Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur að þingmenn sem lýsa því yfir að ólögleg embættisfærsla hennar við skipun Landsréttardómara grafi undan dómskerfinu séu sjálfir að grafa undan dómstólum og stofnunum ríkisvaldsins með slíkum málflutningi.
Þetta kom fram í svörum ráðherra við fyrirspurn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, á Alþingi í dag.
Stundin greindi frá því í morgun að Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefði gert því skóna, í þingræðu um frumvarp til laga um nýjan Endurupptökudóm í síðustu viku, að málflutningur Helga Hrafns Gunnarssonar á Alþingi græfi undan dómstólum landsins.
Þórhildur gerði þessi orð að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag og spurði hvað í málflutningi Helga Hrafns græfi undan dómkerfinu.
Sigríður svaraði á þessa leið:
„Í þessum tilvitnuðu orðum háttvirts þingmanns er ég að vísa til ummæla sem háttvirtir þingmenn hafa viðhaft hér, fullyrðingar um að það hafi verið grafið undan dómstólunum með framkvæmd við skipun Landsréttar, og þar með vil ég beina því til þeirra sem viðlíka orð hafa undir og benda á, beina því aftur til þeirra, vísa slíkum ummælum til föðurhúsanna eins og kallað er, og benda á að það veldur nú hver á heldur, og það eru ummæli eins og þessi, meðal annars úr þessum virðulega ræðustól, sem einmitt eru til þess fallin, miklu fremur en margt annað, að grafa undan trausti og trúverðugleika á stofnunum ríkisvaldsins.“
Þá gagnrýndi ráðherra Þórhildi fyrir að hafa ekki verið viðstödd umræðuna um Endurupptökudóm. Þórhildur benti þá á að hún hefði verið fjarstödd í síðustu viku, verið erlendis á vegum þingsins.
„Hins vegar fer mér að verða betur og betur ljóst í samskiptum mínum, eftir því sem þau verða meiri og lengri, við hæstvirtan dómsmálaráðherra, að hér er svolítið eins og að ræða við keisarann sem var nakinn en kennir barninu sem bendir á það stöðugt um að hann sé öllum sýnilegur,“ sagði Þórhildur. „Ég spyr hæstvirtan ráðherra: Telur hún sig ekki bera neina ábyrgð á því sem við köllum hér vantraust til dómstóla? Telur hún sig ekki bera neina ábyrgð á því að við treystum ekki hæstvirtum ráðherra ti lað skipa nýtt dómstig? Finnst henni ekki vera nein ástæða til að vinna sér inn traust þessa þings til að skipa í nýtt dómstig?“
Sigríður sagði þá að hún gæti „ekki nokkra einustu ábyrgð borið á hugrenningum háttvirts þingmanns“. Ef Þórhildur treysti ekki dómstólunum væri það ekki við sig að sakast „heldur miklu frekar verður [hún] að leita í sínum eigin ranni fyrir því“.
Ráðherra sagði að hún vissi „ekki betur en að menn leiti hér til dómstólanna sýknt og heilagt og að einhverra mati, jafnvel að mati þeirrar sem hér stendur, oft í og tíðum í mjög ríkum mæli“. Þetta sjónarmið, þar sem gefið er í skyn að fólk leiti óþarflega oft til dómstóla, er í takt við skrif sem hafa birst á vefritinu Andríki.is, sem Sigríður ritstýrði ásamt fleirum um árabil. „Dómstólar fá sífellt fleiri „mannréttindamál“ á sín borð. Ríkið veitir sífellt fleirum „gjafsókn“ – sem þýðir að skattgreiðendur borga kostnað kverúlantsins af málshöfðuninni, stefnandinn og lögmaður hans hafa engu að tapa sjálfir en geta fiskað á ríkissjóð eins og þeim hentar – til að reka hin og þessi furðumálin,“ segir í einnu af færslunum sem birtust á Andríki meðan Sigríður sat í ritstjórninni, en í dag fer hún sem dómsmálaráðherra með málefni réttaraðstoðar og gjafsókna samkvæmt forsetaúrskurði.
Athugasemdir