Í hvert sinn sem Útlendingastofnun er gagnrýnd fyrir harðneskju í garð hælisleitenda, þá rísa upp raddir henni til stuðnings og segja sem svo: Jú, stundum kann það að virðast nokkuð harkalegt að senda fólk úr landi sem hefur vonað og þráð að fá að setjast að hér á landi, en í því sambandi verður að hafa í huga að stofnunin þarf jú að fara að lögum og þau kveða yfirleitt skýrt á um það hvaða hælisleitendur eiga rétt á að setjast hér að og hverjir ekki.
Ef þið viljið breyta hlutunum, segja þessar raddir, þá skuluð þið breyta lögunum – og jafnvel sumum þeim alþjóðasáttmálum sem þau eru iðulega byggð á – en hætta að skammast í Útlendingastofnun sem gerir ekki annað en framfylgja laganna bókstaf.
Nú má vera að þessar raddir hafi stundum rétt fyrir sér og Útlendingastofnun geti fátt aðhafst annað en að senda fólk úr landi samkvæmt lögum.
En mál Houssins Bsraoui er ekki þess eðlis.
Alls ekki. Um það er ekki hægt að hafa nein önnur orð en þau að þær manneskjur sem réðu því að þessi ungi piltur var sendur á laun úr landi, þær eru vondar manneskjur.
„Það lýsir einfaldlega ljótu og grimmu og skeytingarlausu hugarfari.“
Að láta sér einu sinni detta í hug að senda úr landi pilt sem hefur verið settur í fangelsi, sem hefur orðið fyrir stórfelldri og alvarlegri líkamsárás í fangelsinu, pilt sem bíður eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála um endurupptöku á þeirri ákvörðun að honum skuli vísað brott, að láta sér einu sinni detta það í hug og framkvæma það síðan – algjörlega án þess að nokkur lög krefjist – það lýsir einfaldlega ljótu og grimmu og skeytingarlausu hugarfari.
Og hafðu það, Kristín Völundardóttir.
Ein af ástæðunum fyrir því að ég hlakkaði til stjórnarskipta í haust var sú að ég ímyndaði mér að þá gæfist tækifæri til að snúa við blaðinu hjá Útlendingastofnun. Reka Kristínu Völundardóttur og hreinsa til í þessu apparati.
Því ég taldi ekki annað koma til mála en aðrir stjórnmálaflokkar myndu koma sér saman um ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokksins – sem ver Kristínu Völundardóttur fram í rauðan dauðann – og þannig væri hægt að hreinsa dómsmálaráðuneytið af Sjálfstæðismönnum.
Sem sannarlega er ekki vanþörf á eins og „afrek“ Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra undanfarin misseri eru gleggst dæmi um.
Sigríður Andersen hefur ekki sýnt nein merki þess að vilja bæta starfsháttu Útlendingastofnunar en ég stóð sem sé í þeirri sælutrú að eftir kosningar myndu sæmilegir flokkar sameinast um sæmilega ríkisstjórn og hreinsa burt þann ósóma sem Útlendingastofnun undir stjórn Kristínar Völundardóttur er.
En nei.
Af einhverjum ástæðum, sem ég mun aldrei skilja, ákváðu Vinstri grænir að veita Sjálfstæðisflokknum syndaaflausn með því að ganga í ríkisstjórn með honum, og vantaði þó ekki syndirnar.
Sumir úr VG sögðu sem svo, þegar þeir reyndu að afsaka þennan hraksmánarlega verknað, að nú myndi VG, með Katrínu Jakobsdóttur í broddi fylkingar, kenna Sjálfstæðisflokknum nýja siðu. Í ljós myndi koma nýr og betri Sjálfstæðisflokkur.
Hefur það gerst?
Ónei. Hroki Sigríðar Andersen er meiri en nokkru sinni. Fjandskapur Kristínar Völundardóttur í garð okkar minnstu bræðra er meiri en nokkru sinni.
Það eina sem hefur gerst er að VG er hætt í pólitík og farin að stunda ríkisstjórnarfundi.
Houssin Brsain þarf að þola afleiðingarnar.
Athugasemdir