„Missagnir“ dómsmálaráðuneytisins í bréfi til þingmanns um mál er vörðuðu uppreist æru kynferðisbrotamanna og sjónarmið umboðsmanns Alþingis um skráningarskyldu ráðherra eru á meðal ástæðna þess að umboðsmaður fór fram á að dómsmálaráðuneytið afhenti honum gögn um undirbúning og ákvarðanatöku ráðherra við skipun Landsréttardómara áður en hann kom á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um embættisfærslur Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra þann 18. janúar síðastliðinn.
Þetta má lesa út úr bréfi umboðsmanns til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem embættið birti í gærmorgun. Þar greinir umboðsmaður frá því að hann telji allar helstu upplýsingar um embættisfærslur ráðherra í Landsréttarmálinu liggja fyrir í dómum Héraðsdóms Reykjavíkur og Hæstaréttar og því ekki ástæðu til að hefja frumkvæðisrannsókn á málinu.
Athygli vekur að í bréfinu minnist umboðsmaður sérstaklega á „missagnir“ ráðuneytisins í öðru ótengdu máli. Stundin fjallaði um þessar „missagnir“ þann 12. janúar síðastliðinn og greindi frá því að umboðsmaður Alþingis hefði farið fram á að dómsmálaráðuneytið leiðrétti villandi upplýsingar sem gefnar voru í svari við upplýsingabeiðni Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingkonu Pírata, þann 5. desember 2017.
Í svari ráðuneytisins við upplýsingabeiðni Þórhildar var ranglega gefið í skyn að umboðsmaður Alþingis hefði lagt blessun sína yfir það hátterni ráðuneytisins að skrá ekki símtal sem Sigríður Andersen dómsmálaráðherra sagðist hafa átt við Bjarna Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra, þegar Bjarni var upplýstur um að faðir hans, Benedikt Sveinsson, hefði veitt kynferðisbrotamanninum Hjalta Sigurjóni Haukssyni meðmæli vegna umsóknar hans um uppreist æru árið 2016. Hið rétta er að Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, lýsti því sjónarmiði á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þann 21. september að samkvæmt lögum og reglum hefði ráðherra átt að skrá umrætt símtal.
Ráðuneytið sendi Þórhildi Sunnu bréf skömmu fyrir jól og baðst velvirðingar á ónákvæmum svörum eftir að umboðsmaður hafði samband við ráðuneytið og benti á að framsetning í fyrra bréfi þess væri til þess fallin að valda misskilningi.
Um þetta segir í bréfi umboðsmanns sem birtist í gær: „Ég ték hér líka fram að ég taldi rétt að kynna mér þau gögn sem orðið hefðu til við undirbúning og töku þeirra ákvarðana sem fjalla átti um á nefndarfundinum [skipun dómara við Landsrétt]. Var það m.a. í ljósi þeirra missagna sem komið höfðu fram í bréfi dómsmálaráðuneytisins til þingmanns, dags. 5. desember 2017, um það sem ég hafði sagt á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis 21. september það ár um annað mál og byggði á því sem ég taldi mig hafa fengið upplýst um ástæður tiltekinna athafna ráðherra.“
Þarna vísar hann til símtals Sigríðar og Bjarna og sjónarmiða sinna um skráningarskyldu dómsmálaráðherra út frá því sem hann „taldi“ sig hafa fengið upplýst um ástæður símtalsins sem engin skrifleg gögn eru þó til um.
Athugasemdir