Í hinni nýlegu mynd The Death of Stalin er sýnt hvernig baráttan um að verða arftaki hans hófst jafnvel áður en sá gamli hafði lokið við að gefa upp öndina. Myndin er vissulega gamanmynd, en þó að undarlega miklu leyti sannsöguleg. Þetta er ekki fyrsta valdabaráttan í Rússlandssögunni, og varla sú síðasta. En hvað gerist næst þegar Rússar þurfa að skipta um leiðtoga?
Í myndinni er sýnt hvernig Krústjeff, leikinn af Steve Buscemi, fær það hlutverk að skipuleggja útförina þvert á eigin óskir en endar með að fara með sigur af hólmi í keppninni um Kremlið. Eitthvað svipað gerðist reyndar þegar Tsjernenko dó árið 1985 og Gorbatsjoff varð útfararstjóri sem lyfti honum upp valdastigann.
Það að finna arftaka í kommúnistaríkjum getur verið vandasamt. Í Norður-Kóreu hafa menn farið þá leið að gera æðsta embættið arfgengt, og þó leiðtoginn þar sé ungur er hann umkringdur öldruðum herforingjum á flestum fréttamyndum. Eitthvað svipað er upp á teningnum í Kúbu, þar sem enginn veit hvað gerist þegar hinn Kastró bróðirinn deyr. Eftir hina löngu stjórnarsetu Maós og svo Dengs í Kína var það fest í lög að hver leiðtogi gæti aðeins stjórnað í tvö fimm ára kjörtímabil, lög sem núverandi leiðtogi Xi Jinping hefur nú breytt, og gæti hann því hugsanlega ríkt til dauðadags eins og Maó gamli.
Stalín eða Trotskí, Krústjoff eða Bería
Vandinn við valdatilfærslu var til staðar í Sovétríkjunum frá upphafi. Voru þau formlega stofnuð í árslok 1922 þegar borgarastríðinu var lokið, en Lenín var þá þegar heilsuveill og lést í byrjun árs 1924. Við tók valdabarátta sem Stalín vann að lokum, en hann var í raun ekki orðinn alráður fyrr en undir lok áratugarins. Deilurnar um heppilegan arftaka Leníns hafa í raun staðið allar götur síðar. Íhaldsmenn telja gjarnan að sigur Stalínismans hafði verið óhjákvæmilegur og innbyggður í kerfið, á meðan vinstrimenn telja margir að ef aðeins einhver annar, til dæmis Trotskí, hefði tekið við í stað Stalíns hefði allt farið á betri veg. Þannig skýtur svo skökku við að þeir sem aðhyllast sögulega efnishyggju og óhjákvæmileika byltingarinnar telja að ákvarðanir einstaklinga hafi breytt öllu, á meðan þeir sem aðhyllast einstaklingshyggjuna líta svo á að það sem gerðist hafi verið fyrirfram gefið.
Hinir upprunalegu byltingarleiðtogar voru flestir fæddir á árunum 1870–80. Þegar Stalín lést árið 1953 tók ný kynslóð við sem var fædd í kringum aldamótin 1900. Hún var því tiltölulega ung að árum, en flestir af þeim sem höfðu tekið þátt í byltingunni sjálfri höfðu týnt lífi í hreinsunum Stalíns. Þessi kynslóð myndi því ríkja fram að falli Sovétríkjanna, eða svo gott sem.
Sú ákvörðun var tekin skömmu eftir fráfall Stalíns að binda enda á fjöldaaftökurnar sem höfðu einkennt stjórnartíð hans. Svo undarlega vildi til að Bería, sem var leiðtogi hinnar illræmdu leyniþjónustu NKVD og helsti böðull Stalíns, reyndist nú mesti umbótasinninn og hrækti á hinn farlama Stalín á dánarbeði einræðisherrans. En Bería var of hættulegur til að keppinautar hans gætu leyft honum að lifa. Ekki aðeins hafði hann þúsundir mannslífa á samviskunni, heldur var hann þekktur fyrir að láta ræna unglingsstúlkum af götunum, nauðga þeim og myrða ef þær streittust á móti. Fjórum mánuðum eftir andlát Stalíns lét Krústjoff handtaka hann og notaði uppreisn verkamanna í Austur-Berlín sem átyllu. Bería var tekinn af lífi undir lok árs 1953 og grét og baðst vægðar fyrir framan aftökusveitina, rétt eins og fyrirrennari hans í starfi, Yezhov, hafði gert 13 árum áður.
Einræðisherrar á eftirlaunum
Bería var sá síðasti til að vera tekinn af lífi í valdabaráttum Sovétríkjanna. Malenkov tók við en var stjakað til hliðar af Krústjoff og fékk að lifa í kyrrþey í Moskvu allt þar til hann lést árið 1988, þá 86 ára gamall. Krústjoff var sjálfum ýtt til hliðar árið 1964 þegar hann var staddur í sumarfríi suður í Abkasíu en fékk í staðinn ellilífeyri, íbúð og sumarbústað fyrir utan Moskvu. Þegar hann lést árið 1971 var hann þó ekki jarðaður í Kremlarmúr, heldur í Novodevichy-kirkjugarðinum. Þegar ég fór fyrst til Rússlands árið 1999 mátti enn sjá öldunga þar leggja blómsveig á leiði hans, sem þakkir fyrir að hann frelsaði þá úr Gúlaginu eftir andlát Stalíns.
Bresjneff tók við búi og ríkti í samráði við félaga sína í Politburo allt til dánardags árið 1982. Kynslóð hans var nú kominn nokkuð til aldurs og eftirmenn hans létust hver af öðrum, Andropov árið 1984 og Tsjernenkó árið 1985, báðir í kringum sjötugt. Við tók Gorbatsjoff, sem var um 20 árum yngri en fyrirrennarar sínir. Gorbatsjoff tilheyrði nýrri kynslóð sem hafði komist til manns á Krústjoff-tímanum og dreymdi um framfarir og sósíalisma með mannlegt andlit, en hafði séð þær vonir fara fyrir lítið með innrás Rússa í Tékkóslóvakíu árið 1968. Nú var þeirra tími kominn. Eða kannski misstu þeir af honum, því framþróun umbótasinnaðs kommúnisma í Sovétríkjunum reyndist þeim ekki mögulegur.
Í samræmi við hefði og venjur var gerð valdaránstilraun þegar Gorbatsjoff var í sumarfríi suður á Krímskaga. Tilraunin mistókst, en Gorbatsjoff náði aldrei aftur fyrri styrk og Sovétríkin liðuðust í sundur í árslok árið 1991. Jafnaldri hans, Boris Jeltsín, var nú orðinn forseti hins nýstofnaða Rússneska sambandsríkis. Jeltsín vildi koma á markaðshagkerfi í snatri en þingið vildi fara hægar í sakirnar. Jeltsín reyndi að stjórna með tilskipunum í trássi við stjórnarskrá, þingið reyndi að setja hann af, Jeltsín lét skriðdreka skjóta á þingið og aðalráð Sovétríkjanna, sem enn var við lýði, var leyst upp.
Skotið á þinghúsið
Öfgaþjóðernissinnar á borð við Vladimir Zírínovskí sóttu í sig veðrið, en kommúnistinn Gennadíj Tsjúganov virtist lengi líklegastur til að sigra í kosningunum árið 1996. Jeltsín mældist með um þriggja prósenta fylgi og allt var sett af stað. Hann réð dóttur sína sem kosningastjóra og einkavæddi mörg af helstu ríkisfyrirtækjum landsins sem lentu í höndum fámenns hóps, hinna svokölluðu olígarka, í skiptum fyrir stuðning þeirra í kosningunum. Hefur þetta stundum verið kallað „sala aldarinnar“. Jafnframt studdu Bandaríkjamenn hann með ráðum og dáð, svo sem með 10 milljarða dollara láni og kosningaráðgjöf. Jeltsín tókst að sigra í kosningunum, þó Medvedev, síðar forseti, hafi gefið í skyn að það hafi varla verið með heiðarlegum hætti.
Síðara kjörtímabil Jeltsíns var því dýru verði keypt, en hann var veill til heilsu, drykkfelldur og óvinsæll. Hann sagði af sér á gamlársdag 1999 og við tók sitjandi forsætisráðherra, Vladimír Pútín. Pútín sigraði í forsetakosningunum í mars árið 2000 með 53 prósent atkvæða, en í þeim næstu á eftir fékk hann 71 prósent. Stjórnarskráin leyfir aðeins að menn sitji í tvö kjörtímabil í röð og gerðist hann því aftur forsætisráðherra árið 2008. Forsætisráðherrann Medvedev tók við æðsta embættinu á móti. Þeir höfðu síðan aftur stólaskipti árið 2012, en kjörtímabil forseta var nú lengt í sex ár. Eftir sigur sinn í kosningunum í mars í ár mun Pútín því sitja til 2024. En hvað gerist þá?
Sparkað í hunda í stað fjármálaráðherra
Sé Medvedev-tíminn talinn með hefur Pútín nú ríkt í 18 ár, sem er jafnlengi og hinn langi stöðnunartími Brjesneffs. Eftir sex ár í viðbót mun hann slaga hátt upp í sjálfan Stalín. Pútín og Medvedev tilheyra annarri kynslóð en þeir Gorbatsjoff og Jeltsín, en Pútín er fæddur 1952 og Medvedev árið 1965. Pútín virðist við góða heilsu og eftir sex ár verður hann aðeins 71 árs, jafn gamall og Trump er nú. Mun hann láta af völdum sjálfviljugur? Það verður þá nánast einsdæmi í Rússlandssögunni, en fyrirrennarar hans annaðhvort létust í embætti eða var bolað frá, og má nefna sem dæmi Jeltsín, Gorbatsjoff, Krústjoff, Malenkov og jafnvel Nikulás II keisara. Hinir fjórir fyrstnefndu fengu þó náðug elliár og Gorbatsjoff lifir enn, nú 87 ára gamall, en spúsa hans, Raisa, sem menn muna eftir frá Íslandsheimsókninni, lést árið 1999. Vissulega gæti Pútín farið á eftirlaun, en margt í ferli hans gefur til kynna að það muni henta honum illa. Hann forðaðist vissulega að fremja stjórnarskrárbrot árið 2008 en önnur stólaskipti við Medvedev eru ólíkleg, Pútín yrði þá orðinn 77 ára þegar hann gæti sest aftur í æðsta embættið. Fyrirmyndin Xi Jinping í Kína gæti einnig orðið honum tilefni til stjórnarskrárbreytinga sem gerir honum kleift að sitja áfram.
Söguskoðun á tímum Sovétríkjanna var á þá leið að keisaradæmið hafi verið slæmt en Sovétríkin góð, þrátt fyrir að persónudýrkun á Stalín hafi verið hafnað. Söguskoðunin í dag er hins vegar sú að bæði Sovétríkin og Keisaraveldið hafi haft nokkuð til síns máls, enda var Rússland þá stórt og öflugt, en niðurlægingartíminn hafi verið á Gorbatsjoff- og Jeltsín-árunum. Þetta er nokkuð á skjön við söguskoðun Vesturlandabúa en virðist stemma ágætlega við minningar fólks í Rússlandi. Efnahagurinn dróst saman um helming á árunum 1990 til 95, sem er talsvert meira en gerðist á Vesturlöndum í kreppunni miklu á 4. áratugnum. Árið 1998 varð svo aftur efnahagskrísa og verðbólga náði 84 prósentum. Rússnesk fyrrum unnusta mín hefur talað um það þegar bróðir hennar fór til náms í Moskvu á 10. áratugnum og kom til baka lítandi út eins og beinagrind. Maður að nafni Anatoly Tsjúbais var gerður ábyrgur fyrir einkavæðingunni og var árið 1997 útnefndur besti fjármálaráðherra heims af breska blaðinu Euromoney. Í Rússlandi varð hins vegar vinsælt að fá sér hund, nefna hann Tsjúbais og sparka síðan hressilega í hann.
Síðasta Sovétkynslóðin
Rússneskur efnahagur hóf að jafna sig upp úr 1999, ekki síst þökk sé háu olíuverði, og á fyrstu tveim kjörtímabilum Pútíns jókst kaupmáttur samanlagt um 72 prósent. Eftir efnahagslegar hamfarir 10. áratugarins, stöðnun Brjesneff-áranna og hrylling Stalín-tímans má segja að almennir Rússar hafi líklega aldrei haft það jafn gott. Í þeim samanburði verður auðvelt að skilja vinsældir Pútíns. Upp úr 2014 fór hins vegar saman lækkandi olíuverð og viðskiptaþvinganir Vesturveldanna eftir innlimun Krímskaga, og efnahagurinn dróst saman um 3,7 prósent. Að mestu hefur mistekist að gera hagkerfið minna háð olíuútflutningi, sem boðar ekki gott fyrir framtíðina. Pútín virðist þó að mestu hafa haldið vinsældum sínum, eins og nýafstaðnar kosningar sýna. Ein af afleiðingum byltingarinnar 1917 og svo falls Sovétríkjanna síðar meir er óbeit margra á róttækum breytingum. Stöðugleiki skiptir miklu í þessu landi sem svo margt hefur mátt þola.
Pútín tilheyrir kynslóð sem ólst upp í Sovétríkjunum, en hvað er það sem ungt fólk í Rússlandi í dag vill helst? Á 10. áratugnum varð til ný stétt manna, hinir svokölluðu „nýrússar,“ sem dáðu ríkidæmi ofar öllu og létu mikið berast á. Olígarkar keyptu sér spilavíti og snekkjur og allt var til sölu. Í neðanjarðarlestarstöðvum mátti sjá raðir vændiskvenna og fólk leigði út aukaherbergi til túrista eða stunduðu hark á bílum sínum. Nú er komin ný kynslóð sem ku hafa meiri áhuga á hjólreiðum en einkabílstjórum, sem lifir lífi sínu að hluta til á netinu og vill ferðast um Indland frekar en að eignast tískuföt. Hún kýs sjaldnast og lítur á stjórnmál sem eitthvað sem skiptir hana litlu máli, enda engin leið til að hafa áhrif á þau. Vissulega er þetta eitthvað sem sjá má víðar þessa dagana, en eins og svo oft eru hlutirnir öfgakenndari í Rússlandi.
Vissulega er auðveldara að ferðast til útlanda eða stofna fyrirtæki en það var á tímum Sovétríkjanna, en rússnesk ungmenni í dag búa þó við skertari tækifæri en við erum vön. Meira að segja í stórborginni Pétursborg virðast fæstir á þrítugsaldri kunna ensku, eins og ég komst að þarsíðasta sumar. Og 75 prósent allra undir þrítugu telja það að starfa hjá öryggisþjónustunni FSB, arftaka KGB, sem bestu leiðina til að bæta hag sinn.
Pútín-Matrixið
Erfitt er, eins og alltaf, að spá fyrir um hvað muni gerast í Rússlandi. Svo til enginn af helstu Rússlandsfræðingum heims spáði fyrir um fall Sovétríkjanna á 9. áratugnum. Mikhail Zygar, fyrrverandi ritstjóri rússnesku sjónvarpsstöðvarinnar Dozhd, segir í nýlegu tölublaði Time að Pútín hafi rekið marga eldri embættismenn og í staðinn ráðið andlitslausa teknókrata á aldrinum 30 til 45, sem eigi að tryggja stjórn hans eftir að núverandi kjörtímabil rennur út. Zygar kallar þá „Agent Smith“ í höfuðið á birtingarmynd tölvuforritsins í Matrix-myndunum, einn sé öðrum líkur, og segir hann að Pútín sjálfur hafi eitt sinn verið álíka fígúra. Á móti þeim standa hinir svokölluðu „sofandi frjálslyndismenn,“ sem vilja halda áfram með lýðræðis- og efnahagsumbætur Jeltsín-áranna, en vilja ekki andæfa Pútín opinberlega.
Blaðið Economist, hins vegar, hefur mikla trú á þeirri kynslóð sem nú er á fertugsaldri, og hefur litlar eða engar minningar frá Sovéttímanum. Þessi kynslóð er mun stærri heldur en sú sem kom á undan eða eftir fyrir sögulega tilviljun og hlýtur því að gera sig gildandi. Fyrir þessari kynslóð eru endalok Sovétríkjanna ekki sá harmleikur sem hann var fyrir kynslóð Pútíns, heldur aðeins liður í því að gera Rússland að „venjulegu landi“.
Þessir tveir straumar, alþjóðahyggja annars vegar og þjóðernishyggja hins vegar, hafa tekist á í Rússlandi frá tímum Péturs mikla og hafa farið með yfirhöndina á víxl. Ef til vill er eitthvað álíka að eiga sér stað um heim allan þessa dagana, þar sem þjóðernissinnar á borð við Trump, Brexit-liða og Marine Le Pen takast á við alþjóðasinna. Jafnvel má sjá móta fyrir þessu í íslenskum stjórnmálum, þar sem Evrópuandstæðingar hafa myndað ríkisstjórn þvert á vinstri-hægri línur en Samfylking, Píratar og Viðreisn halda uppi merkjum alþjóðahyggjunnar í stjórnarandstöðu.
Tíminn ætti að vera með þeim síðarnefndu í liði en sagan, ekki síst Rússlandssagan, sýnir okkur að ekkert er óhjákvæmilegt. Hinir ungu sigrast ekki alltaf á þeim öldnu heldur eru mótaðir af þeim líka, og aldurinn breytir stundum afstöðu manna svo að erfitt er að spá fyrir um hvað muni gerast þegar nýjar kynslóðir taka við. Ef til vill enda hinir sofandi frjálslyndismenn Rússlands eins og kynslóð Gorbatsjoffs, sem vildi klára umbætur Krústjoff-áranna en þurfti að horfa upp á stöðnun Brjesneff-tímabilsins og komst ekki að fyrr en það var orðið of seint.
Athugasemdir