Það sem hefur haft mest áhrif á líf mitt var þegar ég fattaði að ég þyrfti ekki að fara sama veg og allir aðrir. Ég hætti í menntaskóla 18 ára því ég vildi bara vera í hljómsveitinni minni og fór að vinna á fullu. Ég byrjaði að læra á gítar þegar ég var 11 ára. Mér hafði alltaf fundist það mjög skemmtilegt og það var mér mjög náttúrulegt. Þannig að í staðinn fyrir að reyna að klára nám sem ég fann mig ekki í bjó ég frekar til mín eigin tækifæri og eigin ævintýri.
Ég vann í nokkur ár í Krambúðinni og síðan fann ég leið mína aftur í skóla, en það var í Myndlistaskólann í Reykjavík þar sem ég hélt áfram að gera það sem ég vildi gera og þróa mína list. Ég komst inn og síðan eftir að ég lauk því námi fór ég í Listaháskólann í myndlist.
Þetta hefur alveg verið hark og ég hef þurft að vinna alls konar vinnu, meðal annars á kaffihúsum, en ég hef getað unnið við myndlist og tónlist og það sem mér finnst bara skemmtilegt. Ég sé ekki eftir neinu.
Athugasemdir