Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tekur ekki afstöðu til þess hvort Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafi brotið siðareglur með því að sitja á skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum fram yfir þingkosningar árið 2016. Þetta kemur fram í svari ráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata.
Í svarinu er rakið að það sé á ábyrgð hvers ráðherra að gæta þess fyrir sitt leyti að farið sé eftir reglunum. Í vafatilvikum geti þó ráðherra leitað ráðgjafar hjá forsætisráðuneytinu.
Spurt er hvort farið hafi fram mat á því hvort efni skýrslu um eignir Íslendinga á aflandssvæðum varði almannahag og hver niðurstaða þess mats hafi þá verið.
„Sú skýrsla sem spurt er um var unnin á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Fyrirspurnum er varða efni hennar, eða mat á efni hennar, ber að beina til fjármála- og efnahagsráðherra, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis,“ segir í svari forsætisráðherra.
Þá er því ekki svarað hvort forsætisráðherra telji að siðareglur hafi verið brotnar með töfum á birtingu umræddrar skýrslu: „Samkvæmt siðareglum ráðherra nr. 1250/2017 hefur forsætisráðuneytið ráðgefandi hlutverk gagnvart ráðherrum um túlkun þeirra. Það er hins vegar ekki hlutverk forsætisráðuneytisins að kveða upp úrskurði um það hvort siðareglur hafa verið brotnar í einstökum tilvikum.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sætti harðri gagnrýni þegar í ljós kom að hann hafði ákveðið að birta hvorki almenningi né Alþingi skýrslu um aflandseignir Íslendinga, sem unnin var og skilað ráðuneyti hans þann 13. september 2016, fyrr en eftir þingkosningarnar sem fram fóru í október sama ár.
Í skýrslunni er fjallað með gagnrýnum hætti um þá stefnu sem rekin var á sviði skattalöggjafar og skattaeftirlits á útrásarárunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn fór með fjármálaráðuneytið.
T.d. er rakið hvernig ráðleggingar sérfræðinga um að innleiða svokallaða CFC-löggjöf í takt við þróunina í nágrannalöndunum voru hunsaðar á tímum gríðarlegrar „aflandsvæðingar“ á Íslandi. Fram kemur að íslensk skattalög „gefið meira svigrúm til flutnings eigna úr lögsögunni með löglegum hætti en víða annars staðar“ auk þess sem eftirfylgni og gagnaskráning hafi ekki haldið í við hraðan vöxt fjármagnsflutninga. Fyrir vikið hafi gríðarlegum fjármunum verið skotið undan skatti og samfélagið orðið af tugum milljarða.
Eftir að í ljós kom í byrjun janúar 2017 að skýrslan var löngu tilbúin en hafði ekki verið birt fullyrti Bjarni Benediktsson í fréttaviðtali að skýrslunni hefði ekki verið skilað í ráðuneyti hans fyrr en eftir þingslit í október. Fljótlega kom í ljós að þetta var rangt. Viðurkenndi Bjarni að hafa sjálfur ákveðið að birta ekki skýrsluna, enda ekki viljað að efni hennar yrði sett „í kosningasamhengi“. Sem kunnugt er hafði einmitt verið boðað til þingkosninganna árið 2016 vegna harðra viðbragða almennings við uppljóstrunum um tengsl æðstu valdhafa við aflandsfélög.
Athugasemdir