Alheimurinn er miklu skrýtnari en við töldum.
Nú hafa vísindamenn fundið stjörnuþoku í 65 milljóna ljósára fjarlægð sem virðist með þeim ósköpum að í henni sé ekkert hulduefni (dark matter) heldur aðeins venjulegt (baryonic) efni.
Og það héldu hinir vísustu menn að væri ekki hægt.
Hulduefnið er afar dularfullt fyrirbæri af því einfaldlega að það sést ekki.
Því hafa menn takmarkaða hugmynd um hvað það eiginlega er, þótt ýmsar kenningar séu á lofti.
Vegna þess að það hefur massa hafa menn hins vegar getað reiknað út tilvist þess og umfang og niðurstaðan er sú að hulduefni sé 85 prósent af öllu efni í alheiminum.
Og síðustu áratugina hafa verið viðtekin vísindi í alheimsfræðum að hulduefnið skipti höfuðmáli í myndun stjörnuþoka, eins og Vetrarbrautarinnar okkar. Aðdráttarafl þess hafi dregið saman þau miklu gasský sem síðan myndi stjörnuþokurnar.
En nú er sú heimsmynd öll í voða.
Vísindamenn undir leiðsögn Pieter van Dokkum við Yale-háskóla í Bandaríkjunum hafa að undanförnu notað athugunarstöð er kallast Dragonfly til að skima eftir hulduefni úti í geimnum.
Það sem þeir fundu var algjörlega óvænt.
Þeir fundu semsé stjörnuþoku, sem ennþá ber aðeins hið óskáldlega nafn NGC 1052-DF2.
Það var strax ljóst að hún var mjög undarleg. Raunar var erfitt að koma auga á hana því hún er næstum gegnsæ. Ástæðan er sú að þótt hún sé að umfangi um það bil jafn stór og Vetrarbrautin okkar, þá eru sólirnar í henni 200 sinnum færri en í okkar stjörnuþoku.
Það er að segja, aðeins ein sólstjarna í NGC-1052-DF2 á móti hverjum 200 í okkar Vetrarbraut.
Og þær (tiltölulega) fáu stjörnur sem í stjörnuþokunni eru virðast þjappast saman í hnattlaga hópa (globular clusters) í miklu meira mæli en í vanalegum stjörnuþokum.
Þegar Dokkum og félagar fóru að reikna út massa þessarar einkennilegu vetrarbrautar komust þeir svo að því að massinn virðist samsvara næstum nákvæmlega því sem hið sýnilega venjulega efni ætti að vega.
Sem sagt, í NGC-1052-DF2 er svo til ekkert hulduefni aukreitis.
Þetta er ekki einungis undarlegt af því hulduefni er óaðskiljanlegur hluti allra annarra stjörnuþoka sem við höfum hingað til rannsakað, þar á meðal okkar Vetrarbrautar þar sem er fimm sinnum meira hulduefni en venjulegt efni.
Þetta er líka í meira lagi undarlegt af því hulduefnið hefur nú um langt skeið verið talið nauðsynleg forsenda þess að stjörnuþokur verði til.
Engin vísindakenning hafði spáð fyrir um að svona stjörnuþokur gætu verið til og engin skýring er ennþá komin fram á því hvernig NGC-1052-DF2 gat yfirhöfuð myndast.
Vísindamennirnir eru velta fyrir sér nokkrum hlutum, svo sem að gríðarstór og mjög virk stjörnuþoka í nágrenninu, NGC-1052, hafi einhvern veginn dregið hina smærri stjörnuþoku saman án atbeina hulduefnis.
Þótt við höfum fram til þessa ekki séð nein ummerki um slíkt annars staðar í alheiminum.
Eða þá að einhverjar ennþá óskiljanlegar hamfarir í stjörnuþokunni sjálfri hafi með dularfullum hætti feykt burt hulduefninu.
Það hefur þá væntanlega verið sjón að sjá.
Eða kannski ekki, úr því hulduefnið er ósýnilegt.
Hvað sem því líður er þetta stórdularfullt og gæti kippt stoðum undan kenningum um tilorðningu stjörnuþoka. Ef hulduefni reynist þá ekki vera nauðsynlegt til að mynda stjörnuþokur þarf að hugsa ýmislegt upp á nýtt - bæði um stjörnuþokur og ekki síður um hulduefnið.
Nú þegar eru vísindamenn byrjaðir að beina tólum sínum víðar um geiminn til að reyna að finna fleiri slík fyrirbæri.
En þau kunna að verða illfinnanleg. NGC-1052-DF2 er til dæmis svo gegnsæ, af því í henni eru svo fáar stjörnur, að aðrar stjörnuþokur handan hennar sjást í gegnum hana.
Hún er eins og næstum ósýnilegur draugur á himninum.
Ákjósanlegast væri auðvitað að skreppa þangað og spyrja íbúana á NGC-1052-DF2 sjálfa um tilvist sína.
En það eru litlar líkur á að það takist á næstunni.
Fjarlægðin til þessarar draugaþoku er nefnilega allnokkur. Raunar er ljósið frá henni svo lengi á leiðinni að við sjáum hana núna eins og hún leit út um það leyti sem risaeðlunum var útrýmt af jörðinni.
Athugasemdir