Þessa dagana er sólargangur á Íslandi skemmstur, eða um fjórar klukkustundir. Skammdegismyrkrið var lengi einn af höfuðóvinum íslensku þjóðarinnar sem landsmenn urðu að berjast við með þeim föngum sem landið sjálft veitti. Mör úr kindunum, hrossafeiti, hvalspik, sellýsi, hákarlslýsi og lýsi úr fiskalifur. Kveikirnir voru gerðir úr fífu. Ljósaáhöldin voru kolur og lampar. Úti fyrir grúfði kolsvart myrkrið og þegar sást ekki til tungls var reynt að setja ljós í glugga til þess að vísa mönnum til vegar heim að bæjum. Eldiviðarbaslið var daglegt stríð húsmæðra þar sem mór og hrís var um aldabil aðaleldsneytið.
Kveikt á peru
Á 18. öld tóku að berast upplýsingar um rafmagn til Íslands. Breskt tilboð í raflýsingu Reykjavíkur barst árið 1888. Nota átti 10 hestafla gufuvél til þess að framleiða rafmagnið. Bæjarfulltrúar þess tíma voru fjarri því að vera reiðubúnir að samþykkja svona byltingarkennda tillögu og höfnuðu henni umsvifalaust. Kennslutæki í rafmagni voru keypt til Lærða skólans á árunum 1888 og 1889. Ætla má að þar hafi í fyrsta skipti verið kveikt á peru á Íslandi. Það var snemma morguns laugardaginn 6. október 1894 sem póstskipið „Laura“ varpaði akkerum á Reykjavíkurhöfn. Koma póstskipsins til höfuðstaðarins þótti jafnan töluverður viðburður og rauf fábreytnina með nýjum blöðum, pósti og fréttum utan úr heimi til hinna einangruðu eyjarskeggja á Fróni. Mestu tíðindin þóttu að með skipinu komu sautján Íslendingar sem flutt höfðu til Vesturheims en gefist upp á verunni þar. Frásagnir agenta Vesturheims höfðu reynst vera ómerkilegar blekkingar.
Skömmu eftir heimkomu vesturfaranna birtist auglýsing í blöðunum að einn af hinum heimkomnu Íslendingum ætlaði að flytja fyrirlestur í Fjalakettinum. Margir veltu fyrir sér hvort þarna væri enn einn af þessum agentum sem boðaði fagnaðarerindið um Vesturheim. Það var því fámennt í Fjalakettinum við Aðalstræti föstudagskvöldið 12. október þegar Frímann B. Arngrímsson steig í pontu og hóf að ræða um þá orku sem væri falin í hinum fjölmörgu vatnsföllum landsins. Frímann, sem var háskólamenntaður í stærðfræði og raunvísindum, var talinn best menntaði Íslendingurinn í Vesturheimi. Frímann hafði, áður en hann lagði af stað heim aftur, unnið um hríð hjá bandaríska stórfyrirtækinu The General Electric Co í Boston, sem var í eigu Edison. Í fyrirlestri hans sagði hann meðal annars: „Líklega hefði ég unnið þar á meðan mér entist aldur, ef löngunin að líta til Íslands aftur og færa börnum þess besta boðskapinn, sem ég þá þekki, hefði ekki lokkað mig frá hinum sólríku ströndum Nýja Englands og borið mig hingað til Íslands.“ Í ræðum og greinum Frímanns kom glögglega fram að hann var vel kunnugur hinum ótal möguleikum sem rafmagnið bauð upp á.
Frímann taldi því sjálfsagt fyrir Íslendinga að tileinka sér þessa nýju tækni og fyrir Reykvíkinga væri kjörið að virkja Skorarhylsfoss, sem nú er oftast nefndur Kermóafoss, í Elliðaánum. Frímann benti á að: „Væri 50 þúsund krónur af almannafé, hvort heldur sem lán eða gjöf, þá illa varið til jafnþýðingarfulls fyrirtækis? Væri því verr varið heldur en til dæmis þeim 300 þúsund krónum, sem landsmenn kosta árlega til yfirvalda sinna og leiðtoga. Hvað framkvæma þeir fyrir allt það fé?“ og Frímann endaði fyrirlestur sinn á því að spyrja: „Vilja menn nokkuð til vinna? Eða á þessi og aðrir fossar á Íslandi aldrei neitt að starfa?“ Viðstaddir létu sér þó fátt um finnast og gerðu grín að honum. Á sama tíma höfðu nágrannalönd okkar áttað sig á möguleikum raforkunnar og þar voru þegar í gangi umfangsmiklar framkvæmdir við að beisla vatnsorkuna. Frímann talaði hins vegar fyrir daufum eyrum samlanda sinna og enn um sinn létu Íslendingar sér nægja olíu og illa lyktandi grútarlampa í baráttunni við myrkur skammdegisins.
Áttuðu sig ekki á möguleikunum
Í þessu sambandi má líta til yfirlýsinga Gests Pálssonar, skálds og ritstjóra Heimskringlu. Gestur var á Íslandi á svipuðum tíma og flutti athyglisverða fyrirlestra og skrifaði greinar um íslenskt samfélag. Einn þeirra hét „Lífið í Reykjavík“, þar sagði hann meðal annars: „En einn aðalgallinn á embættismönnum hér og hann er sá, að þeir verða einhvern veginn svo alveg samvaxnir sínum embættum og heimilum að þeir geta nærri því ekkert séð, sem þar er fyrir utan. Heimilið og embættið verða að nokkurskonar skjaldbökuskel, sem vex yfir höfuð embættismannsins, nær niður á tær og tekur frá honum alla útsjón. Og verði honum einhvern tíma í ógáti á að reka höfuðið út undan skjaldbökuskelinni, þá hættir honum við að misskilja flest, sem fyrir augun ber.“
„Vilja menn nokkuð til vinna? Eða á þessi og aðrir fossar á Íslandi aldrei neitt að starfa?“
Íslensk þjóð var einangruð og tortryggin gagnvart öllum breytingum eins og kemur meðal annars vel fram í viðhorfum þeirra til breytinga á vinnumarkaði. Tíðarandinn meðal íbúa Reykjavíkur á árunum fyrir 1900 var einfaldlega ekki undir það búinn að átta sig á þeim möguleikum sem voru fólgnir í beislun fossanna. Margir sáu ekki hvað það byði upp á umfram hina örfáu olíurokka sem einstaklingar höfðu flutt inn og sett upp við hús sín til raflýsingar með örfáum perum. Þar hafði einnig áhrif aðhaldssemi bændasamfélagsins og afar slök fjárhagsstaða meirihluta bæjarbúa. Þeir fáu sem höfðu skilning á möguleikum rafvæðingar töldu virkjun fossanna vera samfélagslegt verkefni en bæjarstjórnin taldi aftur á móti að rafvæðing ætti að vera í höndum einkaaðila.
Frímann náði ekki að hrinda af stað þeim straumhvörfum í þróun og uppbyggingu Reykjavíkur sem hann hafði vonast til og voru það honum gríðarlega mikil vonbrigði, ekki síst sakir þess að hann þekkti vel af eigin raun frá uppvaxtarárum sínum hversu mikil og jákvæð áhrif rafvæðingin gæti haft á hið staðnaða íslenska samfélag. Frímann þekkti vel hversu mikið rafvæðingin hafði bætt kjör hinna lakast settu í Vesturheimi. Það næsta sem hægt er að segja úr sögu rafmagns hér á landi, er að árið 1894 var rætt á Alþingi hvort raflýsa ætti þinghúsið, en úr því varð þó ekki. Eyjólfur Þorkelsson úrsmiður þótti hugvitssamur og smíðaði ýmsa gripi sem vöktu athygli. Björn Jónsson, ritstjóri Ísafoldar, síðar ráðherra og auk þess faðir Sveins Björnssonar forseta, fékk árið 1897 olíuvél sem var 8–10 hestafla og lét hana knýja hraðpressu í prentsmiðju sinni.
Haustið 1899 rafvæddi Eyjólfur vélaherbergi prentsmiðjunnar og leiddi þráð inn til sín í Austurstræti 6 og setti upp tvö ljós á vinnustofu sinni. Þriðja herbergið sem hann setti upp ljós í var skrifstofa Ísafoldar. Notaðir voru 16 kerta bogalampar, en mótorinn sem knúði rafalinn var svo máttlaus að einungis var hægt að halda lifandi þremur lampanna í senn. Haustið 1900 skrifaði Eyjólfur bréf til bæjarstjórnar og bauðst til þess að útvega tilboð frá þýsku fyrirtæki í raflýsingu og rafhitun í bæinn. Bæjarstjórn skipaði nefnd í málið og tilboð barst í virkjun Varmár í Mosfellssveit. Það mál dagaði uppi.
Sóðaskapur í kringum vatnsbrunna
Það var mikill sóðaskapur í kringum vatnsbrunna Reykjavíkur og á götum bæjarins við íbúðarhús. Bænum er á þessum tíma lýst sem sóðalegri og illa lyktandi forarvilpu, mór og kol voru nýtt til hitunar og eldamennsku og reykský grúfði yfir bænum á þeim tímum. Nokkrir karlar og kerlingar sáu um að sækja vatn í nokkur vatnsból og bera það í húsin. Vatnsberarnir voru flestir hverjir einstæðingar, útslitin gamalmenni og fólk sem hafði ekki burði til annarrar erfiðisvinnu. Kjör vatnsberanna voru bágborin, þeim var ýmist umbunað með nokkrum aurum, húsaskjóli eða matarbita.
Oftast var það sama fólkið, sem sá um að bera vatn á morgnana, og það sem sá um að hreinsa kamrana á kvöldin. Hér var um að ræða fátækasta fólk bæjarins sem vann langan og erfiðan vinnudag og bjó að auki við mjög slakar aðstæður til þess að geta sinnt nauðsynlegum þrifnaði á sjálfu sér og sínum fatnaði. Á þessum tíma var hreinlætis- og salernisaðstöðu í Reykjavík verulega ábótavant og yfirvöld höfðu af þessu miklar áhyggjur enda höfðu læknar rakið taugaveiki til vatnsbólanna. Ekkert fráveitukerfi var í bænum utan nokkurra opinna skurða og yfirborðsvatn átti greiða leið í vatnsbólin frá forarvilpunum á götunum og við húsin. Óhreint drykkjarvatn úr Móakotslind við Lindargötu olli taugaveikisfaraldri sem gaus upp haustið 1906. Bæjarstjórnin ákvað í framhaldi af því að kaupa Elliðaárnar, en það var vegna vatnsveitunnar en ekki vegna hugsanlegrar rafstöðvar.
Það var ekki einungis hreinlæti sem kallaði á vatnsveitu, heldur voru á þessum árum miklir húsbrunar í Reykjavík, víða voru litlir olíumótorar til að framleiða rafmagn og einnig var gas og steinolía notað til lýsingar. Slökkvilið borgarinnar réð lítið við vaxandi brunahættu í timburhúsunum vegna tækjaskorts og ekki síður vegna skorts á vatni. Tryggingariðgjöld húsa voru hækkuð um 50% árið 1905. Kostnaður bæjarsjóðs vegna bruna óx á árunum 1905 til 1915 úr því að vera um 1% af útgjöldum bæjarins í að verða 6%.
Umræðan gegn timburhúsum varð sífellt háværari og það má segja að bruni Hótels Reykjavíkur og tólf annarra húsa í miðbæ Reykjavíkur 15. apríl 1915 hleypti miklum krafti í umræðuna um steinsteypt hús og olli byltingu í skipulagi Reykjavíkur og viðhorfum landsmanna til byggingarefnis. Fylgjendur steinsteypunnar vildu nýta það ástand til þess að banna timburhús í Reykjavík. Ástæða er að halda því til haga að bruninn mikli 1915 varð einnig til þess að afla rafvæðingu bæjarins aukins stuðnings, þar sem gasið var af mörgum talið hafa átt stóran þátt í því að bruninn varð svo umfangsmikill sem raun bar vitni um.
Athugasemdir