Vilhjálmur Árnason, sá þingmaður sem fékk næstmestan aksturskostnað endurgreiddan frá Alþingi í fyrra, hæðist að umræðu um ferðakostnað þingmanna á Facebook. Hann birtir glettilega mynd af Ásmundi Friðrikssyni, flokksfélaga sínum, fyrir framan flugvél og skrifar: „Ási fer líka með flugi“.
Eins og frægt er orðið fékk Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, 4,6 milljóna króna aksturskostnað endurgreiddan frá Alþingi í fyrra eftir að hafa ekið tæplega 48 þúsund kílómetra. Sjálfur ók Vilhjálmur 35 þúsund kílómetra á eigin bíl og fékk 3,4 milljónir endurgreiddar.
Samkvæmt reglum um þingfararkostnað eiga þingmenn sem aka meira en 15 þúsund kílómetra á ári í starfi sínu að notast við bílaleigubíl. Í siðareglum Alþingismanna er jafnframt að finna afdráttarlausa reglu um að þingmönnum beri að „sjá til þess að endurgreiðsla fyrir útgjöld þeirra sé í fullkomnu samræmi við reglur sem settar eru um slík mál.“ Hvorki Ásmundur né Vilhjálmur fylgdu þessum reglum í fyrra, en fyrir vikið fengu þeir hærri endurgreiðslur úr ríkissjóði en reglurnar gera ráð fyrir.
„Það er ekki verið að gera lítið úr einu né neinu. Ef þið hafið kynnt ykkur málin þá er ódýrast þegar þingmenn geta notað flugið í stað þess að aka. En maður þarf samt ekki að hafa fíluskeifu alla daga þó maður ræði alvarlega mál á hverjum degi,“ skrifar Vilhjálmur undir færslu sinni og bregst þannig við gagnrýni sem fram kemur í athugasemdum. Á meðal þeirra sem læka myndina eru Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Páll Magnússon, þingmaður sama flokks, hefur gert lítið úr umræðunni um ferðakostnað Ásmundar Friðrikssonar „Get ekki orða bundist. Góða fólkið er bókstaflega að ærast af vandlætingu yfir því hvað Ásmundur Friðriksson er duglegur að sinna sínu gríðarstóra kjördæmi,“ skrifaði hann nýlega á Facebook. „Nú hef ég ekki komist í að athuga hvar ég er sjálfur á þessum lista en óttast að ég sé ekki nógu ofarlega; að ég hafi ekki verið nógu duglegur við að fara um kjördæmið mitt. Ég ætla að bæta úr því.“
Brynjar Níelsson hefur tjáð sig á sömu nótum og gantast með að fjölmiðlar ættu frekar að hafa áhyggjur af mismunun hvað varðar endurgreiðslu til þingmanna. „Við sem mælum okkur mót við kjósendur á öldurhúsunum fáum hvorki leigubílakostnað né drykki endurgreiddan. Það er óþolandi mismunun,“ skrifaði hann á Facebook í byrjun vikunnar.
Athugasemdir