Í Vikulokum í morgun, 24. febrúar, ræddu Bjarkey, Þorgerður Katrín og Áslaug Arna um starfs- og ferðakostnað þingmanna. Í þeirri umræðu þarf að hafa nokkra hluti á hreinu, sérstaklega af því að þær tala um að það þurfi að skoða reglurnar í framhaldi af þeim upplýsingum sem hafa komið fram að þingmenn hafi rukkað þingið um kostnað fyrir kosningabaráttu.
Í fyrsta lagi þá hafa fjölmiðlar beðið um upplýsingar um kostnað þingmanna í mörg ár. Þegar allt kemur til alls þá þurfti bara einn þingmann til þess að biðja um nákvæmlega upplýsingarnar sem fjölmiðlar voru að leita að. Allan þennan tíma, öll þessi ár þá þurfti bara einn þingmann til þess að ganga til liðs við fjölmiðla í eftirlitshlutverki sýnu. Hver einn og einasti þingmaður fram að þessu hefði getað sýnt málinu þann áhuga að biðja um gögnin. Með því er ég auðvitað ekki að ásaka neinn, áhugi og tími manna liggur á mismunandi stöðum en staðreyndin liggur fyrir. Það þurfti bara einn þingmann til þess að brjóta ísinn.
Í öðru lagi þá tel ég að það skipti máli hvernig var beðið um gögnin. Fjölmiðlar báðu um sundurliðun niður á hvern þingmann. Ef ég hefði spurt beint um þau gögn þá held ég að svörin hefðu verið fá. Af því að ég spurði sérstaklega um heildina fyrst og gróf mig síðan niður á nákvæmari tölur þar sem heildarupphæðirnar voru grunsamlega háar. Það gerði það að verkum að það var mjög erfitt að neita því að svara.
Í þriðja lagi þá eru það lögin og reglurnar sem eru núna í gildi. Þar eru lög um þingfararkostnað, reglur forsætisnefndar og loks siðareglur þingmanna. Þar er augljóst að horfa til eftirfarandi:
* „Endurgreiða skal alþingismanni kostnað við aðrar ferðir er hann þarf að fara innan lands í tengslum við störf sín“
* „Endurgreiða skal alþingismanni kostnað við ferðir í önnur kjördæmi en eigið á fundi sem hann boðar eða er boðaður á starfa sinna vegna.“
* „Þingmenn skulu sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál.“
Það er alveg kristaltært af þessum lögum og reglum að endurgreiðsla fyrir kosningabaráttufundi (og fleiri) er ólögleg, brot á reglum forsætisnefndar og brot á siðareglum þingmanna. Það þarf ekki að endurskoða neinar reglur hvað þetta atriði varðar nema ef annað af tvennu; (1) það eigi að leyfa slíkar endurgreiðslur eða (2) að það eigi einfaldlega að endurtaka það sérstaklega. Atriði 2 breytir því hins vegar ekki að endurgreiðslur fyrir kosningabaráttufundi eru ólöglegar nú þegar og eru búnar að vera það síðan amk. 1995 þegar lögin um þingfararkostnað voru samþykkt.
Í fjórða lagi þá spurði ég upplýsingaskrifstofu þingsins hvar ábyrgðin væri og fékk þetta svar:
Skv. 16. gr. þingfararkaupslaganna er gert ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis úrskurði um reikninga þá sem alþingismanni skulu endurgreiddir skv. lögunum. Enn fremur að þingmaður geti skotið ákvörðun skrifstofunnar til forsætisnefndar sem úrskurðar endanlega í málinu. Að auki er gert ráð fyrir því að forsætisnefnd skeri úr um vafa sem kann að vera um rétt alþingismanns samkvæmt lögunum. Í því felst túlkun laganna t.a.m. með setningu reglna og að svara álitaefnum um framkvæmd þeirra.
Samkvæmt þessu er skrifstofu Alþingis ætlað að bregðast við ef hún hefur vitneskju um að reikningur sé ekki réttur. Ef skrifstofan neitar að greiða reikninginn, getur þingmaðurinn skotið málinu til forsætisnefndar, sem sker úr.
Forsætisnefnd fjallar einnig um rökstudd erindi um brot á siðareglum alþingismanna, sbr. 16. grein reglnanna, t.a.m. hvort þingmaður hafi brotið 14. gr. þeirra. Þá er ekki heldur útilokað að meint brot þingmanns verði kært til lögreglu, sem myndi þá fjalla um málið að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. 1. mgr. 17. gr. siðareglnanna.
Á sama tíma svarar skrifstofustjóri þingsins spurningum Stundarinnar með eftirfarandi hætti:
Skrifstofa Alþingis hefur ekki talið það vera í verkahring sínum að leggja mat á það hvort þingmaður á erindi á fund sem hann er til dæmis boðaður á eða hvort rétt hafi verið að hann boðaði til fundar. Slíkt verður að vera í höndum þingmannsins sjálfs.
Mótsögnin er fullkomin og framhaldið er augljóst. Ég sendi erindi á Forsætisnefnd þar sem ég bið nefndina að rannsaka reikningana sem skrifstofan hefur greinilega vanrækt að skoða, ég bið nefndina um að rannsaka hvort siðareglur þingmanna hafi verið brotnar, ég bið nefndina um að skera úr um hvort lög hafi verið brotin, ég bið nefndina um að rannsaka hvort skrifstofa þingsins hefur sýnt af sér vanrækslu og að lokum bið ég nefndarmenn um að rökstyðja hvort þeir séu hæfir til þess að fjalla um þessi mál.
Nú keppast allir við að lýsa því yfir að allt eigi að vera uppi á einhverjum borðum. Það segir sig auðvitað sjálft. Spurningin sem við eigum hins vegar að spyrja okkur, hvað svo? Hvað á að gerast ef niðurstaðan er að lög og reglur hafi verið brotin og hversu margir þingmenn munu lenda í því? Er það í lagi ef einn og einn reikningur er ekki rétt endurgreiddur? Þingmaður lagði kannski einhverja reikninga fram í sakleysi um að bara það sem væri löglegt yrði endurgreitt, það verður örugglega notað sem afsökun - bæði réttilega og ekki. Skiptir þá fjöldinn máli? Upphæðin? Ég held að það skipti öllu máli að pæla í þessum spurningum áður en rannsókn lýkur til þess að svigrúmið til þess að gera lítið úr málinu verði minna. Þá verður svo hentugt að finna einhvern sem tekur fallið bara fyrir alla hina. Treystum við dómstólum til þess að flytja málið hlutlaust og óháð? Auðvitað skiptir það öllu máli að við getum treyst því að niðurstaðan sé sanngjörn en í kjölfar landsréttarmálsins, getum við það?
Þetta mál sýnir hversu mikilvægt traust á yfirvöldum er því skortur á trausti gerir það að verkum að það verður ekki hægt að fá það sem fólk myndi telja sem sanngjarna niðurstöðu. Eina lausnin við því eru að mínu mati afsagnir og enduruppbygging, annars sitjum við áfram uppi með sama ruglið. Það er ekki hægt að bíða eftir næstu kosningum til þess að öðlast einhvers konar pólitíska uppreist æru. Kosningar snúast sjaldnast um slík mál og umræðan er þvæld burtu í allar áttir þannig að fólk veit ekki hvað snýr upp þangað til kosningar eru allt í einu búnar og ekkert hefur breyst og enginn veit af hverju.
Að lokum langar mig til þess að minnast á tvö atriði sem ég hef fengið að heyra vegna þessa máls. Ég hef ekki fengið að sjá gögnin þannig að ég hef þetta bara af afspurn þeirra sem hafa unnið með akstursdagbækur, en upplýsingarnar eru þess eðlis að rannsókn er ekki bara eðlileg heldur nauðsynleg. Fyrra atriðið er að skráningar í akstursdagbók eru mjög oft bara „fundur“ eða „erindi“, engin nánari útskýring. Seinna atriðið varðar breytingu á ástæðu aksturs þar sem endurgreiðslu var hafnað vegna þess að erindið taldist ekki endurgreiðanlegt en þingmanni var einfaldlega ráðlagt að skrá aðra ástæðu í staðinn.
Þessu máli er hvergi nærri lokið og lýkur ekkert við birtingu gagnanna. Til viðbótar eru fleiri álíka mál tengd akstri ráðherra og bifreiða í eigu þingsins. Fyrirspurnir um þau atriði eru í yfirlestri og hluti þeirra ætti að birtast strax eftir helgi og fleiri svo í kjölfarið. Ég hlakka til jákvæðra viðbragða við þeim fyrirspurnum og jafn mikilli hvatningu frá öðrum þingmönnum, og akstursdagbókarmálið hefur fengið, til þess að upplýsa um allar upplýsingar sem tengjast nýju fyrirspurnunum.
Erindi til forsætisnefndar
Björn Leví sendi forsætisnefnd Alþingis eftirfarandi erindi um málið þann 21. febrúar síðastliðinn:
Til forsætisnefndar,
Með vísan í 16. gr. siðareglna alþingismanna og reglur forsætisnefndar um meðferð erinda og málsmeðferð samkvæmt siðareglum fyrir alþingismenn leggur undirritaður fram eftirfarandi erindi til forsætisnefndar:
Í þingskjali 270, í 33. máli á 148. löggjafarþingi kemur fram svar forseta Alþingis við fyrirspurn undirritaðs um aksturskostnað alþingismanna. Í svari forseta má finna upplýsingar sem sýna að endurgreiðsla til þingmanna hafi ekki verið í samræmi við reglur forsætisnefndar um þingfararkostnað. Telur undirritaður að þetta kunni að varða við 14. gr. siðareglna alþingismanna.
Undirritaður hefur fengið bréf frá lagaskrifstofu Alþingis, en í því kemur eftirfarandi fram:
Hér gilda lögin um þingfararkaup og þingfararkostnað, nr. 88/1995 og reglur forsætisnefndar frá 19. desember 2007 með síðari breytingum.
Um endurgreiðslu ferðakostnaðar þingmanna er fjallað í 7. gr. þingfararkaupslaganna. Greint er á milli ferðalaga innan kjördæmis og milli heimils og Reykjavíkur (1. mgr. 7. gr.). Fjallað er nánar um endurgreiðslu ferðakostnaðar í 4. – 5. gr. reglna forsætisnefndar og í 6. gr. þeirra um tilhögun á greiðslu ferðakostnaðar, en sú grein hefur einkum verið til umfjöllunar.
Skv. 16. gr. þingfararkaupslaganna er gert ráð fyrir því að skrifstofa Alþingis úrskurði um reikninga þá sem alþingismanni skulu endurgreiddir skv. lögunum. Enn fremur að þingmaður geti skotið ákvörðun skrifstofunnar til forsætisnefndar sem úrskurðar endanlega í málinu. Að auki er gert ráð fyrir því að forsætisnefnd skeri úr um vafa sem kann að vera um rétt alþingismanns samkvæmt lögunum. Í því felst túlkun laganna t.a.m. með setningu reglna og að svara álitaefnum um framkvæmd þeirra.
Samkvæmt þessu er skrifstofu Alþingis ætlað að bregðast við ef hún hefur vitneskju um að reikningur sé ekki réttur. Ef skrifstofan neitar að greiða reikninginn, getur þingmaðurinn skotið málinu til forsætisnefndar, sem sker úr.
Forsætisnefnd fjallar einnig um rökstudd erindi um brot á siðareglum alþingismanna, sbr. 16. grein reglnanna, t.a.m. hvort þingmaður hafi brotið 14. gr. þeirra. Þá er ekki heldur útilokað að meint brot þingmanns verði kært til lögreglu, sem myndi þá fjalla um málið að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. 1. mgr. 17. gr. siðareglnanna.
Af bréfi þessu má sjá að skrifstofu Alþingis ber að bregðast við ef hún hefur vitneskju um að reikningur sé ekki réttur. Þannig hafi skrifstofa Alþingis eftirlitsskyldu þegar kemur að endurgreiðslum til þingmanna, en vitneskja um að reikningur sé ekki réttur getur aðeins komið til af því tilefni að skrifstofa Alþingis hafi eftirlit með endurgreiðslunum.
Undirritaður vísar til svars skrifstofustjóra Alþingis við fyrirspurn Stundarinnar þann 19. febrúar 2018:
„Skrifstofa Alþingis hefur ekki talið það vera í verkahring sínum að leggja mat á það hvort þingmaður á erindi á fund sem hann er til dæmis boðaður á eða hvort rétt hafi verið að hann boðaði til fundar. Slíkt verður að vera í höndum þingmannsins sjálfs.“
Telur undirritaður að þessi túlkun skrifstofustjóra Alþingis sé í andstöðu við túlkun lagaskrifstofu Alþingis á lögum um þingfararkaup og þingfararkostnað.
Þá vísar undirritaður að lokum til blaðagreinar sem birtist í vefútgáfu Fréttablaðsins þann 17. febrúar 2018 sem bar titilinn „Röng skráning í akstursbók geti talist fjársvik“, en í greininni lýsti Jón Þór Ólason, sérfræðingur í refsirétti, því að röng skráning í akstursbók gæti talist fjársvik í skilningi almennra hegningarlaga.
Í 14. gr. siðareglna alþingismanna segir að þingmenn skuli sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar séu um slík mál. Ábyrgð þingmanna er því skýr og óskar undirritaður eftir því að fram fari rannsókn á því hvort samræmi sé á milli reikninga þingmanna og endurgreiðslna sem inntar hafa verið af hendi. Þess er óskað að tekin verði afstaða til þess hvort siðareglur, hátternisreglur eða lög hafi verið brotin þegar málsathugun lýkur samkvæmt 17. gr. siðareglna alþingismanna.
Með vísan til ofangreindra atriða er þess óskað að forsætisnefnd taki til umfjöllunar hvort siðareglur alþingismanna hafi verið brotnar, sbr. 16. gr. siðareglnanna. Einnig er þess óskað að nefndin taki til umfjöllunar hvort skrifstofa og skrifstofustjóri Alþingis hafi vanrækt skyldur sínar varðandi eftirlit með endurgreiðslum til þingmanna. Er í því samhengi vísað til 11. gr. laga um þingsköp, þar sem segir að skrifstofustjóri skuli starfa í umboði forseta Alþingis.
Þess er sérstaklega óskað að forsætisnefnd taki rökstudda afstöðu til hæfis nefndarmanna til aðkomu að athugun þeirri sem óskað er í þessu erindi. Meðal annars hvað varðar persónulega hagsmuni og hvort uppi kunni að vera hagsmunaárekstrar sem leiða til vanhæfis. Vísar undirritaður í því samhengi til 8. og 9. gr. siðareglna alþingismanna.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata
Athugasemdir