Sjálfstæðisflokkurinn í Mosfellsbæ er með framboðsauglýsingar fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar utan á jarðhæð ráðhússins í sveitarfélaginu. Flokkurinn er með kosningaskrifstofu á öðrum enda jarðhæðarinnar. Bæjarstjórnarhúsið, sem gengur undir nafninu Kjarninn, er hins vegar ekki alopinber bygging heldur hálfopinber þar sem nokkrir einkaaðilar eiga húsið en ekki sveitarfélagið, sem leigir bara skrifstofur þar undir stjórnsýslu sveitarfélagsins. Þannig á Mosfellsbær til dæmis ekki jarðhæðina þar sem Sjálfstæðisflokkurinn er með kosningaskrifstofuna sína og þar sem auglýsingarnar eru utan á byggingunni.
Þótt húsið sé sannarlega ráðhús, eða bæjarstjórnarhús, Mosfellsbæjar leigir bærinn bara hluta þess. Auglýsingar Sjálfstæðisflokksins hanga því heldur ekki á rými sem sveitarfélagið á eða rými sem sveitarfélagið leigir. Tekið skal fram að aðrir stjórnmálaflokkar, eins og Vinstri grænir og Framsóknarflokkurinn, hafa einnig birt kosningaauglýsingar á sama stað fyrir sveitarstjórnarkosningar í gegnum tíðina. Munurinn er hins vegar sá að Sjálfstæðisflokkurinn er í meirihluta í sveitarfélaginu og stýrir því úr ráðhúsinu þar sem auglýsingarnar eru. …
Athugasemdir