Ný skoðanakönnun leiðir í ljós að fylgi Pírata tekur mikið stökk, en Flokkur fólksins tapar miklu fylgi.
Þá mælast ríkisstjórnarflokkarnir þrír með minna en helmingsfylgi, eða 48 prósent. Þrátt fyrir það nýtur ríkisstjórnin sem slík stuðnings 66,7 prósenta svarenda sem er mesti stuðningur við ríkisstjórn frá hruni. Það er þó töluvert minni stuðningur en mældist í könnun Stöðvar 2 fyrr í desember, þegar 78 prósent svarenda kváðust styðja ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.
Í nýbirtri könnun MMR mælast Píratar með 14,1% fylgi, en þeir fengu 9,2 prósent atkvæða í alþingiskosningunum í lok október. Sjálfstæðisflokkurinn heldur stöðu sinni sem stærsti flokkurinn, en með tveimur prósentustigum minna fylgi en í kosningunum, eða 23,2 prósent. Vinstri grænir falla naumlega niður fyrir Samfylkinguna úr stöðu næst stærsta stjórnmálaflokks landsins með 16,7 prósenta fylgi, þótt munurinn sé ekki marktækur.
MMR gerði könnunina á tímabilinu 12. til 15. desember.
Fylgi stjórnmálaflokka
Sjálfstæðisflokkur 23,2%
Samfylkingin 16,8%
Vinstri grænir 16,7%
Píratar 14,1%
Miðflokkurinn 8,7%
Framsóknarflokkurinn 8,5%
Viðreisn 5,7%
Flokkur fólksins 3,7%
Annað 2,5%
Athugasemdir