Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, tilkynnti á starfsmannafundi í dag að lagt yrði blátt bann við nektardagatölum á starfsstöðvum fyrirtækisins.
„Jú jú, það var gefið út að við höfnum því að láta sjást í myndir af nöktum konum,“ segir hann í samtali við Stundina.
„Þetta er eitthvað sem á bara að tilheyra fortíðinni og er auðvitað hluti af stærri umræðu og viðhorfsbreytingum sem ég held að við þurfum öll að taka þátt í.“
Síldarvinnslan bauð upp á opinn fund um karlmenn og #metoo-átakið í dag og var Magnús Orri Schram, stjórnarmaður hjá UN Women á Íslandi og fyrrverandi þingmaður, fenginn til að fræða starfsmenn um #metoo á Íslandi og ábyrgð karlmanna í breyttum heimi.
„Þetta var fróðlegur fundur og hann var haldinn því við viljum hafa hlutina í lagi í okkar fyrirtæki. Þess vegna er mikilvægt fyrir stjórnendur og alla starfsmenn að fá fræðslu um þetta,“ segir Gunnþór og bendir á að í sjávarútvegi séu vinnustaðir oft mjög karllægir og þess vegna sé mikilvægt að bregðast við.
Aðspurður hvort mikið hafi verið um að horft væri á klámmyndbönd á vinnustöðum segir hann: „Nei, hér er bara verið að svara almennt þessu ákalli og þetta er eitthvað sem ég held að við þurfum að gera, allir karlmenn og þjóðfélagið í heild. Við viljum hafa hlutina í lagi og viljum að konum sem vinna hjá Síldarvinnslunni líði vel.“
Athugasemdir