Þingmenn stjórnarmeirihlutans á Alþingi gerðu sig líklega til að greiða atkvæði gegn því að skýrslubeiðni til fjármála- og efnahagsráðherra, frá þingmönnum allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, yrði leyfð. Eftir nokkurt þóf fóru flutningsmenn fram á að atkvæðagreiðslunni yrði frestað.
Beiðnin var lögð fram að frumkvæði Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata, ásamt þeim Hönnu Katrínu Friðriksson, Halldóru Mogensen, Helga Hrafni Gunnarssyni, Ingu Sæland, Jóni Steindóri Valdimarssyni, Kolbeini Óttarssyni Proppé, Oddnýju G. Harðardóttur, Smára McCarthy og Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur. Var hún unnin í samráði við lögfræðinga á nefndasviði Alþingis..
Óskað var eftir því að ráðherra flytti Alþingi skýrslu um ábendingar er varða stjórnsýsluna og viðbrögð við þeim sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 annars vegar og í skýrslu rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna hins vegar.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins lögðust gegn skýrslubeiðninni, einkum á þeim grundvelli að skýrslunni væri ekki beint til rétts aðila og að ekki hefði farið fram kostnaðarmat á því að svara þeim spurningum sem fram koma. Þá væri það ekki fjármálaráðuneytisins að taka saman efni á borð við það sem beðið er um í skýrslubeiðninni.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, tók undir þetta. Andrés Ingi Jónsson, þingmaður sama flokks, sagði hins vegar undarlegt og fáheyrt að komin væri upp sú staða að hugsanlega yrði skýrslubeiðni þingmanna til ráðherra ekki leyfð. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Miðflokksins, var sama sinnis og sagðist ekki muna eftir öðru eins á sínum þingferli.
Óli Björn, Bjarkey og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hvöttu til þess að þingheimur reyndi að sameinast um aðferð til að ná fram sömu markmiðum og þingsályktunartillögunni væri ætlað. Með þetta fyrir augum var ákveðið að láta fresta atkvæðagreiðslunni.
Uppfært kl. 16:45:
Björn Leví Gunnarsson deilir frétt Stundarinnar á Facebook og skrifar um málið:
„Þetta var allt hið undarlegasta mál. Það kom allt í einu í ljós að einhverjir væru á móti skýrslubeiðni ... sem gerist bara ekki.
Það var sagt að þetta væri beint að vitlausum ráðherra, það er ekki rétt. Sérstaklega af því að það var verið að beina fyrirspurninni að tveimur og forseta þings. Það var búið að fara vel yfir þetta með fagaðilum.
Það var sagt að þetta væri ekki kostnaðarmetið og skýrslurnar sem ætti að skoða hefðu verið svo dýrar. Já, þær voru dýrar og eitt af markmiðum þessara skýrslubeiðna er að passa að sá peningur hafi ekki farið í súginn.
Málið er ekki búið, atkvæðagreiðslu var bara frestað. Sjáum til hvaða tillögur berast um breytingar. Þegar allt kemur til alls er mér sama hvernig er spurt. Bara að svarið komi. Andstaðan við þetta mál vekur forvitni og styður að það sé þörf á að þessar upplýsingar komi fram. Mig grunar nefnilega að lítið hafi verið gert, sem er ástæða beiðninnar.“
Hér má sjá skýrslubeiðnina í heild:
Með vísan til 54. gr. stjórnarskrárinnar og 54. gr. laga um þingsköp Alþingis er þess óskað að fjármála- og efnahagsráðherra flytji Alþingi skýrslu um ábendingar sem varða stjórnsýsluna og viðbrögð við þeim sem fram koma í rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 annars vegar og í skýrslu rannsóknarnefndar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna hins vegar.
Í skýrslunni verði samantekt á ábendingum þeim til stjórnsýslunnar sem settar eru fram í skýrslunum og fjallað verði m.a. um:
1. hversu margar ábendingar koma fram sem beint er til stjórnsýslunnar,
2. hverjar þær ábendingar eru,
3. hvernig brugðist hefur verið við þeim og
4. hvaða ábendingum hefur ekki enn verið brugðist við.
Í þeim tilvikum sem brugðist hefur verið við ábendingum er óskað eftir að upplýst verði:
1. hvernig tryggt hafi verið að þeim hafi verið og verði fylgt eftir,
2. hver hafi verið tilnefndur ábyrgðaraðili og
3. hvernig ráðherra hyggist fylgja eftir ábendingum þar sem ekki hefur verið tilnefndur ábyrgðaraðili.
Óskað er eftir tæmandi lista yfir þær ábendingar sem ráðherra hyggst ekki bregðast við ásamt ástæðum þess og mati ráðherra á þeim árangri sem eftirfylgni hefur haft í för með sér og hvernig sá árangur er mældur.
Að lokum er farið fram á að ráðherra geri grein fyrir þeim breytingum sem hafa orðið á starfsemi banka og sparisjóða í kjölfar ábendinga úr rannsóknarskýrslu Alþingis.
Athugasemdir