Eyþór Arnalds, frambjóðandi í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og stærsti einstaki hluthafi Morgunblaðsins, kemur fyrir á forsíðu blaðsins í dag. Tilefnið er grein eftir Eyþór inni í blaðinu þar sem frambjóðandinn kynnir kosningamál sín, gagnrýnir núverandi borgarstjórnarmeirihluta fyrir að „þrengja að fjölskyldubílnum“ og varar við áformum um Borgarlínu. Í Staksteinum Morgunblaðsins er Borgarlína jafnframt gagnrýnd á sams konar grundvelli og fundið að því að verið sé að „þrengja að eftirlætisferðamáta borgarbúa“.
„Í stað Borgarlínu væri skynsamlegra að bæta merkingar og nota þá tækni sem verður brátt í öllum bílum: Snjallsímar á hjólum. Borgarnet bíla þar sem fólk kemst á hagstæðan hátt alla leið heim til sín. Reykjavík á að vera í fararbroddi að innleiða þær tæknilausnir sem eru að ryðja sér til rúms um þessar mundir en ekki fara af stað með 19. aldar hugmynd um línulegar samgöngur,“ skrifar Eyþór sem jafnframt kallar eftir því að samningi við ríkið, „þar sem ákveðið var að 1 milljarður á ári sem hefði annars farið í nauðsynlegar framkvæmdir á stofnbrautum í Reykjavík rynn[i] til Strætó“, verði sagt upp.
Eyþór er í dag stærsti einstaki hluthafi Morgunblaðsins, með um 23 prósenta hlut í gegnum félagið Ramses II. Á forsíðu Morgunblaðsins í dag má sjá mynd af Eyþóri og tilvitnun í grein eftir hann sem birtist í blaðinu.
Þegar Stundin ræddi við Eyþór á dögunum tók hann skýrt fram að hann skipti sér ekki á nokkurn hátt af ritstjórn Morgunblaðsins. „Ég hef enga aðkomu að til dæmis ritstjórn Morgunblaðsins, bara svo það sé sagt hreint út,“ sagði hann. Miklir kærleikar eru með Eyþóri og Davíð Oddssyni, ritstjóra Morgunblaðsins og fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins. Þegar Davíð bauð sig fram til forseta árið 2016 tók Eyþór virkan þátt í kosningabaráttunni. Að sama skapi hefur Davíð farið lofsamlegum orðum um Eyþór; til að mynda bölvaði hann því í leiðara árið 2014 að Eyþór hefði ekki gefið kost á sér í bæjarstjórnarkosningum. „Það er skaði. Raunar gætu sjálfstæðismenn í Reykjavík heldur betur grætt á því að fá mann eins og Eyþór Arnalds í forystuhlutverk þar,“ sagði í leiðara Morgunblaðsins.
Athugasemdir