Íslendingar þurfa að ákveða hvort þeir vilji hverfa aftur til fyrirkomulags þar sem skipunarvald við dómstóla ræðst af einberum flokkshagsmunum eða styðjast við málefnaleg sjónarmið og þá meginreglu að skipa skuli hæfasta umsækjandann hverju sinni.
Þetta sagði Jakob R. Möller, formaður dómnefndar sem metur hæfni umsækjenda um dómaraembætti, í erindi sínu á hádegisfundi lagadeildar HR á dögunum.
Jakob fjallaði ítarlega um sjálfstæði dómstóla og skipun dómara í sögulegu samhengi. Benti hann á að lög 45/2010 voru sett af ærnu tilefni – eftir áratugaskeið flokkspólitískrar misnotkunar á veitingarvaldi ráðherra við skipun dómara.
Sjö dómarar frá aldamótum skipaðir á skjön
við meginregluna um að skipa beri þann hæfasta
„Allt frá því á fjórða áratug síðustu aldar var mikil fylgni milli flokksaðildar dómsmálaráðherra og þekktra stjórnmálaskoðana þeirra sem skipaðir voru dómarar, sérstaklega í Hæstarétti,“ sagði hann. „Það var svo ekki fyrr en um 1987 með stofnun embættis umboðsmanns Alþingis og síðan með lögfestingu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að meginreglan um skipun þess hæfasta öðlaðist viðurkenningu í íslenskum rétti.“
Jakob benti á að allt frá lögfestingu laganna um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði nr. 92/1989 hefði starfað nefnd um mat á umsækjendum til ráðgjafar fyrir veitingavaldið, þ.e. dómsmálaráðherra.
„Fram til gildistöku laga nr. 45/2010 þann 19. maí 2010 batt niðurstaða nefndarinnar ekki hendur ráðherra. Á þessari öld eru a.m.k. sjö dómarar við Hæstarétt, héraðsdómstóla og nú síðast Landsrétt þar sem meginreglan um skipun þess hæfasta sýnist hafa verið brotin, það er ráðherra skeytti ekki um niðurstöðu faglegrar nefndar, en skipaði annan eða aðra en metnir höfðu verið hæfastir og án þess að nokkur alvörurannsókn samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga hefði farið fram.“
Þarf að stjórnarskrárbinda
skyldu ráðherra til að fylgja lögum?
Jakob velti því upp hvort ef til vill þyrfti að stjórnarskrárbinda skyldu ráðherra til að fylgja lögum í embættisverkum sínum. Í ljósi samhengisins og atburða undanfarinna mánaða mátti skilja orð hans sem óbeina gagnrýni á framgöngu Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra.
„Eins og ég reikna með að allir hér inni viti og lesi kvölds og morgna þá stendur í 61. gr. stjórnarskrárinnar: Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Af því ég sé að það eru að minnsta kosti tveir alþingismenn hérna inni, þá væri kannski rétt að þeir hefðu í huga við endurskoðun stjórnarskrárinnar að setja inn nýtt ákvæði um að ráðherrar skuli í embættisverkum sínum fara eftir lögum,“ sagði Jakob.
Athugasemdir