Aðeins 27 manns tóku þátt í prófkjöri Pírata fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar á Akureyri. Einar Brynjólfsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, sóttist eftir því að leiða lista flokksins en lenti í öðru sæti. Þrír gáfu kost á sér.
Níutíu manns höfðu kosningarétt í prófkjörinu og því var það tæpur þriðjungur félagsmanna sem tók þátt. Halldór Arason varð efstur í prófkjörinu, Einar annar og Guðrún Ágústa Þórdísardóttir í þriðja sæti.
Bjarki Hilmarsson, formaður Pírata á Akureyri, segir að vissulega séu þetta ekki margir þátttakendur. „Vandamálið okkar er að það eru ekkert allt of margir formlega skráðir í félagið. Félagið er ekki gamalt, það var stofnað í haust en fram að því var þetta allt undir hatti Pírata á Norðausturlandi. Félagið hefur dálítið undir radarnum, við hefðum viljað hafa haustið til uppbyggingar en þá skullu auðvitað Alþingiskosningar á. Orkan fór ansi mikið í þær og tíminn hljóp frá okkur.“
Bjarki segir að þrátt fyrir að aðeins þrír hafi gefið kost á sér og þátttaka hafi ekki verið meiri en raun bar vitni þá sé engan bilbug á Pírötum á Akureyri að finna. „Við stefnum alveg ótrauð á framboð, við erum bara að leita að fólki sem vill gefa kost á sér og höfum þegar hafið málefnavinnu.“
Athugasemdir