Ragnhildur Arnljótsdóttir, settur ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins við skipun Landsréttardómara, ráðlagði Sigríði Andersen eindregið að undirbúa betur tillögu sína til Alþingis um skipun dómara til að tryggja að rannsóknin á hæfni dómaraefna stæðist reglur stjórnsýsluréttar. Þetta kemur fram í tölvupósti ráðuneytisstjórans til dómsmálaráðherra sem fréttaskýringaþátturinn Kveikur greindi frá í kvöld.
Áður hafði Stundin birt sams konar ráðleggingar og athugasemdir starfsmanna fjármálaráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins sem fylgdu gögnum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fékk afhent frá dómsmálaráðuneytinu þann 18. janúar.
Í pósti Ragnhildar, sem er dagsettur 28. maí – daginn áður en Sigríður Andersen leggur tillögu sína um skipun Landsréttardómara fyrir Alþingi – fer hún yfir möguleikana í stöðunni.
Sá fyrsti sé að ráðherrann greini þinginu frá óánægju sinni með forsendurnar í mati dómnefndar um hæfni umsækjenda um dómarastöður, leggi fram frumvarp sem fresti málinu til 1. október og vísi því aftur til dómnefndarinnar með óskum um að dómarareynsla fái aukið vægi í mati hennar. Annar möguleiki sé að ráðherra senda þinginu tillögur að breyttri uppröðun þar sem dómarareynsla fái aukið vægi. Til þess þurfi vandaðan rökstuðning og er lögð sérstök áhersla á að leggja þurfi sams konar mat á alla umsækjendur. Í ljósi þess að það hafði ekki verið gert býðst ráðuneytisstjórinn til að setja af stað vinnu í ráðuneytinu strax um kvöldið.
Sigíður Andersen dómsmálaráðherra ákvað að gera ekki ítarlega rannsókn á hæfni umsækjenda í samræmi við ráðgjöfina sem hún fékk frá ráðuneytisstjóranum og fleiri sérfræðingum í ráðuneytunum dagana á undan.
Eins og Hæstiréttur staðfesti þann 19. desember síðastliðinn braut ráðherra þannig lög og bakaði ríkinu miskabótaskyldu gagnvart umsækjendum sem gengið var framhjá. Aðfinnslur Hæstaréttar voru í fullkomnu samræmi við lögfræðiráðgjöfina sem Sigríður hunsaði.
Athugasemdir