Ásmundur Friðriksson, akstursíþróttamaður og þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi líkti íbúum Reykavíkur við rottur í viðtali í sjónvarpinu. Ræddi um, hvort fólk vildi landsbyggðarfólk á þing eða 101 rottur og átti þar við Reykvíkinga.
Á rottuveiðum
Nú vill svo til, að flokksbræður þessa sama Ásmundar eru að leita eftir fylgi Reykvíkinga við framboðslista flokksins í Reykjavíkurborg. Þeir eru sem sé á rottuveiðum ef marka má umsögn þingmannsins. Eyþór Arnalds, Áslaug Friðriksdóttir og félagar. Safna eins og mest má verða rottum í gildrur sínar. Og hvað um sjálfan Brynjar Níelsson, sem staðið hefur í fylkingabrjósti þeirra Sjálfstæðismanna, sem varið hafa akstursíþróttamanninn og sjónarmið hans. Hvernig kann hann við það að heyra af munni þessa vinar síns fylgismenn sína í Reykjavík verið kallaðar rottur. Og sjálfan sig líka. Reykjavíkurrottu! Spurt var hvort landsmenn vildu fleiri slíkar rottur á þing!?!
Flykkjast rottur til rottuveiðara?
Þessi hegðun segir mér margt um þann, sem svona lætur út úr sér. En hún segir mér líka sitthvað um þá, sem láta það viðgangast og jafnvel mæla því bót. Hvernig skyldi Reykjavíkurrottunum, sem frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins eru nú á höttunum eftir, líka sú nafngift sem þeim hefur verið valin? Skyldi rotturnar eiga eftir að flykkjast til fylgis við rottuveiðimennina? Eða skyldu frambjóðendur flokksins sjá sóma sinn í að biðja Reykvíkinga afsökunar á ummælunum – jafnvel „Reykjavíkurrottan“ Brynjar Níelsson líka? Sunnlendingar hafa valið sér marga sérstaka einstaklinga til þingstarfa. Þessi akstursíþróttamaður slær þar öll met.
Athugasemdir