„Ríkisstjórnin er fallin ef þessi vantrausttillaga er samþykkt það veit stjórnarandstaðan mæta vel !“ Þetta segir Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona Vinstri grænna í athugasemd á Facebook, þar sem hún bregst við gagnrýni Láru Hönnu Einarsdóttur á stuðning Vinstri grænna við Sigríði Andersen dómsmálaráðherra.
Sams konar ummæli komu fram í ræðu Lilju Rafneyjar á Alþingi áðan, en þar lýsti hún áhyggjum af því að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ganga frá ríkisstjórnarborðinu ef vantrauststillagan gegn dómsmálaráðherra yrði samþykkt á Alþingi.
„Það er augljóst að sjálfstæðisflokkurinn myndi ganga frá ríkisstjórnarborðinu það vita þeir sem vilja vita,“ segir Lilja einnig á Facebook. „Þeir sem vilja að ríkisstjórnin fari frá styðja þessa vantrausttillögu með augljósum afleiðingum. Ég styð minn forsætisráðherra heilshugar til þess að leiða þessa ríkisstjórn til góðra verka.“
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, tók undir þessa skýringu Lilju Rafneyjar í ræðu sinni síðar í umræðunum og sagði meirihluta þingflokks Vinstri grænna líta svo á að verja yrði Sigríði vantrausti til að bjarga ríkisstjórnarsamstarfinu.
„Níu þingmenn Vinstri grænna meta það svo að ríkisstjórnarsamstarfið sé undir ef vantraust verður samþykkt. Við myndum líta þannig á ef málið sneri að okkur. Annað er einföldun á pólitíkinni að mínu mati,“ sagði Bjarkey.
Athugasemdir