Sigríður Andersen dómsmálaráðherra þrætti fyrir það á Alþingi í dag að dómarar við Landsrétt hefðu verið skipaðir með ólöglegum eða ólögmætum hætti.
Sem kunnugt er hafa Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands komist að þeirri niðurstöðu að ráðherra hafi brotið lög, 10. gr. stjórnsýslulaga, við skipun Landsréttardómara. Í þessu fólst að ráðherra sýndi ekki fram á – með fullnægjandi rannsókn og rökstuðningi í samræmi við þær kröfur sem á henni hvíla samkvæmt stjórnsýslulögum – að hún hefði skipað hæfustu umsækjendurna sem dómara við hið nýja millidómsstig.
„Ekki er um það að ræða að dómarar við Landsrétt séu ekki skipaðir með lögmætum hætti,“ sagði Sigríður Andersen í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun þegar Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, gerði að umtalsefni þann möguleika að ólögmæt skipun dómara leiddi til þess að dómar yrðu ómerktir, samanber nýlegar fregnir af dómaframkvæmd Evrópudómstólsins og EFTA-dómstólsins.
Sigríður viðurkenndi í svari sínu að samkvæmt dómum Hæstaréttar í Landsréttarmálinu hefði hún ekki uppfyllt rannsóknarskyldu stjórnsýslulaga. Svo bætti hún við: „Á það hefur verið bent og ég árétta það enn og aftur að um er að ræða matskennda reglu stjórnsýsluréttarins.“
Af þessu dró hún svo eftirfarandi ályktanir: „Ekki er um það að ræða að dómarar við landsrétt séu ekki skipaðir með lögmætum hætti. Hér var fylgt lögformlegu ferli. Þeir eru skipaðir í samræmi við lög sem eru ákaflega skýr sem kveða á um að ráðherra leggi tillögu fyrir Alþingi.“
Í lok ræðunnar ítrekaði hún að lögum hefði verið fylgt við skipun dómara: „Það er því ekki um það að ræða að mínu mati að dómarar hafi ekki verið skipaðir með löglegum hætti.“
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra hefur áður sagst ósammála Hæstarétti, hafnað sjónarmiðum sem fram koma í dómum Hæstaréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur og dregið upp villandi mynd af því sem fram kemur í dómum Hæstaréttar um verklag sitt við skipun dómara. Hins vegar hefur hún ekki fyrr en nú gengið svo langt að hafna því alfarið, þrátt fyrir skýra niðurstöðu dómstóla, að lögum hafi ekki verið fylgt við skipun dómara við Landsrétt.
Athugasemdir