Tæpur mánuður er síðan að Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, fór fram á að fá minnisblað frá utanríkisráðuneytinu varðandi mál Hauks Hilmarssonar, sem týndur er í Sýrlandi. Enn hefur ekkert svar borist við þeirri beiðni, þrátt fyrir að Logi hafi ítrekað beiðnina í tvígang. Logi furðar sig á þessum vinnubrögðum og segir þau ólíðandi.
Fyrstu fréttir af hvarfi Hauks bárust 6. mars síðastliðinn en hann var þá sagður hafa fallið í bardögum Kúrda við tyrkneska herinn 24. febrúar, í norðurhluta Sýrlands. Átta dögum síðar, 14. mars, fór Logi fram á það, á fundi utanríkismálanefndar Alþingis, að fá minnisblað frá utanríkisráðuneytinu um þær verklagsreglur sem giltu hjá borgaraþjónustu ráðuneytisins í málum sem þessum, og lagði hann sérstaka áherslu á að fá upplýsingar um mál Hauks, til hvaða aðgerða hefði verið gripið til að finna hann og hver staða mála væri. Viku síðar, 21. mars, ítrekaði nefndasvið Alþingis beiðni Loga, að hans ósk. Enn barst ekkert svar og 4. apríl var beiðni um að utanríkisráðuneytið skilaði slíku minnisblaði enn ítrekuð, án árangurs.
Mjög knýjandi að fá svör
Logi segir í samtali við Stundina að þessi seinagangur sé bæði óskiljanlegur og algjörlega ólíðandi. „Þetta er ekki boðlegt. Látum það allt vera hvernig þetta birtist gagnvart mér og þinginu, þessi þögn, en þetta á bara fullt erindi við samfélagið og almenning. Þess vegna skil ég ekki þetta verkleysi. Spurning mín fjallaði líka almennt um hvernig fylgst væri með Íslendingum erlendis og hvaða verklagsreglur giltu hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, um hvernig haldið væri á þessum málum en ekki síst auðvitað í þessu sorglega máli. Það er mjög knýjandi að fá svör því þetta er það hörmulegasta sem fólk lendir í, að vita ekki um afdrif ástvina sinna.“
Fundur utanríkismálanefndar Alþingis stendur nú yfir og þegar Stundin heyrði í Loga, rétt áður en fundurinn hófst, sagði hann ekki sjá að neitt kynna í útsendum gögnum fyrir fundinn gæfi það til kynna að umrætt minnisblað myndi berast í dag. „Ég sendi á formann nefndarinnar og aðra nefndarmenn í gær beiðni um að fá stuðning við að nefndin myndi senda athugasemd til ráðuneytisins vegna þessa.“
Logi segir jafnframt ómögulegt annað en að utanríkisráðuneytið búi í það minnsta yfir einhverjum upplýsingum sem það geti miðlað. „Ég get ekki trúað því að það hafi ekkert það gerst, á þessum mánuði sem liðinn er, að það hafi ekki verið tilefni til þess að setja það niður á blað og birta það utanríkismálanefnd. Já, og alþjóð auðvitað líka.“
Athugasemdir