Á hverju ári síðan 2011 hefur Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gefið út upplýsingar um lífsgæði. Þessar upplýsingar, sem byggja á rannsóknum á líðan og stöðu fólks í aðildarlöndum stofnunarinnar, gefa meðal annars til kynna menntunarstig, hversu öruggt fólk telur sig vera, hversu miklar tekjur fólk hefur og fleira til.
Eitt af því sem sérstaklega er horft til er samræming vinnu og heimilislífs; samtals eru það 38 lönd sem lífsgæðamælingarnar ná til, en þar má nefna lönd eins og Holland, Danmörku, Frakkland, Spán og Belgíu. Ísland var í 31. sæti af 38 þegar kom að samræmingu vinnu og heimilislífs; neðar en öll hin Norðurlöndin, neðar en Bretland, Bandaríkin og Suður-Afríka. Ástæðan fyrir því að Ísland kom illa út hér er sú að á Íslandi þarf fólk að jafnaði að vinna langan vinnudag.
Að sama skapi var Ísland líka meðal þeirra sem skröpuðu botninn þegar kom að þeim tíma sem fólk hafði til að sinna áhugamálum og að hugsa um sjálft sig – aðeins Ísrael, Lettland, Mexíkó og Tyrkland komu verr út, á meðan Frakkland, Spánn, Holland, Danmörk, Belgía og Noregur voru á meðal þeirra sem komu best út.
Og aftur er langur vinnudagur mikilvægur þáttur, vegna þess að fólk hefur bara svo og svo margar stundir í hverjum sólarhring (um 16 vökustundir, að meðaltali), en ef stórum hluta hans þarf að kosta til vinnu auk annarra skyldustarfa sem og ferðalaga til og frá vinnu, þá verður heldur takmarkaður tími afgangs fyrir áhugamál og sjálfsrækt.
Vert er að taka fram að samræming vinnu og heimilislífs hefur verið skoðuð áður; þá kom Ísland líka heldur illa út, en sú rannsókn fór fram árið 2005.
Ísland og framleiðni
Ísland er mjög augljós eftirbátur þeirra nágrannaríkja sem við helst kjósum að bera okkur saman við, hinar Norðurlandaþjóðirnar, hvað varðar lífsgæðamælingarnar, sökum langs vinnudags. Á myndinni hér að neðan má sjá hvernig vinnutími á hvern vinnandi mann hefur þróast á Íslandi, hinum Norðurlöndunum og í ýmsum Evrópuríkjum. Á Íslandi er klárlega unnið meira.
En jafnvel þótt Íslendingar eyði miklum tíma í vinnunni, er ekki þar með sagt að framleiðnin – það hversu mikil verðmæti eru búin til á hverri unninni vinnustund – sé meiri á Íslandi en í nágrannaríkjunum, því framleiðnin er meiri í flestum löndum V-Evrópu. Á myndinni fyrir neðan má sjá hvernig framleiðni er ólík í þessum löndum öllum; framleiðnin er t.d. um fjórðungi meiri í Svíþjóð og Danmörku. Framleiðni er mjög mikilvægt hugtak í þessu samhengi, vegna þess að hún gefur til kynna hversu langan tíma það tekur fyrir hagkerfið í heild, að búa til þau verðmæti sem fólk þarf, til að geta lifað. Meiri framleiðni er nátengd meiri lífsgæðum. Myndin sýnir einnig glögglega hvernig framleiðni er meiri í löndum þar sem vinnustundir eru færri.
Myndina má gróflega túlka á tvenns konar vegu: Þau lönd sem búa við meiri framleiðni, þau hafa efni á því að vinna minna, vegna þess að í þessum löndum má klára verkefnin í vinnunni á skemmri tíma, án þess að skerða tekjurnar. Þetta er raunar sú túlkun sem margir hagfræðingar myndu grípa til. Hins vegar má túlka myndina á allt annan veg, sem myndi líta svona út: Með færri vinnustundum fylgir að fólk hefur meiri tíma til að sinna sjálfu sér, fjölskyldu sinni, sem og að hvílast, en þetta skilar sér í síður þreyttu fólki, fólki sem veit að það mun bara hafa svo og svo margar stundir til að ljúka vinudeginum og nýtir þess vegna vinnudaginn betur en það hefði gert, hefði það vitað að vinnudagurinn yrði lengri.
Fyrri túlkunin og sú seinni hafa áhrif á það hvernig er skynsamlegast að hugsa um styttingu vinnudagsins, sérstaklega í löndum eins og Íslandi, þar sem mikið er unnið. Sú fyrri, sú sem margir myndu líta á sem sjálfsagða, þýðir í tilfelli Íslands að ekki væri hægt að stytta vinnudaginn, nema að tekjur landsmanna féllu samhliða – þetta er vegna þess að í þeirra bókum eru tekjur skilgreindar nokkurn veginn svona:
tekjur = framleiðni á hverri vinnustund x fjöldi vinnustunda
Þarna er litið svo á að framleiðni sé hægbreytileg tala, yfir langan tíma, en fasti (óbreytanleg) hverju sinni. Raunin er þó sú að rannsóknir geta sýnt fram á að hægt sé að stytta vinnudaginn, undir vissum kringumstæðum, án þess að færri verkefni séu leyst af hólmi eða að vinnan sjálf skerðist – til þess þarf þó aukna framleiðni.
Tvær rannsóknir á vinnutíma
Skoðum í þessu sambandi rannsóknir á mjög svo ólíkri starfsemi, í tveimur löndum, á tveimur mjög ólíkum tímaskeiðum.
Sú fyrri var gerð í fyrri heimsstyrjöldinni á meðal starfsfólks sem framleiddi hergögn í Bretlandi. Þannig var raunin að Bretland þurfti á mjög miklum mannafla að halda í vopnaskakinu sem heltók heiminn á þessum tíma, en til að mæta því var vinnutími lengdur í verksmiðjum sem höfðu beint með framleiðslu hergagna að gera, hömlur á yfirvinnu felldar úr gildi, og þar fram eftir götunum. Á einhverjum tímapunkti fóru efasemdir að hreiðra um sig í hugum fólks um að öll þessi vinna væri gagnleg, og spurningar vöknuðu um hvort hún jafnvel væri skaðleg, þannig að rannsókn var gerð á því hvort svo væri. Í stuttu máli þá kom í ljós að ef fólk vann meira en um 49 stundir, þá skipti hver auka vinnustund engu máli, þessar aukavinnustundir urðu ekki til þess að meira yrði framleitt í heildina – að vinna 56 stundir á viku skilaði jafn miklu og ef viðkomandi hefði unnið 70 stundir. Einnig kom í ljós að ef fólk fékk ekki frí á sunnudögum, heldur vann alla daga vikunnar, hrundu afköst um 10%.
Vert er að taka fram að á tímabilinu sem rannsóknin náði til, þá fjölgaði ekki starfsfólki né fækkaði, og var vinnuaðferðum ekki breytt, nema þá í undantekningartilfellum.
Það skal tekið skýrt fram að höfundur er andvígur hvers kyns stríðsbrölti, og að þessi rannsókn er eingöngu nefnd hér sem dæmi um hvað er hægt er að gera til að huga betur að framleiðni.
Þessi rannsókn, sem var gerð fyrir næstum öld, er kannski ekki alveg heimfæranleg á nútímasamfélag, einkum fyrir tvennar sakir: Vinnan sem þarna fór fram var á tímum þar sem mikið lá við, svo mikið að fólk var jafnvel tilbúið til að hljóta skaða af vinnunni, en svo er líka um að ræða framleiðslu á veraldlegum hlutum, nokkuð sem við á Íslandi gerum nokkuð af, þó án þess að flestir vinni við það.
Á Íslandi vinna nefnilega um 77% vinnandi fólks við þjónustustarfsemi af ýmsu tagi, en slík vinna hefur í för með sér annars konar viðmið um vinnulag, vinnuálag og slíkt. Ef við viljum fá raunsannari mynd af því hvernig megi stytta vinnudaginn í nútímaríkinu Íslandi, þá þarf að horfa til rannsókna sem eru gerðar í þjónustustofnunum og þjónustufyrirtækjum.
Seinni rannsóknin er einmitt af þessu taginu, en hún var gerð á Íslandi frá 2015–2016, hjá Reykjavíkurborg. Um var að ræða þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts annars vegar og hins vegar Barnavernd Reykjavíkur, en svo var önnur þjónustumiðstöð höfð til viðmiðunar, þar sem engu var breytt. Í stuttu máli var vinnudagurinn styttur um klukkustund hjá þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts, en hjá Barnaverndinni var vinnu hætt um hádegi á föstudögum; þetta var gert án þess að verkefnastaða biði hnekki, án þess að kostnaður ryki upp, án þess að starfsfólkinu liði verr og án þess að notendur þjónustunnar yrðu ósáttir. Laun starfsfólksins héldust óskert, þrátt fyrir að vinnustundum fækkaði. Varðandi verkefnastöðuna varð í sumum tilfellum lítils háttar aukning á fyrirliggjandi verkefnum, sem rakið var til námskeiðahalds og þess að reynt var að vinna ítarlegar úr málum, en engin stórkostleg breyting varð á þeim verkefnum sem almennt þurfti að sinna. Kostnaðaraukning hjá Barnaverndinni á tímabilinu var um 72 þúsund krónur á mánuði að meðaltali, vegna aukinna bakvakta, en kostnaðaraukning varð ekki hjá þjónustumiðstöðinni. Hjá þjónustumiðstöðinni, þar sem engu var breytt, urðu þessar breytingar ekki, sem bendir til þess að skemmri vinnudagur hafi framkallað þær.
Lykillinn að þessum breytingum var að endurbæta verkskipulag, fækka fundum og stytta, en auk þess að fólk sinnti einkaerindum utan vinnutíma; með þessu móti tókst að stytta vinnudaginn, án þess að starfsemin biði skaða af og án mikils kostnaðarauka. Það sem gerðist einnig í kjölfarið af þessu var að líðan starfsfólksins batnaði: minna var um að fólk kvartaði undan ýmsum einkennum andlegs álags, svo sem um að vinnan truflaði frítímann í formi áhyggja eða þreytu, og var sem líðanin batnaði eftir því sem leið á tímabilið. Svipaða sögu má segja um líkamleg einkenni, þar sem var horft til verkja í öxlum, baki og höfði auk ýmissa annarra þátta.
Í stuttu máli má segja að þessar breytingar hjá þessum tveimur stofnunum hafi gengið mjög vel fyrir sig og að þær hafi nýst starfsfólkinu vel. Það sem verður líka að teljast mjög mikilvægt er að það tókst að auka framleiðnina á þessum vinnustöðum, án mikilla breytinga, en öllum til hagsbóta – aukin framleiðni sést best á því að það tókst að sinna sömu verkefnunum á skemmri tíma.
Lexía fyrir Ísland
Sé litið til þessara tveggja rannsókna í sameiningu má vel hugsa sér að við sem búum hér á Íslandi getum lært af þeim til að bæta samfélagið okkar. Við búum við lélega framleiðni, sem er líklega því um að kenna að við erum ekki nógu skipulögð, annars vegar, en svo má líka hugsa sér að við getum gert mun betur hvað varðar samgöngur, flutninga, fjarvinnu og annað slíkt – meira um það í öðrum pistli.
En jafnvel þótt skerðing vinnnustunda hafi borið góðan árangur á þessum vinnustöðum, þá ber að hafa í huga að framleiðnin eykst ekki alltaf í takti við skerðinguna. Það þýðir að það er ekki hægt að skerða vinnudaginn endalaust og vonast eftir því að vinnudagarnir skili því sama – það eru takmörk fyrir því hvað má ganga langt í skerðingunni.
Raunin er þó sú að við, sem samfélag, höfum áður tekist á við það að í senn auka framleiðni og stytta vinnudaginn, en um það er lítið rætt alla jafna. Á myndinni að neðan má sjá hvernig framleiðni á Íslandi jókst frá um 1950 til 1980, ásamt því að vinnudagurinn styttist, en svo hvernig vinnudagurinn hætti að styttast eftir það.
Í samfélagi nútímans, þar sem fjölmargt gerist orðið rafrænt, í samfélagi sem er mun opnara, hlýtur að vera möguleiki til að breyta vinnuháttum, breyta aðferðum, hugsa öðruvísi, í þeim tilgangi einmitt að vinna minna og njóta frekari samvista með vinum, fjölskyldu og vandamönnum.
Við þurfum bara að taka okkur saman um þetta markmið.
Höfundur er stjórnarmaður í Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði.
Athugasemdir