Eigandi nýs lögheimilis Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, segir að Sigmundur hafi „þurft“ lögheimili á Akureyri, en ekki liggi fyrir hvort hann muni búa þar.
Nýtt lögheimili Sigmundar er nú leigt út til námsmanna og ekki er rými fyrir hann og eiginkonu hans þar, þótt þau hafi skráð lögheimili sitt þar.
Sigmundur hefur verið gagnrýndur fyrir að skrá falskt lögheimili að Hrafnabjörgum III í Jökuldal, þrátt fyrir að hafa þar enga dvöl. Hann flutti nýlega lögheimili sitt og eiginkonu sinnar, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, í Aðalstræti 6 á Akureyri, í hús frá 1845 í eigu Gerðar Jónsdóttur, stofnfélaga í Miðflokknum og fyrrverandi formanns Félags framsóknarkvenna.
Gagnrýndur fyrir falskt lögheimili
Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa falska lögheimilisskráningu Sigmundar eru Pétur Einarsson, lögfræðingur og frambjóðandi Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi, sem kærði Sigmund Davíð fyrir síðustu alþingiskosningar á grundvelli þess að hann bryti lög með því að gefa „falskar upplýsingar til Hagstofu Íslands um lögheimili sitt og fjölskyldu sinnar“. „Þar hefur kærði aldrei búið né haft þar starfsstöð og er eigandi umræddrar eignar og nágrannar til vitnis um það,“ sagði í kærunni.
Sigmundur ákvað fyrir kosningarnar 2013 að bjóða sig fram í Norðausturkjördæmi. Sigmundur var búsettur í Seljahverfinu í Breiðholti. Sigmundur kaus að finna sér heimili í kjördæminu og varð fyrir valinu 100 fermetra sveitahús með torfeinangrun í Jökuldal á jaðri hálendisins. „Sigmundur Davíð hefur nú bara gist hér eina nótt þótt hann sé skráður til heimilis hér,“ sagði eigandi hússins í samtali við Morgunblaðið.
Samkvæmt Vísi.is bjó Sigmundur Davíð þvert á móti í „glæsihúsi“ í Garðabæ.
Lög kveða á um búsetu á lögheimili
Í fyrstu grein laga um lögheimili segir: „Lögheimili manns er sá staður þar sem hann hefur fasta búsetu.“ Þá segir í lögunum að sé lögheimili vafamál, beri að skrá það þar sem viðkomandi dvelur meirihluta árs: „Leiki vafi á því hvar telja skuli að föst búseta manns standi, til dæmis vegna þess að hann hefur bækistöð í fleiri en einu sveitarfélagi, skal hann eiga lögheimili þar sem hann dvelst meiri hluta árs.“
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands þrýstir stofnunin markvisst á fólk að skrá sig á réttan stað. Ekki náðist í lögfræðinga Þjóðskrár, en almennur starfsmaður Þjóðskrár sagði í samtali við Stundina að skýrt væri hvar lögheimili ætti að vera. „Samkvæmt lögheimilislögunum eru víst engin viðurlög við þessu, en þar sem við erum alltaf að reyna að hafa þjóðskrána sem réttasta reynum við að ýta á eftir fólki með að hafa þetta rétt, að fólk skrái sig á réttan stað. Þú átt að vera skráður með lögheimili þar sem þú hefur sannarlega búsetu.“
Miðað við almenn svör Þjóðskrár má gera ráð fyrir því að stofnunin hafi reynt að fá Sigmund til að skrá sig til rétts heimilis.
Ekki ljóst hvort Sigmundur muni búa á lögheimili sínu
Gerður Jónsdóttir, eigandi lögheimilis Sigmundar, segir að það sé rangt, sem hefur komið fram hjá Ríkisútvarpinu, að enginn hafi búið í húsinu síðustu ár. „Það var nú ekki rétt hjá RÚV. Það er íbúð í húsinu og hefur verið búið í því síðustu tvö árin.“
Þannig að það er upptekið? „Það er náttúrlega uppsegjanlegt, ég er með uppsegjanlega leigjendur. Þetta eru bara skólakrakkar. Ég hef alltaf haft þetta frekar laust.“
„Það eru miklu fleiri sem eru með lögheimili og búa ekkert á þeim stað.“
Lög gera ráð fyrir því að Sigmundur eigi að skrá lögheimili sitt þar sem hann sannarlega býr, en ekki er ljóst hvort stefnt sé að því.
„Ég veit það ekki,“ segir Gerður. „Þetta var bara eitthvað sem þurfti að gera. Og síðan þarf að taka stöðuna. Þetta kom nú bara til ósköp fljótt. Það er svo sem ekkert ákveðið ennþá. Það verður bara tekin staðan eftir áramótin, þegar það fer aðeins að hægjast um,“ segir Gerður. Hún staðfestir því að ekki sé pláss fyrir Sigmund á lögheimili hans. „Ekki um jólin. Hann heldur örugglega ekki jólin þarna.“
Segir fleiri með rangt skráð lögheimili
Gerður vill ekki taka fram hvort Sigmundur hafi beðið hana að fá að skrá lögheimili sitt í húsnæði hennar eða hvort hún hafi boðið honum það. „Bauð ég honum það? Mér finnst það ekki skipta máli. Hann þurfti að hafa aðsetur hérna á Akureyri og ég veit ekki nema kannski hann flytji hingað. Það er svo sem allt í skoðun. Við erum góðir kunningjar,“ segir hún.
Gerður segir að Sigmundur sé ekki sá eini sem er með skráð lögheimili þar sem hann dvelur hvorki né hefur dvalið. „Það eru miklu fleiri sem eru með lögheimili og búa ekkert á þeim stað. Þannig að það er ekkert einstakt.“
Athugasemdir