Fréttablaðið skýrir okkur frá því að nokkrir stjórnendur fyrirtækisins Klakks eigi von á um 60 milljón króna bónus hver fyrir að hafa selt einhverjar eignir síðustu misseri.
Jahá.
Ég hef unnið fyrir mér samfleytt síðan í apríl 1979. Oftast hef ég verið í fleiri en einni vinnu og alltaf hef ég tekið að mér flestöll aukastörf sem mér hafa boðist.
Með þessu hef ég náð að hafa hin þokkalegustu meðallaun og ég kvarta ekki.
En ég hef ekki safnað í neina sjóði, einfaldlega af því það hefur ekki verið í boði, og það má aldrei mikið út af bera.
Og ég mun aldrei þurfa að standa frammi fyrir því vandamáli hvað ég eigi að gera við 60 milljónir.
Nú spyr ég: Var það til að mynda samfélag sem borgar peningamönnum svona bónusa sem ég hef unnið öll þessi bráðum 38 ár?
Og ekki bara ég.
Er það til að reisa slíkt samfélag sem fólk kennir börnunum okkar á lágmarkslaunum; var það í von um einmitt þetta samfélag sem eldra fólkið okkar þrælaði alla sína tíð en býr nú margt við örbirgð í ellinni - var það til að stjórnendur Klakks gætu fengið 60 milljónir í bónus?
Athugasemdir