremur að stjórnsýslu velferðarráðuneytisins sjálfs heldur en vinnubrögðum Braga Guðbrandssonar.
Athugasemdir