Rafiðnaðarsambandið er með til skoðunar ábendingu um að sviðs- og tæknimenn Hörpu starfi sem „gerviverktakar“. Tæknistjóri Hörpu segir ábendinguna hafa verið senda út á fölskum forsendum og hyggst funda með fulltrúum Rafiðnaðarsambandsins til að fara yfir málið.
„Þetta snýr að því hvort launakjör séu eins og ætti að vera, hvort að launakjör séu í samræmi við kjarasamninga eða ekki,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins. „Einhverjir eru ráðnir inn sem verktakar í stað þess að vera launamenn, að okkar mati. Ég get ekki dæmt um það núna hvort þetta sé eðlilegt, en þetta er mál sem við erum að skoða. Við tökum það alvarlega ef starfsmenn eru settir í þá stöðu að taka laun sem eru ekki í samræmi við kjarasamninga og fylgjum því vel eftir.“
Mál sem snúa að Hörpu hafa komið upp áður
Svokölluð „gerviverktaka“ er fyrirkomulag þar sem starfsmaður þiggur verktakagreiðslur fyrir starf sem ætti að teljast launþegavinna. Með slíku fyrirkomulagi þarf vinnuveitandi ekki að greiða launatengd gjöld og getur með auðveldari hætti sagt upp starfsmanni. Þá teljast slík kaup á verktakaþjónustu virðisaukaskattskyld og getur því vinnuveitandi talið þau til innskatts og lækkað skattgreiðslur.
Að sögn Kristjáns hefur áður komið upp mál í tengslum við félagsmenn sem starfi í Hörpu. Var það mál leyst í sátt, en ekki er ljóst hvort nýja ábendingin snúi að núverandi starfsfólki. „Maður heyrir að það hafi verið tilhneiging hjá fyrirtækinu að ráða ekki starfsmenn, heldur kaupa af þeim þjónustu eins og þeir væru verktakar,“ segir Kristján. „Það er auðvitað ekki eðlilegt ef það er raunin, en ég get ekki staðfest að það sé þannig nú.“
Yfirlýsingin „á fölskum forsendum“
Hrannar Hafsteinsson, tæknistjóri Hörpu, segir að yfirlýsing sem barst fjölmiðlum um málið hafi ekki verið send með vitneskju eða samþykki starfsmanna á tæknisviði Hörpu. „Margir sviðs- og tæknimenn hafa komið að máli við mig í gær og dag og lýst yfir óánægju sinni með að yfirlýsingin hafi verið send út í þeirra nafni án þess að haft hafi verið samband við þá,“ segir Hrannar. „Yfirlýsingin virðist því hafa verið send á fölskum forsendum og standa starfsmenn í Hörpu ekki að henni.“
Hrannar segir að til standi að funda með fulltrúum Rafiðnaðarsambandsins vegna málsins. „Varðandi þá þætti sem snúa að vinnu verktaka og starfsmanna tæknisviðs í Hörpu þá höfum við verið í mjög góðu sambandi við Rafiðnaðarsambandið til þessa og höfum nú óskað eftir því að hitta forsvarsmenn félagsins til að fara m.a. yfir þá þætti sem nefndir voru í þessari yfirlýsingu,“ segir Hrannar.
Sagði þjónustufulltrúa þá einu sem lækkuðu í launum
Tuttugu þjónustufulltrúar Hörpu hafa ákveðið að segja upp störfum í kjölfar fundar með Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu. Segja þjónustufulltrúar að Svanhildur hafi staðfest á fundinum að þeir hafi verið einu starfsmennirnir sem var gert að taka á sig beina launalækkun, en þeir hafi verið launalægstu starfsmenn hússins.
Uppsagnirnar koma í kjölfar ólgu vegna frétta af launahækkun Svanhildar, en stjórn Hörpu samdi við hana um laun sem eru 20% hærri en kjararáð kvað á um að laun forstjóra Hörpu skyldu vera. Svanhildur hefur farið fram á að laun sín verði lækkuð afturvirkt niður í þá upphæð sem kjararáð ákvarðaði til að skapa frið um starfsemi Hörpu.
Athugasemdir