Fyrirtækið Expectus fær rúmlega 8,5 milljónir króna fyrir að verkstýra vinnu við stefnumótun stjórnvalda í barnavernd. Þetta kemur fram í verksamningi velferðarráðuneytisins og ráðgjafafyrirtækisins sem Stundin hefur undir höndum. Gert er ráð fyrir 344 klukkustunda vinnu og 8,5 milljóna króna heildargreiðslu fyrir verkefnið auk virðisaukaskatts, eða um 25 þúsund krónum á tímann.
Að því er fram kemur á vef fyrirtækisins er hlutverk þess að aðstoða „viðskiptavini á fyrirtækjamarkaði við að nýta þekkingu og upplýsingatækni til að auka hæfni þeirra, móta stefnu og koma áherslum í framkvæmd og skila þannig mælanlegum árangri“.
Enginn þeirra sem kemur að vinnunni við endurskipulagningu barnaverndarkerfisins fyrir hönd fyrirtækisins hefur sérfræðimenntun á sviði barnaverndarmála, félagsþjónustu, sálfræði, lögfræði eða opinberrar stjórnsýslu. Hins vegar njóta ráðgjafarnir aðstoðar sérfræðings úr velferðarráðuneytinu, Guðríðar Bolladóttur, við öflun upplýsinga, skipulagningu funda og önnur verkefni sem lúta að framgangi verkefnisins. Þá er starfrækt sérstök verkefnisstjórn og í henni sitja sérfræðingar í málaflokknum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, fræðasamfélaginu og stofnunum og félögum sem hafa með málaflokkinn að gera.
Samkvæmt verksamningnum við Expectus er það Ragnar Þórir Guðgeirsson, ráðgjafi og stjórnarformaður þess, sem verkstýrir og stjórnar vinnu við stefnumótun stjórnvalda í barnavernd. Hann er með viðskiptafræðigráðu frá Háskóla Íslands og löggildingarpróf í endurskoðun og hefur starfað við viðskiptaþróun, stefnumótun og rekstrarlega endurskipulagningu fyrir mörg stærstu fyrirtæki landsins.
Að afmörkuðum verkþáttum koma Anna Björk Bjarnadóttir, Sindri Sigurjónsson og Reynir Ingi Árnason. Anna Björk er íþróttafræðingur en jafnframt menntuð í markaðsfræði og með áralanga reynslu sem leiðtogi og stjórnandi í fjarskiptageiranum og víðar, meðal annars sem framkvæmdastjóri hjá Símanum frá 2008 til 2013 og svo sem framkvæmdastjóri tæknisviðs. Sindri er menntaður í iðnaðarverkfræði og aðgerðarrannsóknum og hefur talsverða reynslu af stefnumótun, fjármála- og árangurstjórnun, áætlanagerð og endurhönnun viðskiptaferla. Reynir Ingi er hagfræðingur sem hefur starfað sem ráðgjafi í fjármálum fyrirtækja á ráðgjafasviði Deloitte. Þar áður þá starfaði Reynir á sölu- og markaðssviði Nóa Siríusar sem sölumaður stórmarkaða.
Samkvæmt skjali sem fylgdi verksamningnum er meginmarkmið verkefnisins að greina núverandi stöðu á barnaverndarþjónustunni, móta stefnu og framtíðarsýn og leggja fram aðgerðaráætlun um nauðsynlegar breytingar. Gerð verður „ytri greining“ um það umhverfi sem þjónustan beinist að og jafnframt „innri greining“ með „mælingum á gæðum þjónustunnar“. Þá verður sett fram framtíðarsýn og markmið til 2030 um þróun þjónustunnar. Í verkefninu er horft til ramma sem unnið var eftir við stefnumótun í heilbrigðismálum aldraðra 2015 til 2016 en Ragnar Þórir kom að þeirri vinnu. „Verkþættir og umfang þeirra er sett fram að stórum hluta byggt á þeirri reynslu,“ segir í fylgiskjali verksamningsins.
Athugasemdir