Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýndi „kerfið“, erlend áhrif og vogunarsjóði í ræðu sinni við setningu landsþings Miðflokksins, sem fram fer í Hörpu um helgina. Landsþingið ber yfirskriftina „Upphaf nýrra tíma“. „Við ætlum að innleiða nýja tíma í íslenskum stjórnmálum og ekki veitir af,“ sagði Sigmundur Davíð í upphafi ræðu sinnar, en hann er einn í framboði til formanns.
Í ræðu sinni beindi Sigmundur spjótum sínum að „kerfinu“, sem hann telur að hafi staðið í vegi fyrir umbótamálum í hans ráðherratíð. Hann sagði stjórnmálaflokka fórna málefnum og kosningaloforðum fyrir ráðherrastóla og eftirláta kerfinu að stjórna landinu. Nefndi hann sérstaklega núverandi ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem hann sagði myndaða um að verja núverandi kerfi. Þá sagði ráðherra afhenda vald sitt til kerfisins. „Það er nefnilega orðið alltof fátítt í stjórnmálum að menn vilji yfir höfuð stjórna,“ sagði Sigmundur Davíð. „Menn vilja vera ráðherrar og hafa ákveðnar stöður í pólitík, en vilja menn stjórna?“
Hann sagði Miðflokkinn standa við það sem hann segir og gefin fyrirheit og að flokkurinn „þori að stjórna“. Stefna Miðflokksins byggi ekki á fyrirfram gefinni hugmyndafræði, aðlagi ekki raunveruleikann að hugmyndafræði sinni eins og aðrir flokkar, heldur öfugt. „Við þessar aðstæður virka stjórnmálin ekki, lýðræðið virkar ekki sem skyldi, rétturinn er tekinn af þeim sem eiga að fara með valdið, almenningi,“ sagði Sigmundur Davíð. „Skýrasta dæmið er núverandi ríkisstjórn.“
Útlendingar sækja að fullveldinu
Sigmundur Davíð virtist þakka „Leiðréttingunni“, skuldaniðurfellingu í kjölfar hruns, þann viðsnúning sem varð í efnahagsmálum á þessum árum. „Þegar var ráðist í stórar aðgerðir í efnahagsmálum, sem var tilraun sem byggðist á skynsemishyggju og rökhugsun, þá skiluðu þær árangri,“ sagði Sigmundur Davíð.
Gögn sem fjármálaráðuneytið hefur lagt fram sýndu að skuldaleiðréttingin rann að mestu til tekjuhæstu hópa íslensks samfélags og fólks sem er á fimmtugs- og sextugsaldri. Tekjulægstu 20 prósentin fengu einungis 13 prósent af því skattfé sem varið var í skuldaniðurfellingarnar. „Leiðréttingin“ var kynnt sumarið 2014, en hagvöxtur árið 2013 var 4,3 prósent.
Þá vék hann máli sínu að 100 ára afmæli fullveldis Íslands og sagði að því sótt af erlendum öflum. Hann sagði að ætlast væri til þess að Ísland gefi eftir hvað varðar reglugerðir sem þurfi að innleiða og sagði erlenda vogunarsjóði ráða för á íslenskum fjármálamarkaði. „Fullveldið heldur ekki áfram sjálfkrafa,“ sagði Sigmundur Davíð. „Við sjáum nú þegar hvernig erlend ríki og alþjóðastofnanir hafa sótt að fullveldinu á ýmsan hátt.“
Loks vísaði hann í ljóð Jónasar Hallgrímssonar, Ísland. „Það er svo bágt að standa í stað, og mönnunum munar, annaðhvort aftur á bak, ellegar nokkuð á leið.“
Athugasemdir