Guðlaugur Þór Þórðarson, settur dómsmálaráðherra, skipaði í dag þá átta umsækjendur um stöðu héraðsdómara sem dómnefnd taldi hæfasta þrátt fyrir að vera „enn engu nær um innbyrðis vægi þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar mati nefndarinnar“.
Ráðherrann greinir frá þessu í bréfi sem birtist á vef stjórnarráðsins í dag. Áður hafði hann sent dómnefndinni harðort bréf og gert athugasemdir við umsögn um hæfni umsækjenda í tíu liðum. Af bréfinu mátti ráða að Guðlaugur hefði sérstakar áhyggjur af því að reynsla Ingiríðar Lúðvíksdóttur setts héraðsdómara og Daða Kristjánssonar saksóknara væri ofmetin í umsögn dómnefndarinnar, en að það hallaði á hæstaréttarlögmennina Jónas Jóhannsson og Indriða Þorkelsson.
„Þrátt fyrir að ýmsar nýjar upplýsingar hafi komið þar fram lét nefndin hjá líða að svara veigamiklum athugasemdum og spurningum ráðherra,“ segir Guðlaugur í nýja bréfinu. „Nefndin svaraði því ekki heldur hvernig umsækjendur stóðu sig í viðtölum og hvert vægi viðtalanna var, þrátt fyrir að hún hafi sérstaklega tekið fram að við matið hafi talsvert verið lagt upp úr viðtölum við umsækjendur. Þá útskýrði nefndin ekki hvernig hið svokallaða „heildstæða mat“ hennar fór fram, en eins og rakið er í bréfi setts ráðherra frá 29. desember er umsögnin að minnsta kosti rökstudd eins og um sé að ræða mjög hlutlægan samanburð á milli umsækjenda í einstökum matsþáttum og fer lítið fyrir hinu heildstæða mati.“
Segist Guðlaugur vera litlu nær um það mat sem fór fram á vettvangi nefndarinnar. Óeðlilegt sé að nefndin svari ekki spurningum hans með greinargóðum hætti, enda geri það ráðherra erfitt um vik að sinna skyldum sínum sem sá aðili sem fer með skipunarvaldið og ber lagalega ábyrgð á ferlinu öllu.
Fram kemur að ráðherra hafi ekki þótt æskilegt, tímans vegna, að óska eftir nýrri umsögn dómnefndarinnar. Ef hann hefði vikið frá umsögninni og lagt fram tillögu til Alþingis um að skipa aðra umsækjendur í dómaraembættin að undangenginni sjálfstæðri rannsókn hefði slíkt tekið margar vikur og sett starfsemi héraðsdómstólanna í tímabundið uppnám, enda áttu dómararnir að taka til starfa í upphafi nýs árs.
„Í þessari þröngu stöðu, vegna þess tímahraks sem dómnefndin setti settan ráðherra í, og vegna hinnar einstrengingslegu afstöðu dómnefndar sem birtist í svarbréfi hennar, átti settur ráðherra ekki annan kost en að skipa þá sem dómnefndin taldi hæfasta, þótt settur ráðherra hafi í raun ekki haft fullnægjandi forsendur til að meta réttmæti þeirrar niðurstöðu,“ skrifar Guðlaugur sem tekur sérstaklega fram að í þessu felist þó ekki „að kastað sé rýrð á þá sem dómnefndin taldi hæfasta til að gegna dómaraembættunum.“
Athugasemdir