„Ég trúi á Guð föður almáttugan, skapara himins og jarðar.“
Þannig hefst hin kristna trúarjátning.
Guð talar og allt verður til!
Að alheimurinn og allt sem í honum er fólgið sé skapað af Guði er grundvallandi hluti kristinnar trúar og játningar.
Kristin trú er í eðli sínu þakkargjörð frammi fyrir Skaparanum og sköpun hans og viðleitni til þess að mæta vilja hans þar og lifa lífinu í ljósi hans.
Þakklæti, virðing og auðmýkt frammi fyrir lífinu og helgi þess, umhyggja fyrir öllu sem lifir, andar, vex og dafnar, er eðlileg afleiðing af þeirri sannfæringu og trú að til er góður Guð sem allt hefur skapað og viðheldur öllu á hverri stundu.
Spámaðurinn Nehemía dregur sköpunartrú Biblíunnar saman í eftirfarandi orðum:
Þú ert Drottinn, þú einn.
Þú hefur gert himininn,
himin himinsins og allan hans her,
jörðina og allt sem á henni er,
höfin og allt sem í þeim er.
Þú fyllir þau öll lífi
og himinsins her sýnir þér lotningu. (Neh 6.9)
Guðstrú er fólgin í því trausti og þeirri fullvissu að uppruna alls sem er sé að finna hjá Guði, og að í honum eigi lífið sér upphaf, tilgang og takmark.
Þegar fólk staðhæfir að Guð sé til lýsir það því yfir að hinn efnislegi heimur sem við lifum og hrærumst í sé ekki tæmandi lýsing á veruleikanum. Þvert á móti bendi sá heimur sem við skynjum til veruleika utan og ofan við heiminn sjálfan, veruleika sem verði að taka til greina þegar kemur að því að útskýra þennan heim sem við erum hluti af; að heimurinn og líf okkar séu ekki tilviljun ein heldur sé hugsun og vit á bak við heiminn sem allt eigi rót sína að rekja til og stefni jafnframt öllu að marki sínu (sbr. Post 17.28).
Að Guð orsakaði, eða skapaði, alheiminn – tíma, rúm, efni og orku – úr engu, er strangt til tekið ofar skilningi okkar. En það þýðir ekki að við getum ekki komið að því skynsamlegum orðum.
En um leið og fólk lætur í ljós þá sannfæringu að Guð sé til álíta ýmsir það til marks um að viðkomandi hafi gefist upp á skynsamlegri og röklegri hugsun, enda sé ekkert sem bendi til þess að Guð sé til annað en óskhyggja og ranghugmynd hins trúaða.
Þá er horft framhjá því að til eru margskonar og ólík rök fyrir tilvist Guðs - sem margir af stærstu hugsuðum sögunnar hafa aðhyllst og byggt trú sína á, ekki síst margir af okkar fremstu vísindamönnum.
Rök þýða hér að sjálfsögðu ekki óvéfengjanlega sönnun, heldur miklu fremur vísbendingar, eitthvað sem gefur okkur skynsamlega ástæðu til að ætla að alheimurinn sé ekki „allt sem er, var eða mun verða“, svo vísað sé til fleygra orða Carl Sagan.
Þau rök eru mörg og af ýmsum gerðum.
Heimsfræðirökin eru dæmi um röksemdafærslu þar sem tilvist Guðs er leidd af þeirri einföldu staðreynd að alheimurinn er til, að eitthvað sé til frekar en ekkert.
Þau má útfæra á ólíkan hátt, meðal annars á grundvelli þess að alheimurinn varð til, þ.e. að hann eigi sér upphaf og sé því ekki eilífur (eins og gengið var út frá allt fram á 20. öld).
Ef alheimurinn er ekki eilífur þá hefur hann jú ekki alltaf verið til. Og að því gefnu útskýrir hann ekki eigin tilvist! Orsök alheimsins er því ekki að finna innan alheimsins sjálfs. Eitthvað hlýtur að vera til sem ekki á tilvist sína undir neinu öðru, en er jafnframt orsök alls annars.
Ef fallist er á að ekkert verður til af engu, þ.e.a.s. að allt sem verður til eigi sér orsök, og að alheimurinn sjálfur hafi orðið til, þá er sú ályktun að alheimurinn eigi sér orsök röklega óhjákvæmileg.
Til að komast hjá þeirri niðurstöðu þarf að hafna annarri hvorri forsendunni eða báðum.
Sumir gera það. Aðrir fallast á niðurstöðuna, en lyfta öxlum og spyrja: Hvað hefur þetta með Guð að gera?
Áður en þeirri spurningu er svarað er rétt að staldra aðeins við sjálfa röksemdafærsluna.
Grundvallarforsenda hennar er sú staðhæfing að alheimurinn sé takmarkaður í tíma og eigi sér því upphaf. Sú staðhæfing nýtur bæði heimspekilegs og vísindalegs stuðnings.
Látum vísindin liggja á milli hluta og ímyndum okkur að við séum að lesa bók.
Bókin er rúmar þrjúhundruð blaðsíður að lengd og erum við á síðu þrjátíu og fimm. Til að komast á síðu þrjátíu og fimm þurftum við að lesa síðu þrjátíu og fjögur. Og til að komast á síðu þrjátíu og fjögur þurftum við að lesa síðu þrjátíu og þrjú, og svo framvegis allt frá upphafssíðunni.
Í ljósi þess að bókin á sér upphaf, þ.e. hefur að geyma upphafssíðu, og að því gefnu að við erum bara komin á síðu þrjátíu og fimm, þá er ljóst að við höfum einungis lesið takmarkaðan fjölda blaðsíðna.
En þá blasir við áhugaverð spurning!
Hvaða áhrif hefði það á lesturinn ef takmarkalausum fjölda blaðsíðna, þ.e. óendanlega mörgum blaðsíðum, væri bætt framan við bókina?
Með öðrum orðum, hvenær kæmust við á síðu þrjátíu og fimm (eða síðu tuttugu og fimm ef því er að skipta) ef bókin væri óendalega löng?
Aldrei!
Það er sama hversu lengi eða hratt við læsum. Við kæmumst aldrei svo langt. Það sem er óendanlegt eða eilíft tekur jú aldrei enda. Við mundum aldrei ná að ljúka við að lesa hinn óendalega fjölda blaðsíðna þar á undan. Sama hversu margar síður við læsum ættum við alltaf fleiri eftir ólesnar.
Það sama gildir um röð þeirra atburða sem saga alheimsins samanstendur af.
Við getum valið hvaða atburð sem er. Ef óendanlegur fjöldi atburða fór á undan honum (eins og raunin væri í eilífum alheimi) þá hefði hann aldrei átt sér stað.
Dagurinn í dag hefði aldrei orðið að veruleika ef óendanlega margir dagar urðu að líða á undan honum. Það hefði aldrei komið að honum.
Þetta minnir okkur á að alheimurinn á sér upphaf. Hann kom til sögunnar á tilteknu augnabliki.
Þegar við, með öðrum orðum, rekjum okkur aftur í tíma eftir orsakakeðjunni komum við að upphaflegu orsökinni, frumorsökinni.
En hvað hefur það með Guð að gera?
Já, hér er ekki beinlínis um að ræða rök fyrir tilvist Guðs. Niðurstaða röksemdafærslunnar er ekki „Guð er til“.
En myndin tekur að skýrast þegar við leiðum hugann að því hvaða eiginleikum orsök alheimsins hlýtur að búa yfir.
Að um frum-orsök sé að ræða þýðir að hún á sér ekki neina orsök sjálf. Það sem kemur fyrst kemur fyrst! Hún er ekki afleiðing einhvers annars. Hún hefur alltaf verið til og er þar með eilíf.
Að um frum-orsök sé að ræða vísar til sambands hennar við allt annað. Hún er orsök alls annars. Allt annað er afleiðing hennar. Án hennar væri ekkert annað til. Tilvist alls annars grundvallast á þessari orsök.
Sá orsakavaldur sem hér er lýst á margt sameiginlegt með Guði kristinnar trúar! Kristin trú hefur vitaskuld meira að segja um „skapara himins og jarðar“, en ekki minna.
Í báðum tilfellum er um að ræða skapara alheimsins. Orsakavaldurinn að öllu leyti handan alheimsins. Jafnframt er um að ræða veru utan tíma, rúms, efnis og orku sem ekki þiggur tilvist sína annars staðar frá, og er jafnframt ástæða þess að alheimurinn er til.
Og þar sem tilvist alheimsins er ekki nauðsynleg má ennfremur ætla að á bak við sköpun hans sé ásetningur og fyrirætlun. Að því gefnu er um persónulega og vitræna veru að ræða.
Þá er þessi orsakavaldur ólýsanlega máttugur þar sem hann skapaði alheiminn úr engu.
Og þar sem alheimurinn væri alls ekki til ef hann hefði ekki verið skapaður af þessum orsakavaldi er ekki fráleitt að ætla að mögulega geymi alheimurinn vísbendingar um eðli og fyrirætlan þessa skapara.
Á grundvelli þessarar röksemdafærslu má draga þá ályktun að til sé persónuleg og tímalaus vera, nægilega máttug og vitræn til að skapa alheiminn. Ennfremur má gera ráð fyrir því að þessi vera hafi skapað alheiminn af ástæðu.
Hvað sem við viljum kalla þennan orsakavald er Guð er ekki óviðeigandi hugtak.
Eins og sálmaskáldið forna sem miðlar okkur af trú sinni, reynslu og upplifun af lífinu í 19. Davíðssálmi sagði:
„Himnarnir segja frá Guðs dýrð,
festingin kunngjörir verkin hans handa.“
Mörgum þykir áhugavert að hugsa um tilvist Guðs og trú sína í því ljósi sem hér hefur verið gert. En hinir eru líka margir sem álíta röksemdafærslu á borð við þessa fullkomna og heimskulega tímasóun.
En hvað fólk hugsar eða sér eða upplifir veltur mikið á þeim sjónarhóli sem það velur sér.
Og þegar horft er á lífið og tilveruna út frá sjónarhóli guðleysis og náttúruhyggju blasir að sjálfsögðu við allt önnur mynd, gjörólík heimsmynd.
Séð í ljósi guðleysis endurspeglar heimurinn ekki vilja, ásetning, hugsun og vit Guðs enda er heimurinn ekkert annað en efnislegur og skilyrtur veruleiki frá öllum hliðum séð, og lífið (þar á meðal hugsanir okkar og gjörðir) einungis tilviljunarkennd aukaafurð blindra náttúrulögmála.
Og á þeirri trú byggja margir heimssmynd sína og lífsskoðun, þó það sé kannski ekki með meðvituðum hætti dag frá segi.
En það er ekki skynsemin sem krefst þess, að mínu mati. Þvert á móti.
Guðstrú rúmast vel innan marka skynsamlegrar og röklegrar hugsunar, eins og ofangreind röksemdarfærsla (og margar aðrar) sýnir vel.
Þegar fólk tekur guðleysi fram yfir guðstrú í nafni vísinda og röklegrar hugsunar þá er það ekki svo að það láti af trúnni. Það gengur miklu fremur inn í annað trúarsamfélag þar sem línan á milli réttrar trúar og rangrar er dregin annars staðar en áður var.
Burtséð frá því hljómar það einkennilega þegar sagt er að það sé óhugsandi fyrir Guð (sem sjálfur sé óhugsandi fyrirbæri) að skapa allt úr engu, en látið svo að því liggja að það sé skynsamlegra að ætla að ekkert geti breytt sé eitthvað.
Athugasemdir