Aldrei áður í íslenskri fjölmiðlasögu hefur verið greint frá því að eigandi fjölmiðlafyrirtækis hafi keypt sér fasteign og látið fyrirtæki sitt greiða fyrir húsið með auglýsingasamningi. Þetta gerði Björn Ingi Hrafnsson, eigandi og stjórnarformaður fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar, í fyrra þegar hann keypti sér einbýlishús á Kirkjustétt í Reykjavík og greiddi seljanda fyrir það að hluta til með 24 milljóna króna auglýsingainneign hjá fjölmiðlafyrirtækinu sem hann stýrði. Kaupverð hússins var 97 milljónir króna.
Seljandi hússins var kaupsýslumaðurinn Guðmundur Gauti Reynisson, sem er einn af eigendum Húsgagnahallarinnar, og virðast bæði Björn Ingi og Guðmundur Gauti hafa blandað viðskiptum fyrirtækja sinna við sín eigin persónulegu viðskipti með þessum hætti.
Því var um að ræða svokallaðan „skiptidíl“, en slík viðskipti eiga sér stundum stað í fjölmiðlaheiminum á milli tveggja fyrirtækja en ekki á milli einstaklinganna sem eiga fyrirtækin.
Athugasemdir