Ég held ég sé búin að lifa einungis á tónlistartengdum verkefnum í tvö til þrjú ár og eru þau jafn fjölbreytt og þau eru mörg. Allt frá því að spila með eigin hljómsveitum, í öðrum verkefnum sem sessionleikari, í gjörningi hjá Ragnari Kjartanssyni myndlistarmanni og að sjá um námskeið hjá Stelpur rokka!, sem er með því mest gefandi sem ég hef gert á ævinni.
Ég lærði á hin ýmsu hljóðfæri frá 6-14 ára aldurs, og var í tónlistarskóla FÍH samhliða háskólanámi í forngrísku og latínu. Ég kenndi forngrísku í MR í eitt ár eftir útskrift og starfaði aðeins við þýðingar en svo kallaði tónlistin meira á mig.
Að starfa sem tónlistarmaður þýðir bara að spila rosalega mikið og forgangsraða því sem maður tekur að sér. Um þessar mundir spila ég í mörgum fjölbreyttum verkefnum og má þar má meðal annarra nefna Babies-flokkinn, Stuðmenn, Special- K, Soffíu Björgu, Jae Tyler og Teit Magnússon, og svo gaf ég nýlega út 7” plötu á vegum SMIT Records. Þetta getur allt verið erfitt, eins og önnur vinna, en þegar öllu er á botninn hvolft þá er þetta það skemmtilegasta sem ég geri.
Athugasemdir