71 prósent Íslendinga eru með kort í Costco, samkvæmt nýrri könnun MMR.
Um 80 prósent Íslendinga á aldrinum 30 til 49 ára eru skráðir meðlimir hjá Costco, en kortið kostar 4.800 krónur á ári.
Um 190 þúsund fjölskyldur og einstæðir einstaklingar eru á Íslandi og má því gera ráð fyrir að tekjur Costco af íslenskum meðlimum einum og sér sé um 650 milljónir króna á ári, út frá því að 135 þúsund fjölskyldur eða einstaklingar hafi aðildarkort.
Tekjuháir eru mun líklegri en aðrir til þess að eiga kort í Costco. Þannig eiga aðeins 49 prósent þeirra sem hafa tekjur undir 250 þúsund slíkt kort, en 83 prósent þeirra sem hafa 800 þúsund krónur til eina milljón í mánaðartekjur.
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar hyggjast 60 prósent Íslendinga endurnýja aðild sína að bandarísku stórversluninni.
Líklegra er að íbúar á höfuðborgarsvæðinu séu með Costco-kort. Aðeins 23 prósent þeirra eiga ekki kort í Costco. Þrátt fyrir fjarlægðina frá versluninni eru 60 prósent íbúa á landsbyggðinni með kort í Costo.
Út frá stjórnmálaskoðunum er sá hópur sem helst á kort í Costco eru stuðningsmenn Miðflokksins, en 81 prósent þeirra eru meðlimir.
Stuðningsfólk Vinstri grænna og Framsóknarflokksins er ólíklegast til þess að vera með kort í Costco.
Athugasemdir