Tekjur af kolefnisgjaldi, olíugjaldi og vörugjaldi af ökutækjum verða samtals 4,5 milljörðum minni í fjárlagafrumvarpi nýrrar ríkisstjórnar en til stóð samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrri stjórnar.
Kolefnisgjald hækkar helmingi minna en áður stóð til, eða um 50 prósent í stað 100 prósenta. Mismunurinn nemur um 1,7 milljörðum. Þá er fallið er frá fyrri áformum um tekjuöflun samhliða jöfnun olíugjalds við bensíngjald og hægt á afnámi ívilnunar vörugjalds af bílaleigubílum. Þótt kolefnisgjaldið verði hækkað minna á árinu 2018 en áætlað var samkvæmt fjárlagafrumvarpi Benedikts Jóhannessonar muni gjaldið hækka á næstu árum í takt við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.
„Tekjur af vörugjöldum á ökutæki eru áætlaðar 7,9 ma.kr. á næsta ári sem er 1,9 ma.kr. minna en í fjármálaáætlun. Lækkunin skýrist einna helst af breyttum áformum hvað varðar afnám afsláttar sem bílaleigur hafa fengið af vörugjöldum. Sem fyrr segir er lagt til að fresta gildistöku laganna um eitt ár en á móti lækkar afsláttarþakið um helming,“ segir í greinargerð frumvarpsins.
Í yfirliti yfir lagabreytingar sem gerðar verða samhliða afgreiðslu fjárlaga er þessi breyting útskýrð með eftirfarandi hætti: „Lagt verður til að álagning vörugjalds á bifreiðar sem ætlaðar eru til útleigu hjá ökutækjaleigum fari samkvæmt undanþáguflokki (0–30%) árið 2018 en ekki samkvæmt aðalflokki (0–65%) frá 1. janúar 2018 eins orðið hefði að óbreyttu. Lækkunarþak vörugjalds á slíkar bifreiðar verði 250.000 kr. árið 2018.“
Fram kemur í greinargerð að það hafi einnig áhrif til lækkunar að innflutningur á vistvænum bifreiðum aukist meira en áætlað var í fjármálaáætlun, m.a. á rafbílum. Tekjur af bensín- og olíugjaldi lækki lítillega frá fjármálaáætlun og séu áætlaðar um 24,7 milljarðar.
Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar eru sett fram háleit markmið í loftslagsmálum. „Ríkisstjórnin vill gera betur en Parísarsamkomulagið gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040,“ segir meðal annars í sáttmálanum þar sem jafnframt er talað um að skattheimta skuli þjóna loftslagsmarkmiðum.
Athugasemdir