Mín kynslóð fór ung til vinnu enda voru engin lög þá gegn því. Ég var rétt 12 ára þegar byrjaði að vinna í fiski á Granda. Pabbi þekkti þann sem réði fólk og við systkinin fengum vinnu. Það var alls ekki auðvelt að fá vinnu í þá daga og oftast var það kunningsskapur sem réði úrslitum. Ekki voru foreldarnir slæmir og börnum þrælað út, heldur voru það við börnin sem vildum vinna og hjálpa fjölskyldunni að komast úr bragga í steinsteypt raðhús í smáíbúðarhverfi sem þá var verið að úthluta og allir í mínu braggahverfi, Herskálakampi, sóttu um. Svo nú hef ég verið á vinnumarkaðinum í 60 ár.
Ég ákvað það á síðasta ári að árið 2018 mundi ég alveg hætta að vinna. Mér fannst komið nóg og á meðan heilsan væri svona góð þá ætlaði ég að njóta þess að gera það sem mig langaði til. Ég fór að safna í svolítinn varasjóð fyrir nokkrum árum og setti á vaxtaauka reikning í bankanum en ekki vissi ég þá að þeir vextir sem mér áskotnuðust yrðu skattlagðir. Þau 60 ár sem ég hef verið á vinnumarkaðinum tilheyrði ég lífeyrissjóði eins og flestir landsmenn. Við greiddum skatt af laununum og settum svo pínulítið af þeim í lífeyrissjóð, til notkunar á efri árum, af þessum launum hef ég þegar greitt skatt en greiði nú aftur skatt af þessum sparnaði.
„Af þessum launum hef ég þegar greitt skatt en greiði nú aftur skatt af þessum sparnaði“
Nú er ég á tímamótum, atvinnulaus einmitt þegar ákveðið var að setja frítekjumörkin í 100.000 krónur. En áður varð ég að greiða Tryggingastofnun til baka af því að ég hafði of miklar tekjur það árið og hafði ekki haft vit á að segja þeim að hætta að greiða mér ellilaun. Það tók mig þrjú ár að greiða þeim til baka.
Ekki skildi ég þetta kerfi þá og nú er nýi greiðsluseðilinn, janúar 2018, kom og þar stendur að mín réttindi séu 225.461 krónur á mánuði, en staðgreiðsla skatta sé 48.895 krónur - samtals til útborgunar 176.566 krónur - þá skil ég þetta enn síður. Ég hringdi í TR og þjónustufulltrúinn sem svaraði sagði mér að kvarta við skattstofuna þar sem ég skildi ekki af hverju tekið var af mér 48.895 kr í staðgreiðsluskatt af svo litlum bótum.
„Þetta eru lög í landinu og við förum að lögum“. Ég spurði þá ef ég nýti minn persónuafslátt að fullu hjá TR en ekki hluta hjá lífeyrissjóðinum væri greiðslan eitthvað hærri sem ég fengi frá ykkur og svarið var nei. „Þú greiðir alltaf þessi rúm 37% í skatt og fullur persónuafsláttur er bara um 53.000 kr“. Næst var að athuga þetta hjá skattstofunni en þar var svo löng bið að ná tali af þjónustufulltrúa að mín þolinmæði þraut, enda hefði mér bara verið svarað að þetta væru lög í landinu og þeir færu að lögum. Ég fékk rukkun frá skattstofunni í september um að ég skuldaði 30.000 krónur, í viðbót við það sem ég hafði þegar greitt í staðgreiðslu. Ég fór að athuga nánar hvað ég fengi í raun frá TR og sá þá að bæturnar voru hærri en ég hafði haldið og að skatturinn hirti stóran hluta. Ég skil vel að fólki finnst það ekki gáfulegt en ég hafði bara látið mér nægja að skoðað það sem kom inn á bankareikninginn frá TR en ekki dottið í hug að athuga útreikningana og skattlagninguna. Það er svo fáránlegt að skattleggja ellibætur að mér datt ekki í huga að á hverjum mánuði tæki ríkið nærri 38% af bótunum mínum til sín. Svo ég fór að reikna: Ef ég greiði í staðgreiðslu 48.895 kr skatt á mánuði er ég að greiða 586.740 kr á ári. Þið verðið að afsaka en mér finnst þetta nokkuð há upphæð af þessum fáu krónum sem ellilaunin eru. En ef TR kallar þetta tekjur og frítekjumörkin voru hækkuð í 100.000 krónur, af hverju gildir það þá aðeins um tekjur sem fást á vinnumarkaðinum af hverju gildir það ekki líka um tekjur frá TR? Ef ég fengi nú bæturnar allar greiddar án þess að tekinn sé af þeim skattur þá yrði ég bara sátt. Ég verð sem sagt að fara aftur á vinnumarkaðinn til að fá fríar 100.000 krónur, en hver vill 73 ára gamla konu í vinnu?
„Má ekki verðlauna okkur sem allt frá barnæsku lögðum hönd á plóg til að búa þetta land þeim gæðum sem yngri kynslóðin nýtur nú?“
Nú getur verið að sumu ungu fólki finnist við eldri borgarar sem ekki viljum láta skattleggja bæturnar okkar séu með því að svíkjast undan því að greiða til samfélagsins. En má ekki verðlauna okkur sem allt frá barnæsku lögðum hönd á plóg til að búa þetta land þeim gæðum sem yngri kynslóðin nýtur nú? Það er af hinu góða að börn þurfi ekki að vinna erfiðisvinnu í dag, en hitt finnst mér verra hversu lítil virðing er borin fyrir okkur sem ruddum veginn. Við sem vorum fædd um og eftir stríð og munum baráttu foreldra okkar fyrir því einu að hafa fæðu á borðum, klæði og þak yfir höfuð, að búa í bragga. Við munum eftir því að standa í biðröðum til að kaupa skó eða fara útí mjólkurbúð með skömmtunarseðla, að ganga í alltof stórum slitnum fötum af einhverjum sem kannski átti þau ekki einu sinni í upphafi. Nei, það var nú ekki „merkjavara“ þá. Eigum við ekki skilið betra en þær smánarbætur sem ellilífeyririnn er? Sem er svo skattlagður næstum því 38% í ofanálag. Höfum við ekki greitt nóg í skatta þegar hér er komið?
Svo er það óskiljanlegt að fyrst bætur koma frá ríkinu og tæp 38% fara aftur til ríkisins. Af hverju er þá verið að hafa fyrir því greiða hærri bætur en þær sem í raun sitja eftir þegar skatturinn hefur verið sniðinn af? Eða er þetta gert til að hægt sé að segja að ellilífeyrir á Íslandi sé hár og jafnvel hærri en í þeim nágranna löndunum sem við miðum okkur við? Er skattlagning á bætur þá jafn há erlendis og hér? Eða eru lág laun og bætur ef til vill ekki skattlögð í þeim löndum sem við miðum okkur við? Ég vil hafa hátt og ég sem ellilífeyrisþegi vil krefjast þess að ellilaun, tekjur frá TR undir 250.000 krónum, séu ekki skattlagðar og ætti það að vera óháð öðrum tekjum. Við erum löngu búin að vinna fyrir því.
Athugasemdir