Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, gerði siðbótina og Martein Lúther að umtalsefni í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í kvöld, skaut á Ríkisútvarpið og sagðist vona að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra talaði um „fleira en loftslagsmál“.
„Um þessar mundir eru 500 ár síðan siðbótin leit dagsins ljós,“ sagði Birgir og fullyrti að samtryggingin og velferðin ættu uppruna sinn í siðbótinni og að sama skapi heilbrigðisþjónusta og aðstoð til handa fátækum.
„Upphafið að þessu öllu saman var handskrifaður miði, festur á kirkjudyr í Þýskalandi. Í dag myndi t.d. duga skammt að setja miða á dyr fjármálaráðuneytisins og biðja hæstvirtan fjármálaráðherra um að leyna nú ekki neinum upplýsingum sem gætu sprengt nýju ríkisstjórnina,“ sagði Birgir.
Svo vék hann talinu að fjölmiðlum:
„Við höfum fjölmiðla sem Lúther hafði ekki. Best er að láta fjölmiðla sjá um þessi mál. En fjölmiðlar mega ekki fara í manngreinarálit. Þeir mega ekki fara neinum silkihönskum um ríkisstjórnina þó svo Vinstri grænir [sic] séu þar í forsæti. Nú er komið kjörið tækifæri fyrir Ríkisútvarpið til að hrista af sér vinstristimpilinn.“
Birgir greindi frá því að nýlega hefði hann gengið yfir Austurvöll og orðið vitni að því þegar erlendir fréttamenn og ferðamenn hlýddu á yfirlýsingar íslensks leiðsögumanns um að Ísland væri „spilltasta ríkið í Evrópu“ og Alþingismenn margir hverjir spilltir.
„Mér brá við þetta… það var þá landkynningin! Auðvitað er þetta ekki rétt. Spilling er t.d. landlægt vandamál í ríkjum Austur-Evrópu en þetta sýnir að við sem hér erum höfum öll verk að vinna við að byggja upp traust,“ sagði Birgir.
Þá beindi hann spjótum sínum að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og hneykslismálinu sem varð til þess að stjórnarsamstarfinu var slitið. Ríkisstjórnin hefði „hrökklast frá völdum vegna tengsla þáverandi forsætisráðherra við viðkvæmt mál sem reynt var að þagga niður. Það fellur undir hugtakið spilling að reyna að þagga niður óþægileg mál,“ sagði Birgir.
Hann vitnaði svo í skrif Kolbeins Óttarssonar Proppé, þingmanns Vinstri grænna, sem skrifaði pistil skömmu fyrir kosningar og hvatti kjósendur til að gefa Sjálfstæðisflokknum og spillingu hans frí. „Hver hefði síðan trúað því að Vinstri grænir ættu eftir að tryggja þessum sama flokki áframhaldandi völd?“ spurði Birgir.
Þingmaðurinn benti á að Katrín Jakobsdóttir ætti ekki auðvelt verk fyrir höndum.
„Meðreiðarsveinar hennar tveir eru ekki þekktir fyrir það að hafa stuðlað að pólitískum stöðugleika. Engu að síður hafa Vinstri grænir [sic], flokkur sem var tiltölulega vammlaus í íslenskum stjórnmálum, ákveðið að fórna orðstír sínum fyrir völd. Yfirgefa hugsjónir sínar og ganga í eina sæng með gamalgrónum valdaflokkum.“ Þá sagði Birgir með alvöruþunga: „Allt tal í kosningabaráttunni um að gefa þeim frí var hljóm [sic] eitt.“
Loks hvatti hann Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra til dáða. „Það binda margir vonir við hæstvirtan forsætisráðherra og ég vona að hún tali um fleira en loftslagsmál. Nú hefur hún fengið tækifærið og vonandi stendur hún undir því. Það gæti kólnað hratt undir hinni pólitísku hjónasæng.“
Athugasemdir