Fjármálaráð segir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar bera með sér að ráðast eigi í fordæmalausa aukningu ríkisútgjalda á kjörtímabilinu um leið og tekjustofnar hins opinbera verði veiktir. Þannig víki áherslur fyrri ríkisstjórnar á aðhald, verðstöðugleika og svigrúm til vaxtalækkana fyrir auknum innviðafjárfestingum, útgjaldavexti og skattalækkunum.
Álitsgerð fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar barst þingmönnum í gærkvöldi og verður birt á vef Alþingis á næstu dögum. Þar kemur fram margs konar gagnrýni á þetta grundvallarplagg ríkisstjórnarinnar, en um leið er stjórnvöldum hrósað fyrir að haga vinnu sinni og framsetningu betur í samræmi við grunngildi laga um opinber fjármál en áður. „Framsetning áætlunarinnar er ítarlegri en áður og verklagið einkennist af meira gagnsæi, aukinni varfærni og meiri festu.“
Bent er á að nýr tónn er sleginn í áætluninni í samanburði við fjármálaáætlun fyrri ríkisstjórnar. „Fyrir ári síðan var boðað að ríki og sveitarfélög myndu haga útgjöldum og sköttum á fyrri hluta tímabils áætlunar með þeim hætti að þau yrðu ekki þensluhvetjandi og það var grunntónn þeirrar áætlunar. Nú er aðhaldið minna, innviðafjárfesting boðuð og ný fyrirheit gefin um útgjöld og skatta,“ segir í umsögninni.
„Minna fer fyrir umfjöllun um hvernig efnahagslegum óstöðugleika fylgi samfélagslegur kostnaður og að það sé viðfangsefni Seðlabankans að lágmarka hann með stöðugu verðlagi. Fyrir ári var grunnstef fjármálastefnu og fjármálaáætlunar að stjórnvöld styddu við peningastefnuna og stuðluðu þannig að lækkun vaxta. Þarna eru augljós fórnarskipti.“
Fjármálaráð bendir á að aukið aðhald opinberra fjármála dregur úr þörfinni á hærra vaxtastigi og öfugt. „Minna aðhald kallar á hærri stýrivexti að öðru óbreyttu. Minnkað aðhald er nú réttlætt með aukinni fjárfestingu sem ekki er vörðuð af forgangsröðun og gagnsæjum mælikvörðum á vali fjárfestingarkosta. Þá er fordæmalausri aukningu útgjalda haldið áfram en tekjuhliðin veikt.“
Bent er á að mikil aukning útgjalda í uppsveiflu samræmist ekki markmiði laga um opinber fjármál um stöðugleika. Raunaukning rammasettra útgjalda verði 47 milljarðar árið 2018 og 34 milljarðar á árinu 2019 og deila megi um hvort sú útgjaldaaukning hafi verið rétt tímasett með tilliti til grunngildis ríkisfjármálalaganna um stöðugleika.
Athugasemdir