Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, upplýsti ekki ríkisstjórnina um að Bragi Guðbrandsson hefði farið út fyrir valdsvið sitt með afskiptum af barnaverndarmáli þar sem meint kynferðisbrot voru til skoðunar áður en ríkisstjórnin samþykkti að bjóða Braga fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna þann 23. febrúar síðastliðinn.
Þá greindi Ásmundur Einar heldur ekki frá því að Bragi hefði fengið sérstök tilmæli vegna afskiptanna sem hann hafði af störfum Barnaverndarnefndar Hafnarfjarðar í samráði við föðurfjölskyldu tveggja stúlkna sem barnaverndarnefnd hafði skömmu áður vísað til Barnahúss vegna meintra kynferðisbrota föðurins. Upplýsingar um tilmælin til Braga komu fyrst fram í Kastljósi í síðustu viku. „Þessi niðurstaða og þessi sömu tilmæli sem þú vitnar til voru send á aðila málsins við lok afgreiðslu þess,“ sagði Ásmundur Einar í viðtalinu.
Stundin sendi Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra fyrirspurn um málið í síðustu viku. Spurt var hvort ríkisstjórnin hefði verið upplýst um það á fundinum 23. febrúar, áður en ákveðið var að bjóða Braga Guðbrandsson fram til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, að Bragi hefði að mati velferðarráðuneytisins farið út fyrir starfssvið sitt með óeðlilegum afskiptum af barnaverndarmáli og fengið tilmæli frá ráðherra vegna þeirra.
Í svarinu er bent á að engin gögn voru lögð fram á ríkisstjórnarfundinum þann 23. febrúar um einstök mál tengd Braga Guðbrandssyni. „Á þeim fundi kom fram í munnlegri frásögn ráðherrans að ráðuneytið hefði komist að þeirri niðurstöðu að forstjóri Barnaverndarstofu hefði ekki gerst brotlegur í starfi en ljóst væri að samskipti milli Barnaverndarstofu og einstakra barnaverndarnefnda væru á gráu svæði,“ segir Katrín Jakobsdóttir.
Aðspurð hvort hún og ríkisstjórnin hafi fengið upplýsingar um að Bragi hefði farið út fyrir starfssvið sitt og fengið tilmæli vegna þess á föstudag, eftir að umfjöllun Stundarinnar birtist, segir Katrín:
„Ég ræddi við félags- og jafnréttismálaráðherra eftir að umfjöllun Stundarinnar birtist og fórum við yfir málið, meðal annars þau svör sem send voru forstjóra Barnaverndarstofu og tilefni þeirra. Sökum þeirrar umræðu sem orðið hefur um þetta mál, sem og önnur mál á borði barnaverndarnefnda, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis, og mikilvægis þess að þau séu hafin yfir allan vafa, óskaði félags- og jafnréttismálaráðherra eftir því við mig að óháð úttekt yrði gerð á málunum. Niðurstaðan var að fá sérfræðingana, Kjartan Bjarna Björgvinsson, héraðsdómara og Kristínu Benediktsdóttur, dósent, til að gera óháða úttekt á málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda í þessum málum.“
Að lokum var spurt hvort forsætisráðherra bæri enn traust til Ásmundar Einars Daðasonar. „Já, ég ber fullt traust til Ásmundar Einars Daðasonar,“ segir forsætisráðherra.
Athugasemdir