Meirihluti fjárlaganefndar hefur lagt til að Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands, fái 7 milljóna króna framlag frá ríkinu árið 2018 og aftur árið 2019 vegna „ýmissa verkefna sem áfram eru á hans borði“.
Þetta kemur fram í nefndaráliti sem meirihlutinn – þingmenn Framsóknarflokksins, Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna – skilaði í gær.
„Gerð er tillaga um 7 millj. kr. tímabundið framlag í tvö ár til utanríkisþjónustunnar sem verði nýtt til að bjóða fyrrverandi forseta Íslands aðstoð og þjónustu,“ segir í álitinu, en um 5,5 milljónum verður varið í launakostnað og um 1,5 milljónum í ferðakostnað.
Bent er á að í nágrannalöndunum sé viðtekin venja að fyrrverandi þjóðarleiðtogum bjóðist slík þjónusta. Þá hafi fyrrverandi forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, verið tryggð aðstoð og þjónusta af þessu tagi.
Athugasemdir