Rekstur á bíl Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, hefði átt að kosta rúmlega helmingi minna en þær 4,6 milljónir króna sem hann fékk endurgreiddar vegna aksturskostnaðar frá Alþingi. Félag íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB) áætlar að það kosti rúmar 2 milljónir króna á ári að reka Kia Sportage jeppling Ásmundar, miðað við notkun hans á bílnum í fyrra, samkvæmt útreikningum sem Morgunútvarp Rásar 2 óskaði eftir.
Ásmundur keypti bílinn notaðan í desember 2016, en nýr kostaði slíkur bíll 6,7 milljónir króna í maí 2016. Árið 2017 ók Ásmundur tæpa 48 þúsund kílómetra og því reiknar FÍB með því að bíllinn falli meira í verði en meðalbíll, eða um 18% milli ára. Ásett verð bílsins nú gæti því verið í kringum 3,8 milljónir króna.
FÍB reiknar einnig fjármagnskostnað inn í dæmið, eða þá töpuðu innlánsvexti sem hefðu fengist fyrir peningana sem bíllinn kostaði. Alls nemur kostnaðurinn 2.071.376 krónum, eða meira en helmingi minna en Alþingi greiddi Ásmuni í akstursbætur. FÍB reiknaði einnig rekstrarkostnað bílsins ef hann hefði verið keyptur nýr og hækkar þá upphæðin í 2,44 milljónir króna.
Útreikningar FÍB líta svona út:
653.676 kr – Dísilolía
270.000 kr – Viðhald og viðgerðir
90.000 kr – Hjólbarðar
160.000 kr – Tryggingar
26.000 kr – Skattar og skoðun
13.000 kr – Bílastæðakostnaður
36.000 kr – Þrif og fleira
684.000 kr – Verðrýrnun
138.700 kr – Fjármagnskostnaður
Samtals: 2.071.376 krónur
Greiðslur umfram áætlaðan kostnað: Um 2,5 milljónir króna.
Athugasemdir