Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað Kjartan Bjarna Björgvinsson héraðsdómara til að framkvæma óháð úttekt á „tilteknum málum á sviði barnaverndar hér á landi“. Þetta kom fram í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu í dag.
Tilefni úttektarinnar er forsíðuumfjöllun Stundarinnar frá því á föstudaginn þar sem greint var frá því að Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hefði í samráði við föður málsaðila í barnaverndarmáli, beitt sér fyrir því að faðir, sem barnaverndarnefnd og meðferðaraðili óttuðust að hefði brotið kynferðislega gegn dætrum sínum, fengi að umgangast þær.
Samkvæmt tilkynningu forsætisráðuneytisins er úttektin unnin að ósk Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og jafnréttismálaráðherra. Í umfjöllun Stundarinnar kom fram að Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, bjó yfir ítarlegum upplýsingum um afskipti Braga Guðbrandssonar af barnaverndarmálinu í Hafnarfirði og þrýstinginn sem Bragi beitti barnaverndarstarfsmann af samúð við fjölskyldu manns sem grunaður var um kynferðisbrot gegn dætrum sínum þegar ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 23. febrúar síðastliðinn að útnefna Braga sem frambjóðanda Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
„Í úttektinni verði farið yfir fyrirliggjandi gögn málsins og málsmeðferð viðkomandi stjórnvalda, þ.e. þeirra barnaverndarnefnda sem tengjast viðkomandi málum, Barnaverndarstofu og velferðarráðuneytis,“ segir í tilkynningunni. Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari, mun annast verkefnið ásamt Kristínu Benediktsdóttur, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Niðurstaða úttektarinnar mun liggja fyrir í byrjun júní, samkvæmt tilkynningu ráðuneytisins. Henni verður skilað til ríkisstjórnar og í kjölfarið birt opinberlega.
Athugasemdir