Framlög ríkisins til stjórnmálaflokka eru nú 100 milljón krónum hærri að núvirði en þegar þau fór hæst árið 2008. Þetta kemur fram í upplýsingum sem Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, óskaði eftir og birti á Facebook.
Fjárframlög til stjórnmálaflokka hækkuðu um 127%, úr 286 milljónum króna um 362 milljónir króna um áramótin. Standa þau nú í 648 milljónum króna, en fóru hæst í tæpar 546 milljónir króna að núvirði árið 2008.
„Rökin fyrir því að hækka fjárframlögin voru að styrkja lýðræðið og laga þá rýrnun sem orðið hefur á fjárframlögum til stjórnmálasamtaka frá hruni,“ skrifar Björn Leví. „Hvort tveggja eru alveg málefnaleg rök en upphæðin er það ekkert endilega.“
Ár | Framlög á fjárlögum | Framlög einkaaðila |
2007 | 511.810.000 kr. | 358.134.258 kr. |
2008 | 545.733.000 kr. | 134.490.484 kr. |
2009 | 501.153.000 kr. | 218.044.500 kr. |
2010 | 416.118.000 kr. | 173.596.242 kr. |
2011 | 364.127.000 kr. | 120.333.197 kr. |
2012 | 335.824.000 kr. | 115.866.181 kr. |
2013 | 317.440.000 kr. | 236.322.635 kr. |
2014 | 281.126.000 kr. | 159.797.260 kr. |
2015 | 302.016.000 kr. | 127.174.525 kr. |
2016 | 296.868.000 kr. | 141.316.284 kr. |
2017 | 291.720.000 kr. | upplýsingar vantar |
2018 | 648.000.000 kr. | upplýsingar vantar |
Telur ríkissjóð fjármagna lækkandi framlög einkaaðila
Björn Leví fékk einnig gögn um fjárframlög einkaaðila til stjórnmálaflokka. Framlög einkaaðila voru hæst árið 2007, eða 358 milljónir króna að núvirði. Kosningaárin 2009 og 2013 hækkuðu þau töluvert miðað við önnur ár, en kosningaárið 2016 námu framlög einkaaðila einungis 141 milljón króna.
Björn Leví ber hækkunina saman við þróun á fjárframlögum einkaaðila. „Niðurstaðan lítur semsagt út fyrir að vera að lækkandi framlög einkaaðila til stjórnmálasamtaka séu nú fjármögnuð úr ríkissjóði,“ skrifar Björn Leví. „100 milljóna uppbót, úr ríkissjóði.“
Athugasemdir