Sigríður Andersen dómsmálaráðherra telur mikilvægt að ekki sitji dómarar í dómnefnd um mat á hæfni umsækjenda um dómarastöður.
Þetta kom fram í viðtali Kveiks við Sigríði sem birtist í heild á RÚV.is í morgun.
„Dómararnir þurfa líka að vera sjálfstæðir í sínum störfum gagnvart öðrum dómurum og þá er mjög mikilvægt að það sitji ekki í hæfnisnefnd sem er að velja dómara aðrir dómarar til dæmis. Er það ekki Helgi?“ sagði Sigríður.
„Eins og ég segi, það er enginn að fara að segja dómurum hvernig þeir eiga að dæma utan réttarins en dómarar geta verið í þakkarskuld við einhverja aðra dómara,“ sagði hún. Spyrillinn, Helgi Seljan, skaut þá inn spurningunni: „Eða ráðherra?“ og Sigríður svaraði: „Já, jú jú, það getur verið þannig líka.“
Sú skoðun Sigríðar að óeðlilegt sé að dómarar komi að mati á hæfni umsækjenda um dómarastöður gengur í berhögg við viðhorf sem alþjóðleg samstaða er um í samvinnu lýðræðisríkja á vettvangi Evrópuráðsins sem Ísland á aðild að.
Í tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 17. nóvember 2010 um sjálfstæði, skilvirkni og skyldur dómara er sérstaklega mælst til þess að sjálfstætt stjórnvald – óháð ríkisstjórn og löggjafarþingi – skuli gera tillögur til þess veitingarvalds sem formlega skipar dómara. Hvatt er til þess að viðkomandi stjórnvald sé að verulegu leyti skipað dómurum sem séu valdir af öðrum dómurum.
Eins og kom í ljós í viðtali Kveiks við Sigríði Andersen er hún – ráðherra dómsmála í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur – allt annarrar skoðunar og telur brýnt að ekki sitji dómarar í þeirri dómnefnd sem gerir tillögu til ráðherra um dómaraefni.
Athugasemdir